Kristrún Frostadóttir
Kristrún Frostadóttir
Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segir að Degi B. Eggertssyni sé ætlað hlutverk innan þingflokksins líkt og öðrum þingmönnum, það komi betur í ljós þegar þing kemur saman

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segir að Degi B. Eggertssyni sé ætlað hlutverk innan þingflokksins líkt og öðrum þingmönnum, það komi betur í ljós þegar þing kemur saman. Hins vegar vill hún hvorki neita því né játa að hafa rætt það við Dag að hann yrði þingflokksformaður.

Staða Dags B. Eggertssonar innan Samfylkingarinnar var töluvert rædd í aðdraganda kosninga. Þá birti kjósandi í Grafarvogi, sem ekki hugnaðist að fv. borgarstjóri væri á lista Samfylkingarinnar, svar frá Kristúnu. Þar sagði hún að Dagur væri ekki ráðherraefni og í raun „aukaleikari“ á listanum, en ef það sefaði ekki áhyggjur kjósandans gæti hann auðveldlega strikað hann út í kjörklefanum.

Að kosningum loknum kom það Degi hins vegar í opna skjöldu að verða ekki þingflokksformaður, en hann lét hafa eftir sér að hann hefði gert ráð fyrir því.

Morgunblaðið spurði Kristrúnu hvort hún hefði sagt eitthvað við Dag, sem hann gæti hafa skilið eða túlkað sem svo að hann yrði þingflokksformaður.

„Ég átti persónuleg samtöl við alla þingmenn Samfylkingar og þar voru ýmsar sviðsmyndir settar fram bæði við Dag og aðra þingmenn um hlutverkaskiptingu. En ég ætla ekkert að fara út í efnistök einkasamtala okkar á milli.

En það liggur alveg fyrir að það er fjöldinn allur af fólki sem getur gegnt mörgum þeirra embætta sem losna þegar þú stígur í ríkisstjórn, Dagur hefur mjög ríku hlutverki að gegna í þingflokki Samfylkingarinnar þó að hann hafi ekki orðið þingflokksformaður. Það eru næg embætti til staðar og ég hef ekki áhyggjur af því að hann nýtist ekki vel.“

Fólk náið Degi segir nú samt að þið hafið handsalað að hann yrði þingflokksformaður, er það rangt?

„Ég ætla ekki að fara út í mín einkasamtöl við Dag eða aðra þingmenn. Í svona samtölum förum við yfir væntingar fólks og vilja, en í þingflokki þarf að raða upp réttu teymi og það er ekkert meira um það að segja.“