Bjørn Lomborg
Bjørn Lomborg
Ákvörðun ESB um að auka markmið sín um að draga úr losun árið 2030 var hrein dyggðaflöggun. Líklegt er að kostnaðurinn fari yfir nokkrar billjónir evra.

Bjørn Lomborg

Um allan heim eru fjármál hins opinbera nálægt hættuástandi. Vöxtur á hvern einstakling heldur áfram að lækka á meðan kostnaður eykst vegna ellilífeyris, menntunar, heilsugæslu og varnarmála. Þessi brýnu forgangsatriði gætu auðveldlega krafist 3-6 prósenta til viðbótar af landsframleiðslu. Samt kalla grænir aðgerðasinnar hávært eftir því að stjórnvöld eyði allt að 25 prósentum af landsframleiðslu okkar í að kæfa vöxt í nafni loftslagsbreytinga.

Ef dómsdagur vegna loftslagsbreytinga væri yfirvofandi væri sú stefna ekki svo vitlaus. Sannleikurinn er þó ekki eins dramatískur. Nýlega hafa verið birtar tvær stórar vísindalegar áætlanir um heildarkostnað við loftslagsbreytingar á heimsvísu. Þetta eru ekki einstakar rannsóknir, sem geta verið mismunandi (þar sem dýrustu rannsóknirnar fá mikla umfjöllun í fjölmiðlum). Þess í stað eru þær meta-rannsóknir byggðar á öllum tiltækum ritrýndum rannsóknum. Önnur rannsóknin er rituð af einum þeirra loftslagshagfræðingum sem mest er vitnað í, Richard Tol; hin er eftir eina loftslagshagfræðinginn sem hefur hlotið Nóbelsverðlaunin, William Nordhaus.

Rannsóknirnar benda til þess að 3°C hitahækkun í lok aldarinnar – sem er dálítið svartsýnisleg spá miðað við núverandi þróun – muni bera alþjóðlegan kostnað sem jafngildir á milli 1,9% og 3,1% af vergri heimsframleiðslu. Til að setja þetta í samhengi áætla SÞ að í lok aldarinnar verði meðalmaðurinn 350% ríkari en hann eða hún er í dag. Vegna loftslagsbreytinga verður það eins og að vera „aðeins“ 335-340% ríkari en í dag.

Hvers vegna er þetta svona ólíkt því sem við höfum fengið að heyra í fjölmiðlum? Dómsdagstrúarfólk og trúgjarnir blaðamenn gera ekki ráð fyrir þeirri einföldu staðreynd að fólk hefur ótrúlega aðlögunarhæfni og tekur á flestum loftslagsvandamálum með litlum tilkostnaði. Tökum matvæli sem dæmi: Loftslagsbaráttumenn vara við því að við munum svelta, en rannsóknir sýna að í stað 51% aukningar á framboði matvæla fyrir árið 2100 ef engar loftslagsbreytingar yrðu erum við á réttri leið með „aðeins“ 49% aukningu. Eða veðurhamfarir: á 3. áratug síðustu aldar ollu þær hálfri milljón dauðsfalla en á síðasta áratug urðu færri en 9.000 dauðsföll á hverju ári. 97,5 prósenta lækkun á dánartíðni er vegna þess að fólk hefur meira viðnám þegar það er ríkara og hefur aðgang að betri tækni.

Öfgafullir loftslagsbaráttumenn og öfga-vinstri stjórnmálamenn sýna sitt rétta andlit þegar þeir þrýsta á um að vaxtarhömlur til að draga úr losun. Að gera kjör fólks verri og snúa við árangri sem náðst hefur í baráttunni gegn mikilli fátækt væri hörmuleg mistök sem gera það erfiðara að takast á við öll önnur vandamál okkar. Þar að auki er það hlægilegt að ímynda sér að hernaðarlegir andstæðingar Vesturlanda á borð við Vladimír Pútín muni íhuga svipaða nálgun.

Ábyrgari stjórnmálamenn vilja „aðeins“ ná kolefnislosun sem er núll fyrir árið 2050. En þessi nálgun þýðir samt að hægja á vexti í nafni loftslagsbreytinga, með því að neyða fyrirtæki og einstaklinga til að nota óhagkvæmari græna orku í stað jarðefnaeldsneytis. Heildarkostnaður yrði gífurlegur, á bilinu 15-37 billjónir dollara á hverju ári alla öldina, jafnvirði 15-37% af vergri heimsframleiðslu í dag.

Í ljósi þess að ríkari OECD-ríki munu greiða stærstan hluta þessa reiknings mun verðmiðinn jafngilda því að hver einstaklingur í hinum ríka heimi greiði yfir 10.000 dollara á hverju ári. Þetta verður ekki aðeins pólitískt ómögulegt, heldur verður ávinningurinn mun minni, 1% af landsframleiðslu yfir öldina.

Raunverulegur kostnaður við óhagkvæma loftslagsstefnu er að hún dregur auðlindir og athygli frá öðrum forgangsatriðum. Evrópa býður upp á ömurlega lexíu. Fyrir tuttugu og fimm árum lýsti Evrópusambandið því yfir að með stórfelldum fjárfestingum í rannsóknum og þróun um allt hagkerfið myndi það verða „samkeppnishæfasta og öflugasta þekkingarhagkerfi í heimi“. Það mistókst algjörlega: útgjöld til nýsköpunar stækkuðu varla og ESB er nú langt á eftir Bandaríkjunum, Suður-Kóreu og jafnvel Kína.

Þess í stað skipti ESB um áherslur og knúið af loftslagsþráhyggju valdi það „sjálfbært“ hagkerfi fram yfir traust hagkerfi. Ákvörðun ESB um að auka markmið sín um að draga úr losun árið 2030 var hrein dyggðaflöggun. Líklegt er að kostnaðurinn fari yfir nokkrar billjónir evra, en samt sem áður mun allt átakið aðeins lækka hitastigið í lok aldarinnar um 0,004°C.

Skortur á nýsköpun hefur gert Evrópu mikinn óleik. Á evrusvæðinu hefur verið árlegur vöxtur undanfarinn áratug verið einungis rúmlega 1% á mann. Fyrir þessar tvær billjónir evra sem það hefur eytt í táknræna loftslagsstefnu hefði ESB getað staðið við eigin nýsköpunarútgjöld í tvo áratugi.

Fjárfesting í nýsköpun hefði getað gert ESB og heiminn 60 billjónum evra ríkari til lengri tíma litið, og skilað 500 sinnum meiri ávinningi en táknræn loftslagsstefna þess. Það sem mestu skiptir er að það hefði gefið ESB meira svigrúm til að takast á við önnur lykilviðfangsefni, eins og lífeyrismál, menntun, heilbrigðisþjónustu og varnarmál.

Restin af heiminum þarf að gefa fordæmi Evrópu gaum og hætta að sóa peningum í slæma loftslagsstefnu.

Höfundur er forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar, gestafræðimaður við Hoover-stofnun Stanford-háskóla í Kaliforníu og höfundur bókarinnar Best Things First.

Höf.: Bjørn Lomborg