Selfoss og Stjarnan komu sér af hættusvæði úrvalsdeildar kvenna í handknattleik í gær með því að sigra tvö neðstu liðin, ÍBV og Gróttu, í hörkuleikjum.
Selfyssingar unnu ÍBV, 24:22, í hörkuspennandi Suðurlandsslag á Selfossi þar sem aðstoðarþjálfarinn Jóna Margrét Ragnarsdóttir tók fram skóna eftir ellefu ára hlé og skoraði þrjú mikilvæg mörk fyrir Selfoss í seinni hálfleiknum, 42 ára gömul, og átti auk þess fimm stoðsendingar. ÍBV var yfir í hálfleik, 12:7, en innkoma Jónu breytti öllu.
Perla Ruth Albertsdóttir skoraði átta mörk fyrir Selfoss og Sunna Jónsdóttir skoraði sex mörk fyrir ÍBV sem tapaði sjöunda leik sínum í röð.
Stjarnan vann Gróttu í Garðabæ, 31:28, þar sem Tinna Sigurrós Traustadóttir skoraði níu mörk fyrir Stjörnuna og Eva Björk Davíðsdóttir átta. Ída Margrét Stefánsdóttir skoraði tólf mörk fyrir Gróttu.