Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Fjóla Steindóra Kristinsdóttir hefur verið ráðin sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps, skv. því sem sveitarstjórn leiddi til lykta á fundi sínum í gær. Ráðningin stendur út yfirstandandi kjörtímabil sem lýkur á vormánuðum næsta árs.
Fjóla fæddist á Selfossi í febrúar 1972 og býr þar ásamt fjölskyldu, gift Snorra Sigurðarsyni fasteignasala. Hún er með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands, BS í viðskiptafræði og vottaður fjármálaráðgjafi ásamt því að hafa lokið kennsluréttindum á meistarastigi.
Starfsferill Fjólu er fjölbreyttur og býr hún yfir reynslu á sviði sveitarstjórnarmála sem bæjarstjóri í Árborg 2022-2024. Þar áður starfaði hún í tæp sjö ár hjá Landsbankanum á Selfossi, síðast sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði. Einnig hefur hún sinnt kennslu, ýmsum trúnaðarstörfum og margvíslegri sjálfboðavinnu.
„Ég er mjög spennt að hefja störf sem sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps og hlakka til að vinna með sveitarstjórn, íbúum, starfsfólki og fasteignaeigendum sveitarfélagsins að áframhaldandi uppbyggingu og þróun. Tækifærin þarna eru mjög mörg og spennandi,“ segir Fjóla. Hún hefur verið bæjarfulltrúi í Árborg síðustu ár og verður áfram. Fyrst átti hún sæti í bæjarstjórninni fyrir Sjálfstæðisflokk en er nú óháður fulltrúi utan flokka.
Íbúar í Grímsnes- og Grafningshreppi eru um 620. Hryggurinn í atvinnulífi þar er landbúnaður og ferðaþjónusta, sbr. að í sveitarfélaginu eru þúsundir sumarhúsa.