Kjartan Magnússon
Álfabakkamálið er skýr vitnisburður um að stórbæta þurfi stjórnsýslu og vinnubrögð hjá Reykjavíkurborg. Græna gímaldið stríðir gegn viðteknum sjónarmiðum um góða borgarhönnun og lögmæti skipulagsins er dregið í efa.
Fáir andmæla því að málið sé hrikalegt klúður. Risastór skemma er reist í nokkurra metra fjarlægð frá fjögurra hæða íbúðarhúsi og við íbúum blasir gríðarmikill veggur. Nýbyggingin er stór og frek í umhverfi sínu og stendur of nálægt aðliggjandi íbúabyggð. Byggingin er skilgetið afkvæmi ofurþéttingarstefnu vinstriflokkanna. Starfsemi hennar samræmist ekki íbúðarbyggðinni en ætti að vera á athafnasvæði.
Sjálfstæðisfélagið í Skóga- og Seljahverfi hélt fjölmennan íbúafund um málið í liðinni viku, þar sem ályktað var að skemman skyldi fjarlægð. Þar kom fram að fjölmörgum íbúum við Árskóga finnst þeir vera í úlfakreppu vegna gímaldsins, sem þeir vita ekki hvort eða hvenær þeir losna úr.
Óþægileg umræða
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins vildu ræða málið á fundi borgarstjórnar 17. desember síðastliðinn enda er um afar stórt skipulagsklúður að ræða. Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar höfnuðu því í krafti atkvæða að málið yrði rætt þá. Var það því ekki gert fyrr en á fyrsta borgarstjórnarfundi nýs árs og um leið samþykkt að ráðast í stjórnsýsluúttekt á málinu.
Málið var aftur rætt á fundi borgarstjórnar síðastliðinn þriðjudag en þar var auðheyrt að Einar Þorsteinsson borgarstjóri og fleiri borgarfulltrúar vinstri meirihlutans vildu sem minnst um það tala.
Búseti hefur lagt fram stjórnsýslukæru vegna málsins og krefst þess að framkvæmdir verði stöðvaðar og ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi. Lögmaður félagsins segir framkvæmdina brjóta í bága við lög og reglur sem gilda um slíkar framkvæmdir og bendir á að byggingarleyfi hússins hafi verið gefið út ári áður en séruppdrættir um það voru lagðir fram.
Skaðleg stökkbreyting
Í umsögn Reykjavíkurborgar segir að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að að mannvirkið samræmist ekki lögum. Samkvæmt því virðist borgarstjóri ekki ætla að verða við kröfum íbúa um að fjarlægja skemmuna heldur grípa til fullra varna í málinu.
Á umræddum reit átti ekki að reisa skemmu af slíku tagi. Þegar borgarráð heimilaði uppbygginguna í júní 2023 var um þjónustu- og verslunarlóð að ræða samkvæmt gögnum málsins. Á lóðinni reis hins vegar stærðarinnar skemma. Þessi óvænta stökkbreyting byggingarverkefnisins virðist hafa orðið á skrifstofu borgarstjóra í samstarfi við byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa. Þessi skaðlega stökkbreyting var ekki á neinu stigi málsins kynnt í skipulagsráði eða borgarráði og er auðvitað óviðunandi að borgarstjóri sölsi undir sig ákvörðunarvald með slíkum hætti. Framvinda þessa ógæfumáls er því rannsóknarefni og ólíklegt að öll kurl séu komin til grafar.
Þegar skemman var risin virtist umfang hennar koma mörgum í borgarkerfinu á óvart. Hefur þó komið fram að forsvarsmenn byggingaraðila áttu í miklum samskiptum við fulltrúa borgarinnar vegna málsins. Þessir aðilar benda á að uppbyggingin sé í fullu samræmi við deiliskipulag og þær heimildir sem byggingar- og skipulagsyfirvöld borgarinnar veittu.
Útbreidd úlfakreppa
Segja má að Reykjavíkurborg
og byggingaraðilinn séu einnig í slíkri úlfakreppu því ekki er enn orðið ljóst hvernig úr málinu verður leyst. Mikilvægt er að hraða þeirri vinnu og reyna eftir föngum að koma til móts við sjónarmið íbúanna og ná samkomulagi við þá. Stjórnsýsluúttekt getur orðið tímafrek og ekki er hægt að bíða eftir niðurstöðum hennar til að leita lausnar á málinu.
Mikilvægt er að borgarstjórn dragi lærdóm af þessu stóra máli og ráðist í víðtækar úrbætur á til að koma í veg fyrir að slík vandræði endurtaki sig í framtíðinni.
Stjórnsýslu borgarinnar er um margt ábótavant þrátt fyrir að kostnaður við hana hafi stóraukist undanfarinn áratug. Í slakri stjórnsýslu eru fjölmörg tækifæri
til bætingar, ekki síst varðandi upplýsingagjöf til almennings
og kjörinna fulltrúa.
Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.