Fyrirliðinn Aron Pálmarsson í banastuði á æfingu íslenska liðsins í Zagreb í Króatíu í gær. Hann er klár í leikinn mikilvæga gegn Slóveníu í kvöld.
Fyrirliðinn Aron Pálmarsson í banastuði á æfingu íslenska liðsins í Zagreb í Króatíu í gær. Hann er klár í leikinn mikilvæga gegn Slóveníu í kvöld. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson er ánægður með frammistöðu íslenska landsliðsins í handbolta í stórsigrunum á Grænhöfðaeyjum og Kúbu í tveimur fyrstu leikjum liðsins á HM, en riðill Íslands er leikinn í Zagreb í Króatíu

Í Zagreb

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson er ánægður með frammistöðu íslenska landsliðsins í handbolta í stórsigrunum á Grænhöfðaeyjum og Kúbu í tveimur fyrstu leikjum liðsins á HM, en riðill Íslands er leikinn í Zagreb í Króatíu.

„Það hefði verið auðvelt að detta niður á eitthvert lélegt plan og gera þetta með hangandi hendi en við gerðum þetta mjög fagmannlega. Það var kannski smá skrekkur í fyrsta leik í seinni hálfleik en þrír góðir hálfleikir af fjórum er gott,“ sagði Aron við Morgunblaðið á hóteli landsliðsins í króatísku höfuðborginni í gær.

Aron var ekki með í leiknum við Grænhöfðaeyjar vegna meiðsla en kom mjög sterkur inn í leikinn við Kúbu, spilaði í um 15 mínútur og lét vel að sér kveða.

„Ég er mjög ánægður með hvernig ég kom inn í þetta. Það var gott fyrir mig að fá þetta sjálfstraust í skrokkinn og að geta treyst á hann. Að fá smá tilfinningu fyrir þessu fyrir stórleikinn. Ég er mjög glaður hvernig fór. Það kom ekkert upp og ég er bara góður,“ sagði hann.

Má ekki slaka á

Ísland leikur hreinan úrslitaleik um efsta sæti G-riðilsins við Slóveníu í kvöld. Með sigri fer íslenska liðið með fjögur stig í milliriðil og á góðan möguleika á að fara í átta liða úrslit. Tap þýðir tvö stig í milliriðil og erfiðara verk fram undan. Slóvenska liðið er býsna gott og endaði í fjórða sæti á Ólympíuleikunum í París síðasta sumar.

Slóvenum dugar jafntefli þar sem þeir hafa skorað fleiri mörk en Íslendingar í tveimur fyrstu leikjunum, en liðin eru bæði með fjögur stig og sömu markatölu.

„Þetta slóvenska lið er skemmtilegt. Þeir spila yfirtöluna öðruvísi og eru með góða og skarpa handboltamenn sem eru með góðar tímasetningar. Þú mátt ekki slaka á í eina vörn. Þú verður að vera á fullu allan tímann, annars refsa þeir,“ sagði Aron.

Hann var í hópnum sem vann bronsverðlaun á EM 2010 en íslenska liðið hefur ekki unnið til verðlauna síðan.

„Ég er fáránlega tilbúinn til að ná langt á þessu móti. Kannski hefur það eitthvað með aldurinn að gera. Kannski er stutt í endalokin og eitthvert svoleiðis kjaftæði, þótt mér líði ekki þannig. Ég mun spila eins lengi og ég get til að hjálpa liðinu. Hópnum líður vel saman og okkur finnst við vera á þeim stað að við megum fara að gera meira á þessum mótum,“ sagði Aron.

Hann lék með uppeldisfélaginu FH á síðustu leiktíð og var ánægður með hvað stutt heimkoma gerði fyrir ferilinn.

„Það var mjög gott. Heimkoman hafði hvetjandi áhrif og ég vildi fara aftur út. Ég tel að það hafi verið hárrétt skref hjá mér,“ sagði Aron. Hann saknaði þess að spila á allra stærsta sviðinu á meðan hann var heima.

„Ég mun pottþétt sakna þess lengi eftir ferilinn. Það er einstakt að spila í fullum höllum fyrir framan kolvitlausa áhorfendur. Þessi spenna og allt sem fylgir. Ég verð aldrei leiður á því.“

Neikvæður í nokkrar mínútur

Aron meiddist skömmu fyrir mót en hafði þó ekki áhyggjur af því að missa af heimsmeistaramótinu.

„Nei í sjálfu sér ekki. Það kom kannski í tíu mínútur en það var það langt í mót og meiðslin ekki alvarleg. Ég var mjög jákvæður.

Ég var neikvæður í 5-10 mínútur og svo var það áfram gakk,“ sagði landsliðsfyrirliðinn.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson