Ógnar Thea Imani Sturludóttir sækir að marki Málaga í leiknum á Hlíðarenda á laugardaginn. Valur vann einvígið samanlagt 56:51.
Ógnar Thea Imani Sturludóttir sækir að marki Málaga í leiknum á Hlíðarenda á laugardaginn. Valur vann einvígið samanlagt 56:51. — Morgunblaðið/Hákon
Valskonur sýndu og sönnuðu á laugardaginn hve langt þær eru komnar í Evrópuhandboltanum þegar þær slógu spænska liðið Málaga Costa del Sol út úr Evrópubikar kvenna með sannfærandi sigri á Hlíðarenda, 31:26

Handbolti

Víðir Sigurðsson

Jón Kristinn Jónsson

Valskonur sýndu og sönnuðu á laugardaginn hve langt þær eru komnar í Evrópuhandboltanum þegar þær slógu spænska liðið Málaga Costa del Sol út úr Evrópubikar kvenna með sannfærandi sigri á Hlíðarenda, 31:26.

Þær fylgdu eftir óvæntu jafntefli í fyrri leik liðanna á Spáni, 25:25, og eru komnar í átta liða úrslitin, rétt eins og Haukakonur sem unnu tvo sigra á Galychanka frá Úkraínu um fyrri helgi.

Lið Málaga þótti sigurstranglegt í keppninni og vann hana fyrir fjórum árum en liðið er í öðru sæti í spænsku deildinni og hafnaði einnig í öðru sæti í fyrra eftir að hafa orðið meistari 2023.

Auk Vals og Hauka eru Ionias frá Grikklandi, Slavia Prag frá Tékklandi, Porrino frá Spáni, Lazne Kynzvart frá Tékklandi, Mihalovce frá Slóvakíu og Gniezno frá Póllandi komin í átta liða úrslit en dregið verður til þeirra á morgun og leikirnir fara fram um miðjan febrúar.

Hafdís Renötudóttir, markvörður Vals og íslenska landsliðsins, sagði við Morgunblaðið eftir leikinn að sigurinn hefði ekki komið á óvart eftir jafnteflið í fyrri leiknum á Spáni.

„Eftir að við náðum að máta okkur við þær í útileiknum vissum við alveg að við gætum þetta. Þá tek ég ekki neitt af liði Málaga. Þær eru frábærar, hafa m.a. unnið Evrópubikarinn, en við erum líka fáránlega góðar þegar við erum allar upp á okkar besta,“ sagði Hafdís sem varði 17 skot og átti stórleik í marki Vals.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Val, Elísa Elíasdóttir sex, Elín Rósa Magnúsdóttir sex og Lovísa Thompson fimm. Joana Dos Santos var langatkvæðamest hjá Málaga með níu mörk.

Höf.: Víðir Sigurðsson