Hrefna Friðriksdóttir fæddist í Stafnesi á Raufarhöfn 12. apríl 1936. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 7. janúar 2025.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Hansdóttir húsmóðir frá Þórkötlustöðum við Grindavík, f. 1903, d. 1989, og Friðrik Hans Guðmundsson verkamaður, f. 1887, d. 1957. Systkini Hrefnu eru Klara, f. 1925, d. 1993, Guðmundur, f. 1926, d. 2021, Kristín, f. 1928, d. 2010, Þorbjörn, f. 1929, d. 2012, Sigríður, f. 1930, d. 1975, Ólöf, f. 1932, Hallsteinn, f. 1933, d. 1955, Kári, f. 1934, Guðrún, f. 1938, Bryndís, f. 1941, d. 2013, og Friðrik, f. 1944.

Eiginmaður Hrefnu var Jón Guðmundsson sjómaður, f. 30.1. 1930, d. 30.10. 2006, sonur hjónanna Sigurbjargar Björnsdóttur húsmóður frá Sveinungsvík, f. 1906, d. 1992, og Guðmundar Eiríkssonar skólastjóra frá Grasgeira, f. 1898, d. 1980. Börn Jóns og Hrefnu eru: 1) Sigurbjörg, f. 1956, maður hennar var Þórarinn Stefánsson, f. 1945, d. 2010, börn: a) Hafþór, f. 1976, d. 2019, dætur með Yngveldi M. Sturlud.: Harpa Mjöll, f. 2001, Lotta Karen, f. 2004, dóttir Hörpu: Villimey Yrja Axelsd., f. 2020, b) Petrína Soffía, f. 1977, maður hennar er Hlynur Pálmas., f. 1970, börn: Pálmi Hrafn, f. 2002, Rebekka Hrönn, f. 2004, Þórunn Tinna, f. 2011, c) Jón, f. 1980, d. 1980, d) Jón, f. 1981, kona hans var Ásdís María Ægisd., f. 1988, d. 2024, sonur: Þórarinn Eldjárn, f. 2010, e) Þorbergur, f. 1988, sonur með Tinnu Skúlad.: Alexander Ívar, f. 2011, sonur með Katrínu Ó. Reykjalín: Aron Brimir, f. 2016, og stjúpsonur Baldur Adrían, f. 2009. 2) Friðrik, f. 1957, kona hans er Steinunn Leósd., f.1 958, börn: a) Steinþór, f. 1981, kona hans er Nanna S. Höskuldsd., f. 1983, synir: Auðunn Elí, f. 2005, Höskuldur Breki, f. 2012, b) Hrefna, f. 1983, maður hennar er Vignir M. Garðarss., f. 1979, börn: Kristófer Leó, f. 2007, Gabríela Ósk, f. 2011, c) Þorri, f. 1993, sambýliskona Sigríður F. Halldórsd., f. 1992, börn: Hrefna Dís, f. 2016, Halldór Steinar, f. 2021. 3) Gissur, f. 1958, kona hans er Unnur Rósmundsd., f. 1962, dóttir Gissurar með Fjólu Leósd. a) Monika, f. 1977, maður hennar er Sigurður Árnas., f. 1976, börn: Fjóla Guðrún, f. 1996, unnusti Michaël, f. 1980, Gunnar Hilmar, f. 1998, sambýliskona Embla Sól Logad., f. 2000, sonur: Hjalti Snær, f. 2024, Gissur Snær, f. 2001, sambýliskona Arna Rún Arnard., f.2005, sonur Gissurar með Báru Ingvarsd. b) Auðunn Rúnar, f. 1991, kona hans er Stefanía Ó. Þórisd., f. 1992, börn: Þórir Rúnar, f. 2021, Bára Lovísa, f. 2024. 4) Guðrún, f. 1962, d. 1989. 5) Auður, f. 1965, d. 1989.

Hrefna ólst upp í Stafnesi og bjó síðan í Jónshúsi á Raufarhöfn með Jóni. Hún vann við ýmis störf, síldarvinnslu, afgreiðslustörf og var hreppstjóri í Raufarhafnarhreppi frá 1978. Einnig sinnti hún formennsku hjá slysavarnafélaginu á staðnum. Hún var skrifstofumaður hjá Fiskvinnslunni Jökli í yfir 15 ár eða til 2001 þegar þau hjónin fluttust til Akureyrar vegna veikinda Jóns en hann lést af þeim árið 2006. Hrefna bjó áfram á Akureyri til lokadags, síðustu árin dvaldi hún á hjúkrunarheimilinu Hlíð þar sem hún lést eftir stutt veikindi.

Útför Hrefnu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 20. janúar 2025, klukkan 13. Jarðsett verður síðar í kirkjugarði Raufarhafnar.

Amma Hrefna var yndislega góð kona og það var svo gott að eiga hana sem langömmu. Hún var svo góðhjörtuð og hugsaði vel um alla í kringum sig og var alltaf til í að gera hluti með mér. Við hlógum mikið saman og bjuggum til skemmtilegar minningar sem munu fylgja mér í framtíðinni. Hún var algjör nammigrís og mér fannst það líka skemmtilegt. Hún var með einstakan og skemmtilegan persónuleika og það var gaman að fá hana í heimsókn og líka að heimsækja hana. Hún var oft með eitthvað skrýtið að sýna mér og það var alltaf til kandís hjá henni sem ég mátti fá mér af. Hún las oft fyrir mig og við fórum saman í göngutúra í lystigarðinum. Ég heimsótti hana oft á Akureyri og það var alltaf gott að hitta hana þó að hún myndi ekki alltaf lengur hvað við hétum. Margir hafa sagt við mig að ég líkist henni og mér finnst gott að heyra það þó að ég sjái það ekki sjálf. Amma var dugleg við að hrósa fólki og segja hvað henni fannst gott að hafa okkur nálægt sér. Ég sakna ömmu mikið og vil alltaf muna eftir henni.

Þórunn Tinna Hlynsdóttir.

Amma Hrefna var ljúf og góð kona. Hún var mikill húmoristi og ég á margar góðar minningar um hana. Hún var alltaf að lauma að okkur nammi og bauð upp á kandís í öllum heimsóknum, þegar við fórum svo heim átti hún til að stinga smá nesti í vasana okkar. Epla-cider minnir mig alltaf á ömmu þar sem hann átti alltaf stað í ísskápnum og mátti drekka með öllum máltíðum. Hún var barngóð og okkur leið vel í kringum hana. Við fengum að horfa á gamlar teiknimyndir á vídeóspólum þegar við vorum í pössun hjá henni, Stubbana, Dodda litla og Póstinn Pál. Amma var alltaf til staðar fyrir okkur og fannst gott að fá okkur í heimsókn og hafa okkur hjá sér, þó að við værum nú svolítið fyrirferðarmikil og þó að hundurinn hennar, Perla, hafi ekki verið jafnánægð með að deila athyglinni með okkur. Amma var alltaf jákvæð og skammaði okkur lítið og við fundum það sjálf að hjá henni vorum við velkomin og á slíkum stöðum líður börnum vel, þótt það sé ekki endalaus afþreying í boði.

Amma var mikilvæg í mínu lífi og ég á eftir að sakna hennar. Það var dýrmætt að eiga hana að í æsku og geta minnst hennar fyrir allt það góða sem hún skildi eftir.

Rebekka Hrönn Hlynsdóttir.

Einstaklega glæsileg kona hefur kvatt. Amma Hrefna hafði allt það til að bera sem prýtt getur eina konu og skilur eftir sig stórt skarð, það er ógerlegt að koma 89 árum fyrir í örfáum línum. Hún var gríðarlega sterk kona sem lét aldrei eftir sér að gera ekki sitt besta. Amma ólst upp í stórri fjölskyldu og var alla tíð mikil fjölskyldukona sem elskaði allt sitt fólk án skilyrða og tók því eins og það var. Hún var skörungur sem var á undan sinni samtíð hvað varðar kvenréttindi, hún vildi að allt heimilisfólk sinnti heimilisstörfum þó það væri í mismiklum mæli og hún vann alla tíð utan heimilis eins og mögulegt var vegna barneigna. Hún starfaði sem hreppstjóri frá 1978 og var mjög stolt af því starfi og hafði embættishúfuna hjá sér til síðasta dags, einnig vann hún önnur störf meðfram því og var óhrædd að tileinka sér nýjungar í tækni þar til hún þurfti ekki lengur á því að halda. Hún var vandvirk og skilaði ekki frá sér hálfkláruðum verkum, það sem hún matreiddi var ljúffengt og það sem hún saumaði fyrir heimilið var vandað. Hún hafði þó enga sérstaka gleði af hannyrðum eða heimilisstörfum og naut sín betur við ýmis önnur hugðarefni. Amma missti tvær yngstu dætur sínar af slysförum og eftir það reiðarslag varð hún ekki söm. Hún leitaði helst huggunar í garðinum sínum þar sem hún kom á legg hinum ólíklegustu plöntum sem varla áttu að geta dafnað á þessum slóðum í salti, vindi og kulda. Hjá henni birtust reglulega hin litríkustu blóm og allt virtist öðlast líf. Amma sinnti öllum sínum afkomendum af bestu getu, án þess að hampa neinum þeirra sérstaklega heldur með því að deila því sem hún hafði að gefa, hún var jú einstaklega gjafmild og frumleg kona sem naut vináttu og virðingar síns fólks. Hún var ákveðin í skoðunum og fastheldin á þær og vissi sem var, að enginn annar hefði meira vit á hennar lífi en hún. Hún var hugmyndarík og snjöll og var alltaf tilbúin að prófa eitthvað nýtt og gera eitthvað skemmtilegt, þó að öðrum þætti það kjánalegt, hún gerði miklar kröfur til sjálfrar sín og var seinþreytt. Sum áhugamálin entust lengur en önnur og má þar helst nefna garðyrkjuna og heilsutengd mál. Amma var glaðsinna svo eftir því var tekið, mikill sælkeri og hafði gaman af glensi og léttleika en hún gat líka alveg verið skapmikil og fyrirgaf ekki hvað sem var ef ekki var ástæða til þess. Hún sinnti afa vel í hans veikindum og saknaði hans mjög, leiðir þeirra höfðu legið saman alla tíð þar sem þau ólust upp á sama bletti, milli fólksins þeirra ríkti vinátta og þótt fimm ár skildu þau að þá var alltaf strengur milli þeirra. Amma missti mikið um ævina og hún átti líka mikið, hún var ákaflega dýrmæt þeim sem kveðja hana í dag og mörgum sem fóru á undan. Amma var sjálf tilbúin til brottfarar, enda lá áhugi hennar mjög á andlega sviðinu og hún var handviss um að hennar biðu dæturnar, eiginmaður og fleiri og sá endurfundur var henni hjartfólginn og mjög svo kærkominn. Hún átti alltaf marga að, líka hinum megin. Amma átti heima á Raufarhöfn, nú er hún komin heim.

Petrína Soffía Eldjárn.

Amma Hrefna var ljúf og góð kona. Hún var mikill húmoristi og ég á margar góðar minningar um hana. Hún var alltaf að lauma að okkur nammi og bauð upp á kandís í öllum heimsóknum, þegar við fórum svo heim átti hún til að stinga smá nesti í vasana okkar. Epla-cider minnir mig alltaf á ömmu þar sem hann átti alltaf stað í ísskápnum og mátti drekka með öllum máltíðum. Hún var barngóð og okkur leið vel í kringum hana. Við fengum að horfa á gamlar teiknimyndir á vídeóspólum þegar við vorum í pössun hjá henni, Stubbana, Dodda litla og Póstinn Pál. Amma var alltaf til staðar fyrir okkur og fannst gott að fá okkur í heimsókn og hafa okkur hjá sér, þó að við værum nú svolítið fyrirferðarmikil og þó að hundurinn hennar, Perla, hafi ekki verið jafnánægð með að deila athyglinni með okkur. Amma var alltaf jákvæð og skammaði okkur lítið og við fundum það sjálf að hjá henni vorum við velkomin og á slíkum stöðum líður börnum vel, þótt það sé ekki endalaus afþreying í boði.

Amma var mikilvæg í mínu lífi og ég á eftir að sakna hennar. Það var dýrmætt að eiga hana að í æsku og geta minnst hennar fyrir allt það góða sem hún skildi eftir.

Rebekka Hrönn Hlynsdóttir.

Við kveðjum yndislega ömmu í dag. Við systkinin vorum öll svo heppin að alast upp með ömmu Hrefnu í okkar tilveru og það var svo sannarlega dýrmætt. Amma var virkilega góð kona, sterk fyrirmynd og stóð með sínum. Það var alltaf gott að koma við hjá ömmu, bæði til að gista hjá henni sem barn og seinna til að kíkja við í kaffi hjá henni sem fullorðinn.

Amma var félagslynd og fannst gott að hafa fólkið sitt nálægt sér en hún leitaði sjaldan eftir aðstoð annarra heldur reyndi alltaf að vera sjálfri sér næg. Hún fæddist og ólst upp í Stafnesi á Raufarhöfn en á Raufarhöfn bjó hún í 70 ár eða þar til þau hjónin neyddust til að flytja þaðan vegna heilsu afa. Þau afi bjuggu í húsinu sínu, Jónshúsi, og ólu þar upp sín fimm börn, sinntu störfum sínum alla tíð og áttu ástríkt hjónaband.

Amma hafði skoðanir á mörgu og var óhrædd að koma þeim á framfæri og þau hjónin höfðu oft mjög ólíka sýn á hluti sem þau mundu bæði eftir og höfðu bæði gaman af því að reyna að sannfæra hitt um að það hefði rangt fyrir sér – amma vann þann vinsamlega kýting oftast, líklega var hún svolítið þrjósk.

Ömmu var mjög umhugað um að gefa okkur að smakka alls kyns grænmeti sem hún ræktaði í garðinum og stundum var það jafnvel sykrað til að koma því ofan í okkur. Við vorum hins vegar mun hrifnari af því að fá bara sælgæti hjá henni en hún deildi þeim áhuga líka með okkur og vissi ekkert betra en að eiga smá nammi í skál og hafa eitthvert ömmubarnið með sér að brasa með nammiskálina á borðinu. Hún var svona amma sem þurfti ekki alltaf að vera að gera eitthvað með okkur, við sóttum til hennar líka bara til að vera hjá henni og gera bara ekkert sérstakt. Það var alltaf velkomið að koma í heimsókn, líka með vini og seinna með maka og börn.

Amma var stolt kona en leit ekki stórt á sjálfa sig, ef henni var hrósað svaraði hún því með hrósi á móti. Hún var alltaf með tilsvör á reiðum höndum og var með munninn fyrir neðan nefið, það átti enginn neitt inni hjá henni og hún gerði sér ekkert upp. Hún var hrein og bein, flott kona sem gekk í gegnum erfiða hluti sem hefðu getað brotið flesta. Amma breyttist en áfram hélt hún því það var bara ekki annað í boði. Hún var okkur alltaf sama góða amman en það fór ekkert fram hjá okkur að hún barðist líka við sorgina og söknuð eftir dætrum sínum sem fóru alltof snemma, hún talaði lítið um það við okkur en var mjög leitandi á því sviði sem hún taldi geta fært sig nær þeim. Hún hætti aldrei að bíða eftir að hitta þær aftur og þegar heilsa hennar versnaði sagði hún margoft að hún hefði nú alls ekki ætlað að verða svona gömul.

Síðustu árin dvaldi hún á Hlíð á Akureyri þar sem henni leið mjög vel, hún var samt staðföst á því að hún byggi enn á Raufarhöfn þótt árin á Akureyri væru næstum því orðin 20. Hjarta hennar sló á æskuslóðum hennar þar sem hún átti sitt líf með foreldrum, systkinum, maka og börnum og það var augljóst að hún beið þess að fara aftur þangað.

Við ömmubörnin finnum fyrir sorg í dag en einnig gleði og þakklæti. Við kveðjum yndislega ömmu í dag.

Petrína, Jón og Þorbergur Þórarinsbörn.

Ég minnist langömmu minnar, Hrefnu, sem ég heiti í höfuðið á. Hún var hress og skemmtileg og fannst alltaf gaman að hitta okkur börnin þegar við heimsóttum hana og þegar hún kom til okkar. Hún passaði okkur systkinin stundum þegar við vorum smábörn og vildi þá alltaf gefa okkur eitthvað gott, hún átti hundinn Perlu sem var alls ekki hrifin af okkur börnunum og amma passaði vel upp á að hún væri ekki mjög nálægt okkur. Perla fór með henni hvert sem hún fór. Amma var stundum með okkur á jólunum þegar við vorum yngri og fannst gaman að segja okkur skemmtilega hluti og leika við okkur fingraleiki, stundum kom Ólöf systir hennar með henni og okkur börnunum fannst þær vera alveg eins og skildum ekki hvernig amma gat komið tvöföld í heimsókn. Ömmu þótti vænt um að ég skyldi fá nafnið hennar og sagði mér frá því að hún hefði einu sinni verið með hrafn á heimilinu sem hún kallaði Nabba en hann var víst mjög óþægur. Mér þótti mjög vænt um að fá senda mynd af henni og afa Pálma á útskriftinni minni í desember síðastliðnum þar sem þau sendu mér kveðju af því að þau gátu ekki komið og verið með okkur. Það var leiðinlegt að búa svona langt frá henni því þegar hún hætti að geta komið suður til okkar þá hittum við hana sjaldnar en alltaf þegar ég fór norður kíkti ég til hennar og færði henni nammi eins og hún gaf mér alltaf áður. Það verður tómlegt að vita ekki af henni, hún hafði alltaf svo gaman af því að hitta fólkið sitt og ljómaði upp í hvert sinn sem við hittumst. Ég minnist ömmu með þakklæti fyrir þann tíma sem ég átti með henni og ástina sem hún sýndi mér alltaf og vona að henni líði vel. Takk fyrir allar fallegu stundirnar og dýrmætu minningarnar elsku amma.

Pálmi Hrafn Hlynsson.

Það er erfitt að koma í orð öllum þeim minningum og tilfinningum sem vakna við að hugsa um Hrefnu, móðursystur mína og fyrirmynd í lífinu. Hún var einstök kona, réttsýn og raunagóð, sem alltaf var reiðubúin að hjálpa öðrum. Hún stóð fast á sannfæringu sinni og sá til þess að sanngirni réði för. Hrefna var sterkur einstaklingur sem veitti fólki kærleika og stuðning, jafnt í gleði sem sorg.

Hrefna og mamma voru úr tólf systkina hópi sem ólst upp á Raufarhöfn hjá ömmu og afa. Þegar mamma flutti ung frá Raufarhöfn hélt hún alltaf góðu sambandi við Hrefnu, stóru systur sína, sem reyndist henni traustur stuðningur í gegnum lífið.

Ein af dýrmætustu minningunum mínum um Hrefnu er þegar hún og Nonni buðu mömmu og okkur fjórum systkinunum að koma til þeirra á Raufarhöfn yfir jólahátíðina. Þau tóku á móti okkur opnum örmum af kærleika og hlýju. Þessi jól í Jónshúsi standa upp úr sem ógleymanlegt ævintýri úr æsku minni. Fyrir okkur systkinin, sem vorum börn á þeim tíma, var það einstakt að fagna jólunum í gamla heimabæ mömmu, þar sem snjórinn var svo djúpur að moka þurfti leið út um þakglugga til að komast út. Hrefna var hjarta heimilisins og skapaði stemmingu sem fyllti húsið af hlátri, lífi og gleði.

Það var einmitt í Jónshúsi sem ég lærði grundvallarlögmálin í viðskiptum, og það yfir matarborðinu! Þar var ekki hikað við að bjóða í, prútta og semja um verð á matnum sem var á diskunum, einkum þegar um lambafitu og merg var að ræða. Ég var fljót að átta mig á því að sumir í fjölskyldunni höfðu sérstakt dálæti á þessum kræsingum og litu með löngunaraugum á það sem ég setti til hliðar á mínum diski. Frændfólkið sá tækifæri og byrjaði að bjóða í fituna og merginn, og áður en ég vissi af var allt farið til bestbjóðanda. Þessar glettnu samræður yfir máltíðunum kenndu mér margt og sýndu snilldina í góðum samningaviðræðum. Þessi samskipti hafa reynst mér vel í gegnum tíðina.

Ég minnist þess líka þegar Hrefna kom suður í heimsókn til mömmu. Samtöl þeirra systra voru svo fyndin, orðaforðinn, norðlenskan, húmorinn og glettnin léku svo stórt hlutverk í samskiptum þeirra. Það var eitthvað svo sérstakt við það hvernig þær gátu gert lífið svo litríkt með fyndnum frásögnum sem smituðu alla sem voru nærri. Það var einmitt hvernig Hrefna og fjölskyldan valdi umræðuefnin og sagði frá þeim sem gerði samverustundirnar svo eftirminnilegar.

Vináttan og samveran sem við systradæturnar, ég, Guðrún og Auður, áttum svo síðar tengdi okkur Hrefnu enn betur, enda var hún þeim frábær fyrirmynd. Eftir slysið árið 1989 var sorgin yfirþyrmandi og hafði djúp áhrif á alla fjölskylduna. Nú hefur Hrefna kvatt þetta líf og mun sameinast dætrum sínum og Nonna sínum hinum megin.

Hrefna hafði mjög mikil áhrif á líf mitt og líðan, og samskipti okkar voru einlæg og hlý. Í hvert skipti sem við hittumst fann ég fyrir kærleikanum og umhyggjunni sem hún gaf af sér. Ég er ómetanlega þakklát fyrir allar dýrmætu stundirnar sem við áttum saman.

Elsku Hrefna mín, megir þú hvíla í friði.

Sandra B. Franks.