Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, hugleiðir framboð til formennsku í Sjálfstæðisflokknum í fullri alvöru, en flokkurinn velur sér nýjan formann á landsfundi, sem settur verður í lok febrúar.
„Ég hef fengið ótal áskoranir um að gefa kost á mér til formennsku, mér þykir vænt um þær og tek þær alvarlega,“ segir Áslaug Arna í samtali við Morgunblaðið.
„Flokkurinn stendur á margvíslegum tímamótum, við erum utan ríkisstjórnar og þurfum að leiða öfluga stjórnarandstöðu, við þurfum að velja okkur nýja forystu og endurnýja erindi flokksins. Þar er ekki eftir neinu að bíða,“ segir Áslaug Arna.
Hún kveðst hafa rætt við sjálfstæðisfólk um allt land á undanförnum dögum og fundið fyrir hljómgrunni, meðbyr og hvatningu. Og raunar einnig frá fólki, sem stutt hafi aðra flokka í liðnum kosningum. En hvenær má vænta ákvörðunar?
„Mér liggur ekki á og finnst dýrmætt að eiga fleiri hreinskilin og innihaldsrík samtöl við flokksmenn áður en ég ákveð mig. Ég vil gefa mér nokkra daga í það,“ segir Áslaug Arna.
Fleiri hugsa málin
Ýmis nöfn hafa verið orðuð við formennsku í Sjálfstæðisflokknum, en auk Áslaugar Örnu eru þar oftast nefndir þingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.
Ekkert þeirra hefur þó enn viljað svara því afdráttarlaust hvort þau hyggist gefa kost á sér. Mörgum þótti Þórdís Kolbrún þannig mun dræmari um slíkan metnað en áður í viðtali við Heimi Má Pétursson á Vísi á fimmtudag. Þá er Guðlaugur Þór Þórðarson sagður ræða það í einkasamtölum að mikilvægt sé að setja niður deilur í flokknum, en hann geri sér grein fyrir því að hann sé ekki óumdeildur. Guðrún er hins vegar sögð ráða ráðum sínum og er bæði orðuð við varaformennsku og formennsku.
Til þessa hefur lítið borið á opinberum áskorunum eða stuðningsyfirlýsingum, en þó má nefna að í þætti Þjóðmála Gísla Freys Valdórssonar um helgina voru þau Heiðrún Lind Marteinsdóttir og Heiðar Guðjónsson á einu máli um erindi Áslaugar Örnu í embættið, en þau mega bæði teljast atkvæðafólk í flokknum.