Guðmundur Kristinn Jónmundsson fæddist 24. júlí 1939. Hann lést 30. desember 2024.

Útför fór fram 8. janúar 2025.

Elsku besti afi okkar, vinur og fyrirmynd. Á þessum tímamótum er þakklæti efst í huga okkar. Þakklæti fyrir einstaklega góðan vin og dýrmætar minningar. Afi lék stórt hlutverk í okkar lífi en við vorum einstaklega heppin að alast upp hjá afa og ömmu Ásdísi í Dalsbyggðinni.

Afi sannfærði okkur snemma að allir vegir væru okkur færir. Hann kenndi okkur m.a. að lesa og hjóla og áttum við eina „afabrekku“ í Garðabænum sem einkenndist af óteljandi göngu- og hjólaferðum. Allt frá æsku og fram á fullorðinsár fylgdist hann með okkar daglega lífi og áttum við regluleg símtöl og heimsóknir fram að síðasta degi. Afi var stoltur langafi og dýrmætt að sjá tenginguna sem myndaðist við langafabörnin Freyju og Bjart.

Afi hafði góða nærveru, gott að leita til hans, einstakt góðmenni og gríðarlega hnyttinn. Hann var einnig mikill húmoristi en á sama tíma rólegur. Við munum sakna þess að tala saman og heyra allar sögurnar sem hann hafði að segja.

Elsku afi, takk fyrir allt sem þú hefur gefið okkur og gert fyrir okkur. Við munum halda þínum gildum áfram um ókomna tíð. Þín verður sárt saknað.

Þín barnabörn,

Ásdís og Guðmundur.

Kveðja frá Barnaspítala Hringsins.

Guðmundur K. Jónmundsson barnalæknir hefur kvatt. Hann starfaði á Barnaspítala Hringsins mestan hluta starfsferilsins. Við kveðjum Guðmund með hryggum huga en miklu þakklæti.

Guðmundur átti frábæran feril sem barnalæknir á Barnaspítala Hringsins. Hann hóf störf á spítalanum árið 1972 og vann þar sleitulaust í um fjóra áratugi. Hann fékk því að sjá miklar breytingar í barnalækningum á þessum tíma. Guðmundur starfaði allan tímann við almennar barnalækningar og stóð vaktir og sinnti þeim verkefnum sem að höndum bar. En starfssvið hans var einkum meðferð barna með krabbamein. Guðmundur helgaði sig starfinu af lífi og sál. Á starfsferlinum fékk hann að sjá ótrúlegar framfarir í krabbameinslækningum barna og batahorfur bötnuðu umtalsvert á þeim tíma. Við starfslok Guðmundar var árangur meðferðarinnar gjörbreyttur og flest börn læknast af sjúkdómnum sem áður höfðu litlar lífslíkur. En álagið á sál og líkama barnanna og fjölskyldna þeirra var og er mikið. Guðmundur skildi það betur en flestir og var sjúklingum og fjölskyldum þeirra stoð og stytta.

Samhliða batnandi árangri í krabbameinsmeðferð barna í heiminum var árangur á Íslandi með því besta sem þekkist. Vafalaust skipti þar máli góð alþjóðleg tengsl og samvinna margra. Á Barnaspítala Hringsins voru það Guðmundur og Jón R. Kristinsson og síðar Ólafur Gísli Jónsson sem báru hitann og þungann af meðferðinni ásamt öðru frábæru samstarfsfólki. Umhyggja og ástríða krabbameinslækna barna og annars starfsfólks á Barnaspítalanum er mikil og hafði án efa mikil áhrif á árangurinn sem var – eins og áður sagði, með því besta sem þekkist.

Guðmundur var hógvær og yfirvegaður, brosti kannski með sjálfum sér þegar vel gekk. Hann var rólegur, mikill fagmaður, einstaklega minnugur og frábær félagi á Barnaspítala Hringsins. Með sorg í hjarta en djúpu þakklæti kveðjum við samstarfsfólk Guðmundar góðan félaga og frábæran barnalækni. Fjölskyldunni sendum við okkar dýpstu samúðaróskir.

F.h. samstarfsfólks á Barnaspítala Hringsins,

Ásgeir Haraldsson.