Hetjan Darwin Núnez fagnar seinna marki sínu og Liverpool.
Hetjan Darwin Núnez fagnar seinna marki sínu og Liverpool. — AFP/Justin Tallis
Liverpool styrkti stöðu sína á toppi ensku úrvalsdeildarinnar um helgina en liðið vann nauman útisigur á Brentford, 2:0, og Arsenal tapaði stigum í jafnteflisleik gegn Aston Villa á heimavelli, 2:2. Þegar allt stefndi í markalaust jafntefli í London …

Liverpool styrkti stöðu sína á toppi ensku úrvalsdeildarinnar um helgina en liðið vann nauman útisigur á Brentford, 2:0, og Arsenal tapaði stigum í jafnteflisleik gegn Aston Villa á heimavelli, 2:2.

Þegar allt stefndi í markalaust jafntefli í London var Darwin Núnez bjargvættur Liverpool og skoraði tvívegis í uppbótartímanum.

Arsenal virtist vera í góðum málum eftir mörk frá Gabriel Martinelli og Kai Havertz, 2:0, en Youri Tielemans og Ollie Watkins svöruðu fyrir Villa og jöfnuðu metin í 2:2.

Nottingham Forest hélt sínu striki en slapp með skrekkinn gegn botnliði Southampton. Forest komst í 3:0 þegar Chris Wood skoraði sitt 14. mark á tímabilinu en Southampton minnkaði muninn í 3:2.

Manchester City var hástökkvari helgarinnar og flaug úr áttunda sætinu upp í það fjórða með stórsigri á Ipswich á útivelli í gær, 6:0. Phil Foden var með tvö mörk og stoðsendingu í fyrri hálfleiknum og Kevin De Bruyne skoraði tvö mörk.

Justin Kluivert skoraði þrennu og lagði upp eitt mark í mögnuðum útisigri Bournemouth á Newcastle, 4:1. Newcastle var búið að vinna sjö leiki í röð en Eddie Howe tapaði loks gegn sínu gamla félagi.

Brighton skellti Manchester United á Old Trafford í gær, 3:1, þar sem Kaoru Mitoma og Yankuba Minteh voru báðir með mark og stoðsendingu.