Útrás Vélar Marels settar upp í hátækniverksmiðju kaupanda í Austur-Evrópu. Á íslenskum verðbréfamarkaði er samanlögð velta með hluti í félaginu fyrstu tvær vikur þessa árs á við daglega veltu árin 2023 og 2024.
Útrás Vélar Marels settar upp í hátækniverksmiðju kaupanda í Austur-Evrópu. Á íslenskum verðbréfamarkaði er samanlögð velta með hluti í félaginu fyrstu tvær vikur þessa árs á við daglega veltu árin 2023 og 2024. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljóst er að samruni Marels og JBT hefur haft ýmiss konar áhrif á íslenskan verðbréfamarkað og einnig áhrif á gengi krónunnar. Sigurður Hreiðar Jónsson er forstöðumaður verðbréfamiðlunar Íslandsbanka og segir hann að mest muni um þær breytingar sem…

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Ljóst er að samruni Marels og JBT hefur haft ýmiss konar áhrif á íslenskan verðbréfamarkað og einnig áhrif á gengi krónunnar.

Sigurður Hreiðar Jónsson er forstöðumaður verðbréfamiðlunar Íslandsbanka og segir hann að mest muni um þær breytingar sem gerðar voru á skráningu JBT Marel í tengslum við samrunann: „Marel var áður með tvíhliða skráningu á íslenska verðbréfamarkaðinum og í Hollandi en íslenski markaðurinn ráðandi í veltu félagsins. Nú er hið sameinaða félag með skráningu í Bandaríkjunum og á Íslandi og hefur þetta t.d. haft áhrif á umfang viðskipta innanlands með þetta félag sem áður var eitt það veltuhæsta á íslenska verðbréfamarkaðinum,“ útskýrir Sigurður. „Ef við skoðum þróun í veltu hlutabréfa félagsins á Íslandi, þá var velta Marels árið 2023 og 2024 um einn milljarður króna á dag að meðaltali. Nú er heildarvelta Marels það sem af er ári um einn milljarður króna og sést greinilega að velta félagsins hefur öll færst til Bandaríkjanna,“ segir hann og áréttar að í þessum tölum sé búið að taka út viðskipti sem voru vegna samruna Marels og JBT sem leiddu til 460 milljarða króna veltu.

Tvískráning félaga hefur m.a. þann tilgang að laða að erlenda fjárfesta og einfalda þeim að stunda viðskipti með hluti í íslenskum félögum. Sigurður segir erlenda fjárfesta ekki hafa viljað fjárfesta beint á Íslandi þar sem íslenska krónan hafi gegnum tíðina sveiflast mikið, en markaðurinn hefur þó verið að dýpka og sveiflur farið minnkandi. Sigurður bendir á að það hafi verið mikilvægt í yfirtökuviðræðum JBT og Marels að hið sameinaða félag myndi vera með tvíhliða skráningu í Bandaríkjunum og Íslandi, og að fyrsta tilboð JBT hafi ekki verið með tvíhliða skráningu.

Marel ekki lengur flokkað sem íslenskt félag

Yfirtaka JBT á Marel var samþykkt í desember síðastliðnum en hafði töluverðan aðdraganda og segir Sigurður að um það bil hálft ár þar á undan hafi velta með bréf Marels aukist í íslensku kauphöllinni, þar sem erlendir aðilar voru að auka sína stöðu og innlendir aðilar að selja á móti, en í dag hafi viðskiptin með hluti í félaginu færst nær alfarið til Bandaríkjanna. „Breytingin á skráningunni hefur einnig þau áhrif að Marel mun fara úr erlendum vísitölum og mun vigt Íslands þar að öllum líkindum minnka þar sem Marel er ekki lengur flokkað sem íslenskt félag. Breytt skráning þýðir það líka að hlutir íslenskra lífeyrissjóða í JBT Marel flokkast núna sem erlend eign.“

Eðlilega minnkar það viðskipti á íslenska markaðnum að erlendir vísitölusjóðir flokki JBT Marel nú sem bandarískt félag en Sigurður telur ekki að það komi að sök fyrir íslenska markaðinn þar sem ný félög hafi komið inn á hann. Þá telur hann að það valdi lífeyrissjóðunum ekki vandræðum þó að skilgreina þurfi eign þeirra í Marel sem erlenda fjárfestingu, en lögin takmarka hve hátt hlutfall eignasafns sjóðanna má vera erlent. „Við yfirtöku JBT í Marel lækkar hlutfall Marels í íslensku verðbréfavísitölunni OMX 15, og fer strax úr 24% niður í 18%. Líkur eru á að hlutfall JBT Marels í vísitölunni muni halda áfram að minnka ef velta hérlendis heldur áfram að vera lítil og ef erlendir aðilar eignast stærri hlut í félaginu, en hlutfallið mun að öllum líkindum minnka í næstu endurstillingu í byrjun júlí.“

Aðspurður segir Sigurður að það sé í sjálfu sér ekki svo skrítið að aðalskráning félags eins og JBT Marels sé erlendis frekar en á Íslandi, enda félagið með starfsstöðvar og viðskiptavini um allan heim og reksturinn lítið háður íslenska hagkerfinu. Þá bendir Sigurður á að tvíhliða skráning erlendis geti í sumum tilvikum aukið áhuga fjárfesta. Bæði sé mun meira fjármagn á sveimi á verðbréfamörkuðum eins og þeim bandaríska en einnig séu mörgum sjóðum settar skýrar fjárfestingarreglur sem myndu t.d. leyfa þeim að kaupa félag í ákveðnum geira ef það er skráð á bandarískan hlutabréfamarkað, en ekki ef það er á markaði í öðru landi. „Skráningu á markað eins og þann bandaríska fylgir líka aukin athygli frá greinendum og birti t.d. Bank of America nýverið ítarlega greiningu á Oculis sem er tvískráð á Íslandi og í Bandaríkjunum,“ útskýrir Sigurður.

„Mestur getur ávinningurinn verið af því að komast inn í erlenda vísitölu eins og við sáum t.d. gerast með Alvotech á dögunum þegar það félag var tekið inn í „biotech“-vísitölu Nasdaq, en fyrir vikið lenti félagið á radar sjóða sem fylgja þessari vísitölu og vildu bæta Alvotech við eignasafn sitt.“

Innstreymi fjármagns styrkti krónuna

Um áhrif viðskipta JBT og Marels á gengi krónunnar segir Sigurður að ljóst sé að það hafi munað um þá tugi milljarða sem komu inn í hagkerfið. „Þegar sameiningin fór af stað var gengi krónunnar í kringum 150 gagnvart evru en daginn sem samruninn fór í gegn var gengið 143 enda mikið innstreymi fjármagns til landsins í aðdragandanum.“

Sigurður segist almennt vera ánægður með síðasta ár á mörkuðum. „Við vorum veltuhæst með hlutabréf í 10 mánuði af 12 og erum mjög ánægð með hversu líflegur markaðurinn var þrátt fyrir krefjandi umhverfi. Við sjáum nýtt ár fara vel af stað og margt jákvætt fram undan á nýju ári þegar vextir lækka.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson