Grænland getur aldrei orðið algjörlega sjálfstætt ríki. Þetta sagði Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, í þætti TV2 í gær tileinkuðum framtíð Grænlands. Að mati Egede verður enn þá sterkt efnahagslegt samstarf á milli Danmerkur og Grænlands fái Grænlendingar sjálfstæði. Egede sagðist mæta komandi forsetatíð Donalds Trumps með yfirvegun og bætti við að krafan væri sú sama og áður; Grænlendingar vildu vera Grænlendingar, ekki Danir eða Bandaríkjamenn.
Fjármálaráðherra Grænlands, Erik Jensen, hélt því fram að Grænland gæti vel staðið á eigin fótum. Miklar tekjur færu nú þegar til Danmerkur sem kæmu til vegna sterks viðskiptasambands Grænlands við Kína með sjávarfang.
Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra Danmerkur tók þátt í þessum umræðum og var þeirrar skoðunar að Grænland gæti aldrei orðið algjörlega sjálfstætt ríki. Hann bætti þó við að Danmörk væri ekki einu sinni fullkomlega sjálfstætt ríki. Sjálfstæði í nútímaheimi væri í raun rétturinn til að velja hverjum þú ætlaðir að vera háður sagði Rasmussen.
Hann hafði undanfarinn mánuð neitað að kalla áhuga Donalds Trumps verðandi Bandaríkjaforseta einhvers konar krísu. Annað hljóð var komið í strokkinn í þættinum í gær.
Héldi Trump áfram að ítreka þau viðhorf sem hann hefur viðrað undanfarið gagnvart Grænlandi væri ljóst að fjölmargar kynslóðir Dana hefðu aldrei staðið frammi fyrir annarri eins utanríkiskrísu og stefnir nú í.
Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra Danmerkur viðurkenndi í þættinum að Danir hefðu vanrækt þær skyldur sínar að verja Grænland. Það verkefni hefði verið of aftarlega í forgangsröð Dana undanfarin ár og staðan væri því þessi í dag.