Þórður Snær Júlíusson
Þórður Snær Júlíusson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Undir kvöldmat á föstudag kom „lítil tilkynning“ á Facebook, en þá tilkynnti Þórður Snær Júlíusson í aðeins 84 orðum að hann hefði tekið til starfa sem framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar

Undir kvöldmat á föstudag kom „lítil tilkynning“ á Facebook, en þá tilkynnti Þórður Snær Júlíusson í aðeins 84 orðum að hann hefði tekið til starfa sem framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar.

Aðeins eru tveir mánuðir frá því að Þórður Snær tilkynnti í 824 orðum að hann tæki ekki þingsæti fyrir Samfylkingu næði hann kjöri. Ástæðan var upprifjun á fyrri skrifum, sem hann játaði að hefðu verið „röng, meiðandi og skaðleg“; framlag til „kvenfjandsamlegrar menningar“.

Þórður Snær nefnir ekkert sem breyst hafi á þessum tveimur mánuðum, sem geri það að verkum að hann sé nú tilvalinn til að „hjálpa við að breyta samfélaginu til hins betra með öflugri ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur og frábærum hópi þingmanna“.

Ugglaust nýtist hann Samfylkingu á þingi, en geta kjósendur annað en spurt sig hvort allt orðagjálfrið þegar hann sagðist ekki taka kosningu hafi verið annað en hræsni, beinlínis til þess að blekkja kjósendur?

Nú er hann umyrðalaust búinn að koma sér fyrir í þinginu á kostnað almennings, en almenningur fékk ekkert um það að segja. Kjósendur höfðu ekkert val um það og geta ekki einu sinni hafnað honum í næstu kosningum.