Donetsk Úkraínskir hermenn skjóta með fallbyssu á vígstöður Rússa.
Donetsk Úkraínskir hermenn skjóta með fallbyssu á vígstöður Rússa. — AFP/Genya Savilov
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur falið sérstökum erindreka sínum í málefnum Úkraínu og Rússlands, Keith Kellogg, að binda enda á Úkraínustríðið á næstu hundrað dögum. Óvíst þykir hins vegar hvort Kellogg, sem er fyrrverandi undirhershöfðingi í…

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur falið sérstökum erindreka sínum í málefnum Úkraínu og Rússlands, Keith Kellogg, að binda enda á Úkraínustríðið á næstu hundrað dögum. Óvíst þykir hins vegar hvort Kellogg, sem er fyrrverandi undirhershöfðingi í Bandaríkjaher, hafi getu til þess, sér í lagi þar sem kröfur Rússa og Úkraínumanna eru ósamrýmanlegar.

Í frétt bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal (WSJ) um málið segir að Rússar hafi sérstaklega litla trú á því að Kellogg geti komið á friði og hafa þeir ekki sýnt neinn áhuga á að ræða við hann. Hins vegar hafi Kremlverjar von um að persónuleg samskipti Pútíns og Trumps gætu liðkað fyrir samskiptum ríkjanna tveggja eftir frost undanfarinna ára.

Kellogg var valinn sem erindreki Trumps í kjölfar þess að hann gaf út ásamt öðrum „friðaráætlun“ sem fól í sér að neyða bæði Rússa og Úkraínumenn að friðarborðinu með ýmsum ráðum, meðal annars með því að taka aðild Úkraínu að Atlantshafsbandalaginu af borðinu tímabundið og um leið að bjóða Rússum að létt yrði á viðskiptaþvingunum ef ritað yrði undir friðarsamning.

Á sama tíma yrði hernaðaraðstoð Bandaríkjanna notuð til þess að fá Úkraínumenn til að semja um frið, með hótunum um að hætt yrði alveg við hana ef þeir væru ófúsir til viðræðna, en í frétt WSJ kom fram að Rússar hefðu talið áætlun Kelloggs með öllu óframkvæmanlega.

Seth Jones, sérfræðingur hjá varnarmálahugveitunni CSIS, sagði að Kellogg væri alvörugefinn greinandi, og að hann yrði Trump liðstyrkur þegar kæmi að ákvarðanatöku um Úkraínu. Það boðaði hins vegar ekki gott að Rússar væru nú þegar farnir að tala Kellogg niður, áður en nokkrar viðræður væru hafnar.

Meiri þvinganir á Rússa?

Mögulega er það ástæðan fyrir því að Trump sagði í fyrrakvöld að hann gæti hugsanlega neyðst til þess að leggja á frekari viðskiptaþvinganir á Rússland ef Vladimír Pútín Rússlandsforseti neitaði að hefja viðræður um vopnahlé eða frið í Úkraínu. „Það lítur út fyrir það,“ sagði Trump aðspurður á blaðamannafundi.

Trump lýsti raunar yfir þegar á mánudagskvöldi að hann teldi að Pútín ætti að semja. „Ég held að hann sé að eyðileggja Rússland með því að semja ekki,“ sagði Trump. Vísaði hann þar meðal annars til þess að efnahagur Rússlands hefur beðið nokkur skakkaföll í ófriðnum.

„Ég held að Rússland muni lenda í miklum erfiðleikum. Líttu á hagkerfið þeirra. Líttu á verðbólguna í Rússlandi,“ sagði Trump, en opinberar hagtölur Rússlands áætla að hún nálgist um 10% á sama tíma og ýmsir hagfræðingar á Vesturlöndum segja teikn um að hún sé allt að tvöfalt hærri en það.

Trump vísaði einnig í hið mikla mannfall sem Rússar hafa mátt þola í styrjöldinni, en vesturveldin áætla nú að rúmlega 700.000 Rússar hafi fallið eða særst í innrásinni. „Rússland er stærra, þeir geta misst fleiri hermenn, en þetta er engin leið til þess að stjórna landi,“ sagði Trump.

Gulrætur og prik

Þær viðskiptaþvinganir sem Bandaríkin gætu sett á Rússland myndu þá aðallega fela í sér hertar aðgerðir gegn olíu- og jarðgasiðnaði landsins, sem þegar býr við mjög strangar aðgerðir. Yrðu þær aðgerðir samkvæmt heimildum Bloomberg-vefmiðilsins hannaðar til þess að setja hámarksþrýsting á iðnaðinn, sem stendur undir efnahag Rússlands. Á móti yrði Rússum tjáð, að í boði væri aflétting aðgerðanna ef þeir féllust á frið.

En hvaða áhrif geta frekari refsiaðgerðir mögulega haft? Í greiningu Financial Times (FT) fyrir tæpum tveimur vikum um stöðuna í Rússlandi segir að Pútín vilji helst að vesturveldin trúi því að Rússland eigi nóg eftir, en sú sé ekki raunin.

Greinandi FT gengur svo langt að segja að undirstoðir rússneska stríðshagkerfisins líti sífellt meir út eins og spilaborg, og að jafnvel háttsettir rússneskir embættismenn séu farnir að hafa orð á því opinberlega. Þannig hafi t.d. Sergei Tsjemesov, framkvæmdastjóri hins ríkisrekna vopnaframleiðanda Rostec, varað við því á dögunum að slæm lánakjör væru að gera út af við útflutning sinn.

Greiningin rekur það til Kremlverja, sem hafi tekið rússneska bankakerfið yfir og noti það nú til þess að prenta peninga svo ríkisfjármálin líti betur út. Á sama tíma heldur rússneski seðlabankinn úti 20% stýrivöxtum til þess að halda verðbólgunni á sínum stað, en fyrirtæki sem ráða ekki við slíka vexti í fjármögnun sinni, líkt og Rostec, sitja uppi með skrekkinn. Segir í greiningu FT að tíminn vinni ekki með Pútín, þar sem allt stefni í lánsfjárkreppu í Rússlandi sem gæti jafnvel leitt til bankahruns. „Hann situr á tifandi fjármálalegri tímasprengju sem hann sjálfur bjó til.“

Sé þessi greining rétt má draga af henni þá ályktun að „prik“ af því tagi sem Bandaríkjastjórn er að íhuga í formi frekari refsiaðgerða geti vel haft fyrirætluð áhrif, þ.e. að knýja Rússa að samningaborðinu. Hvort einhver árangur náist við það, hvað þá innan 100 daga, er hins vegar önnur saga.