Tónlistarkona Lagasmiðurinn, upptökustjórinn og söngkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir snýr aftur í sviðsljósið
Tónlistarkona Lagasmiðurinn, upptökustjórinn og söngkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir snýr aftur í sviðsljósið
Nokkuð er um liðið síðan Hildur Kristín Stefánsdóttir lét í sér heyra undir eigin nafni þótt hún hafi verið iðin í tónlist sem lagasmiður og upptökustjóri. Hún byrjar árið þó með látum, því 1. janúar kom út breiðskífan Afturábak, sem er fyrsta stóra …

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Nokkuð er um liðið síðan Hildur Kristín Stefánsdóttir lét í sér heyra undir eigin nafni þótt hún hafi verið iðin í tónlist sem lagasmiður og upptökustjóri. Hún byrjar árið þó með látum, því 1. janúar kom út breiðskífan Afturábak, sem er fyrsta stóra platan sem hún sendir frá sér á löngum tónlistarferli, eins og fram kemur í viðtali í Dagmálum.

Hildur vakti fyrst athygli í hljómsveitinni Rökkurró fyrir átján árum eða svo, en sú sveit tók þátt í Músíktilraunum, gaf út plötur og fór í tónleikaferðir víða um heim. Í miðjum klíðum tók sveitin sér ársleyfi því Hildur vildi breyta til, fluttist til Japans sem skiptinemi að læra japönsku. „Ég ætlaði að taka pásu, ætlaði að læra japönsku og ekki gera neitt í tónlist en kvöldið áður en ég fór út fannst mér það ómögulegt og ákvað að taka rafmagnssellóið mitt með.“ Þegar út var komið segist hún hafa séð að það færi vel saman við námið að prófa að gera tónlist, kom sér þar upp aukasjálfi í tónlist, Lily and Fox, og spilaði eigin lög á tónleikum þar í landi. „Ég var mikið að prófa mig áfram en ákvað að skilja þetta verkefni eftir í Japan þegar ég flutti aftur heim. Við í Rökkurró ákváðum að gera eina plötu í viðbót, en við vorum orðið svo ólík að við hættum fljótlega eftir að hún kom út.“

Rökkurró hætti eftir Evróputúr 2015, en stuttu eftir að hljómsveitin kom heim úr þeirri ferð tók Hildur þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins með lagið „Fjaðrir“ sem hún samdi með Guðfinni Sveinssyni, þannig að það voru býsna skýr skil á því að vera í draumkenndri indíhljómsveit eða að syngja popptónlist. Ári síðar sendi Hildur svo frá sér lagið „I'll Walk With You“ sem kom henni rækilega á kortið. „Þetta var ótrúlegt, það sprakk strax út. Það var svo merkilegt, eftir að hafa verið í hljómsveit lengi sem átti aldrei lag á vinsældalista eða komst i útvarpsspilun. Ég man að þegar ég gaf þetta lag út hugsaði ég: kannski mun einhver tengja við þetta og svo sprakk það algerlega.“

Klessti smá á vegg

Það er þó eðli vinsælda að allt í einu eru allir að tala um þig en svo allt í einu hætta allir að tala um þig.

„Það er líka það sem getur gerst á Íslandi og mér finnst svo merkilegt að bransinn hér er oft mjög fljótur að skipta um hvað sé vinsælast og það var mikill skóli. Ég gaf út þetta lag og gekk rosa vel, gaf út EP-plötu í kjölfarið og þar voru nokkur lög sem fengu góða spilun, tók svo aftur þátt í Söngvakeppninni, 2017, með lagið „Bammbaramm“, sem varð reyndar algjört barna-hit, sem var mjög gaman. Þessi tvö ár voru alveg brjáluð og ég hafði ekki undan, en svo gerðist það frekar snögglega um haustið að allt í einu duttu bókanirnar niður, þá voru komnir nýir listamenn sem urðu vinsælir og það var alveg erfitt,“ segir Hildur og bætir við að upp úr því hafi hún lent á vegg. „Þetta var erfitt andlega, það er erfitt að vera sólólistamaður og þurfa að halda öllum boltum á lofti í einu, passa að hafa nóg að gera og oft líka að vera í einhverri vinnu meðfram. Þetta er oft 150% vinna og ég fékk smá „burnout“, klessti smá á vegg og átti ekki mjög gott tímabil.“

Hildur segir að hún hafi greinst með kvíðaröskun og ADHD á þessum tíma og þá hafi hún farið að skilja sjálfa sig betur, farið að skilja hvernig hún virkaði eins og hún orðar það. „Þá fór ég aftur að geta tekið völdin og haldið áfram.“

Komst á sporið

Fyrir stuttu kom út ný plata Hildar, Afturábak, eins og nefnt er í upphafi. Lögin á plötunni eru öll ný utan eitt sem hún átti í handraðanum, en eins og hún rekur söguna var hún búin að taka upp breiðskífu árið 2020, sem átti að verða hennar fyrsta stóra plata, en var ekki sátt við plötuna þegar á reyndi. „Ég var að vinna með umboðsmanni á þeim tíma sem var að reyna að ýta mér í ákveðna átt og ég var mikið að semja lög fyrir aðra, sem ég hef talsvert gert í gegnum tíðina, og rumpaði plötunni af. Það var alveg fín plata en svo var ég ekki viss um hvort ég ætti að gefa hana út. Ég var hætt að vinna með umboðsmanninum og var því ein á báti og fann að það væri eitthvað ekki rétt. Það tók mig svo nokkur ár að fatta að ég þyrfti að finna mig aftur. Ég var búin að týna mér í því að semja fyrir aðra, hlusta á aðra, spá í hvað bransinn vildi og hvað virkaði, því það er það sem maður á að gera þegar maður er í lagasmíðum fyrir aðra.

Svo gerist það 2023 að ég byrja að semja eitthvað nýtt sem ég var mjög spennt fyrir. Ég var þá líka að leika mér í upptökunum og fannst ég vera komin á sporið með það sem ég vildi gera og þá gerðust hlutirnir mjög hratt og það tók ekki nema nokkra mánuði þar til allt var komið á fullt. Þegar þetta var svo komið í gang þá gat ég ekki hætt.“

Hildur segist vera þakklát fyrir að hafa beðið með að gera stóra plötu þar til núna. „Mér finnst ég vera miklu sannari sjálfri mér á þessari plötu og hún kemur 100% frá hjartanu. Hún er öll unnin út frá tilfinningum og upplifunum sem ég hef átt síðustu ár þannig að ég er ofsalega stolt af þessar plötu.“

Ég er að lifa drauminn

Áttu þér draum um það að slá í gegn aftur og þá varanlega?

„Mér finnst draumur minn vera að rætast núna, að ég fái að gefa út plötu sem er bara rosalega mikið ég og að sjá að fólk tengir við það. Og að finna að eftir allt sem gengið hefur á þá er ég enn standandi. Ég var oft nálægt því að hætta og ég var ekki alveg viss hvort ég myndi gefa út þessa plötu. Mér finnst ég vera að lifa drauminn að fá að gefa þessa plötu út og halda áfram að vinna með spennandi fólki. Það væri gaman að fá að spila aftur eitthvað úti í heimi, það er mjög gefandi. Það er eitthvað fallegt við það þegar maður er að fara um allt og fattar hvað tónlistin er magnað tungumál sem tengir mann við fólk og ég á margar fallegar minningar frá því að vera með Rökkurró í tónleikaferðum.“

Höf.: Árni Matthíasson