Sigrún Árnadóttir fæddist á Akranesi 30. október 1946. Hún lést á Dvalarheimilinu Höfða 10. janúar 2025.

Sigrún var dóttir hjónanna Árna Halldórs Árnasonar, f. 7. júní 1915, d. 11. apríl 1991, og Steinunnar Þórðardóttur, f. 26. júlí 1915, d. 29. ágúst 2005.

Systkini Sigrúnar eru: Bjarni Ólafsson f. 13. febrúar 1939, Sigríður, f. 23. júní 1941, d. 7. júlí 2010, Þórður, f. 25. október 1942, Emelía Petrea, f. 6. október 1943, d. 7. júní 2019, Ingibjörg, 27. ágúst 1945, Árni Sigurður, f. 19. júlí 1949, d. 7. september 2000, Ólína Elín, f. 13. desember 1950, Guðmundur, f. 30. janúar 1952, d. 19. apríl 1952, Steinunn, f. 5. janúar 1954, og Guðmundur, f. 3. júlí 1956.

Árið 1967 gekk Sigrún í hjónaband með Carli Jóhanni Lilliendahl, prentara og klæðskerameistara, f. 5. október 1946, d. 30. maí 2021. Þau eignuðust þrjá syni.

1) Alfreð Örn Lilliendahl, f. 1967, kvæntur Evu Björk Karlsdóttur, f. 1967. Synir Alfreðs og Evu eru Sindri Snær, f. 1995, og Aron Máni, f. 1999. Sonur Evu frá fyrra sambandi var Högni Kristinsson, f. 6. maí 1989, d. 13. desember 2007. 2) Árni Halldór Lilliendahl, f. 1968, sambýliskona hans er Belinda Kristinsdóttir, f. 1974. Börn Árna með fyrrverandi eiginkonu Hönnu Gróu Hauksdóttur, f. 1968, eru a) Elva Rut, f. 1992, gift Sölva Má Sigurjónssyni, f. 1990. Börn þeirra eru Naómí Líf, f. 2010, Brynja Líf, f. 2012, og Maron Már, f. 2015. b) Sara Eir, f. 1994, gift Freysteini Gylfasyni, f. 1987. Börn þeirra eru Samúel Árni, f. 2022, og Nadía Líf, f. 2023. c) Eiður Smári, f. 1998. Stjúpdætur Árna frá fyrra hjónabandi: d) María Mist, f. 1987, gift Helga Halldórssyni, börn þeirra eru: Ernir Leó, f. 2017, og Indíana Mist og Rafney Mist, f. 2020. e) Dagbjört, f. 1990. 3) Karl Rúnar Lilliendahl, f. 1972, kvæntur Eddu Jónsdóttur, f. 1975. Börn þeirra eru Lúkas, f. 2006, og Lea Carolina, f. 2012.

Sigrún og Carl Jóhann skildu.

Útförin fer fram frá Akraneskirkju í dag, 23. janúar 2025, klukkan 13.

Sigrún systir hefur kvatt þessa jarðvist eftir langa baráttu við þann illvíga sjúkdóm alzheimer.

Sigrún eða Dirra eins og hún var oftast kölluð var sjötta í röð okkar ellefu systkina á Suðurgötu 16.

Dirra var með einstaklega gott lundarfar, sem kom sér vel þar sem hún þurfti að notast við spelku á öðrum fæti frá unga aldri, en það dró mikið úr getu hennar til þess að hlaupa um og leika sér. Uppvöxtur Dirru var að öðru leyti skemmtilegur, hún var léttlynd og brosmild. Það var oft glatt á hjalla í stórum systkinahópi. Hún var umvafin ást frá mjög svo samrýndum og kærleiksríkum foreldrum. Þar á bæ voru allir velkomnir og alltaf pláss fyrir vini.

Sigrún starfaði meðal annars á símstöðinni á Akranesi og síðar á símstöðinni Brú í Hrútafirði. Þar kynntist hún eiginmanni sínum, Karli Lilliendahl. Þau bjuggu á Akranesi og eignuðust þrjá drengi, Alfreð Örn, Árna Halldór og Karl Rúnar. Sigrún og Kalli slitu samvistum og sá þá Dirra ein um uppeldi drengjanna, sem henni fórst vel úr hendi og var mikill vinur þeirra.

Sigrún var mjög handlagin og vandvirk, hún saumaði og prjónaði mikið á strákana sína. Meðal annars keypti hún sér prjónavél og prjónaði ýmsar fallegar flíkur.

Það var oft margt um manninn heima hjá Dirru og strákunum. Vinir voru velkomnir og var plötuspilarinn mikið notaður, mamman var mikill rokkari og oft glatt á hjalla.

Dirra átti auðvelt með að tileinka sér tæknilega hluti og lærði á tölvu fljótlega eftir að hún var aðgengileg almenningi. Hún var sjálfstæð, hugrökk og harðdugleg og skilar góðu ævistarfi.

Síðustu ár ævi sinnar dvaldi hún á dvalarheimilinu Höfða þar sem til þess var tekið hversu glaðsinna hún var, þar leið henni vel og hún fékk góða umönnun hjá einstaklega umhyggjusömu starfsfólki.

Fyrir hönd systkina minna,

Steinunn Árnadóttir.

Í upphafi árs, þegar hver lægðin tekur við af annarri, umhleypingar og myrkur, kvaddi Dirra frænka þessa tilveru, södd lífdaga, á Dvalarheimilinu Höfða. Enginn er eilífur og smám saman fækkar í tíu systkina hópi barna ömmu Steinu og afa Árna á Suðurgötunni. Sigrún eða Dirra eins og hún var alltaf kölluð var sjötta í systkinahópnum. Eftir lifa Bjarni, Þórður, Ingibjörg, Ólína Elín, Steinunn og Guðmundur. Áður voru fallin frá Sigríður, Árni Sigurður, Guðmundur eldri og mamma (Emilía Petrea).

Að eignast ellefu börn á rúmum sextán árum eins og amma Steina gerði og koma tíu þeirra til manns var veruleiki margra af þessari kynslóð sem maður á erfitt með að skilja. Ólík systkini en samt samhent. Dirra alltaf brosmild með fallegt blik í auga, góðmennskan uppmáluð. Þannig ól hún upp strákana sína þrjá, Alfreð, Árna Halldór og Kalla Rúnar, með kærleik og nægjusemi þar sem heimili hennar í blokkinni var alltaf opið fyrir börnum og barnabörnum. Mikil hagleikskona var hún, hvort sem það var í bakkelsi, hannyrðum eða að sansa rafmagnsdót

Suðurgötusystur héldu vel hver utan um aðra, það voru borgardætur, Inga, Ella og Denna, sem bjuggu í Reykjavík og Skagasystur, Sigga, mamma og Dirra. Þessi tengsl voru á við starfshlutfall velferðarfulltrúa í nútímasamfélagi eins og segir í starfslýsingu „að auka hamingju, félagslega virkni og vellíðan einstaklinga“. Mættum við öll læra af og passa betur hvert upp á annað.

Þannig hringdi mamma í Dirru á hverjum einasta drottins degi, nákvæmlega klukkan tíu að morgni. Farið var yfir stöðu tilverunnar og mamma var óþrjótandi að hvetja Dirru í alls kyns „heilaleikfimi“ eins og hún kallaði það með skrafli, leggja kapal o.s.frv. Allir í fjölskyldunni vissu að á þessum tíma var vonlaust að ná símasambandi við Bjarkó. Þessi venja gerði þeim báðum gott, hvorri á sinn máta.

Við Axel Máni og Gutti sendum Alfreð, Árna Halldóri og Kalla Rúnari okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Helena Guttormsdóttir.