Madrid CFF Ásdís Karen Halldórsdóttir stillir sér upp fyrir myndatöku á æfingasvæði spænska liðsins í spænsku höfuðborginni fyrr í mánuðinum.
Madrid CFF Ásdís Karen Halldórsdóttir stillir sér upp fyrir myndatöku á æfingasvæði spænska liðsins í spænsku höfuðborginni fyrr í mánuðinum. — Ljósmynd/Madrid CFF
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árið 2025 byrjaði svo sannarlega með látum hjá knattspyrnukonunni Ásdísi Karenu Halldórsdóttur en hún skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við spænska félagið Madrid CFF á dögunum. Ásdís Karen, sem er 25 ára gömul, heyrði fyrst af áhuga…

Spánn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Árið 2025 byrjaði svo sannarlega með látum hjá knattspyrnukonunni Ásdísi Karenu Halldórsdóttur en hún skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við spænska félagið Madrid CFF á dögunum.

Ásdís Karen, sem er 25 ára gömul, heyrði fyrst af áhuga spænska liðsins milli jóla og nýárs en hún kom til félagsins frá Lilleström í Noregi þar sem hún lék á síðustu leiktíð og skoraði fjögur mörk í 21 leik í úrvalsdeildinni.

Madrid CFF er í níunda sæti af sextán liðum í 1. deildinni á Spáni með 18 stig þegar fimmtán umferðir hafa verið leiknar. Hún hefur einnig leikið með Val og KR hér á landi og varð þrívegis Íslandsmeistari með Val.

Alls á hún að baki 139 leiki í efstu deild hér á landi þar sem hún hefur skorað 30 mörk og þá á hún að baki tvo A-landsleiki fyrir Ísland.

Félögin sömdu sín á milli

„Þetta lítur allt saman mjög vel út og það hefur verið ansi mikið að gera hjá mér síðustu daga,“ sagði Ásdís í samtali við Morgunblaðið.

„Ég heyrði fyrst af áhuga Madrid milli jóla og nýárs og svo fljótlega eftir áramót var ég orðin nokkuð sannfærð um að ég væri á leiðinni til Spánar. Ég ætlaði mér alltaf að klára tímabilið í Noregi en umboðsmaðurinn minn var samt meðvitaður um það að ef það kæmi upp spennandi tilboð, þá væri ég til í að skoða það.

Ég var samningsbundin Lilleström út keppnistímabilið 2025 og forráðamenn Madridar þurftu því að borga upp samninginn minn í Noregi. Það tók smátíma að klára það því forráðamenn Lilleström voru ekkert á þeim buxunum að selja mig til að byrja með. Félögin komust hins vegar að samkomulagi sem hentaði öllum vel og þetta endaði vel fyrir alla aðila,“ sagði Ásdís.

Sýndu mikinn áhuga

Ásdís var tilbúin í næsta skref á sínum ferli en hún var í stóru hlutverki hjá Lilleström á síðustu leiktíð þegar liðið endaði í fjórða sæti deildarinnar.

„Spænska deildin er mjög sterk og mér fannst þetta vera skref upp á við. Ég hugsaði í raun bara af hverju ekki? Lilleström var í fjárhagsvandræðum á síðustu leiktíð og það tók sinn toll, jafnt innan sem utan vallar. Þessi fjárhagsvandræði eiga að vera úr sögunni núna en maður er samt einhvern veginn alltaf með þau á bak við eyrað líka.

Þetta er líka frábært tækifæri fyrir mig persónulega til þess að halda áfram að bæta mig sem leikmaður og þróa minn leik. Forráðamenn Madrid CFF sýndu mér mikinn áhuga og lögðu mikið kapp á að fá mig. Það er alltaf góðs viti og eftir því sem ég velti hlutunum meira fyrir mér þá varð ákvörðunin alltaf auðveldari og auðveldari að stökkva til Spánar.“

Nóg af læknisskoðunum

Það hefur verið nóg að gera hjá Ásdísi síðustu daga en tímabilinu í Noregi lauk í nóvember og það hefst svo ekki aftur fyrr en í mars. Á sama tíma er spænska deildin í fullum gangi þar sem tímabilið stendur yfir frá septembermánuði fram í maímánuð.

„Þetta hefur verið mikil keyrsla. Það er öðruvísi að koma inn í mitt tímabil en á sama tíma felast ákveðin tækifæri í því líka. Þú verður einfaldlega að koma þér inn í hlutina og það fylgir þessu ákveðin pressa. Þú þarft að sýna hvað í þér býr og ég held að þetta henti mér bara ágætlega. Umgjörðin hérna er líka mjög flott og fagleg.

Ég er búin að gangast undir sirka 20 læknisskoðanir síðan ég kom. Endalaust af segulómunum og hjartaskoðunum. Þetta tekur allt sinn tíma og þessu var því dreift yfir nokkra daga hjá mér. Á móti kemur að Madríd er stórborg og það tekur oft langan tíma að komast á milli staða. Ég hef þurft að fara í nokkur styrktarpróf líka þannig að það er mikið kapp lagt á það að koma mér inn í hlutina.“

Sjö frá Norðurlöndum

Ásdís lék sinn fyrsta leik fyrir félagið um síðustu helgi þegar hún kom inn á á 79. mínútu í 1:1-jafntefli gegn Valencia í Madríd en landsliðskonan Hildur Antonsdóttir, sem gekk til liðs við félagið frá Fortuna Sittard í Hollandi síðasta sumar, lagði upp mark Madridar í leiknum.

„Ég kom beint inn í leikmannahópinn fyrir leikinn gegn Valencia og fékk mjög óvæntar mínútur í þeim leik. Það var mjög gaman og ég reikna með því að fá nokkrar mínútur hér og þar til að byrja með og á meðan ég er að koma mér inn í hlutina. Það er hugsað mjög vel um okkur hérna og það er allt gert til þess að okkur líði sem best. Ég get allavega ekki kvartað yfir neinu.

Þjálfarinn er spænskur og stærstur hluti leikmannahópsins er spænskur eða frá Suður-Ameríku. Það er því töluð mikil spænska, bæði á æfingum og á öllum fundum. Við erum sjö frá Norðurlöndunum sem er mjög gott og hjálpar mikið. Við reynum eftir bestu getu að túlka hver fyrir aðra og við hjálpum hver annarri að koma okkur inn í hlutina.“

Spennt að mæta Barcelona

Hver eru markmið Madrídarliðsins fyrir seinni hluta tímabilsins?

„Þetta er mjög jöfn deild. Barcelona og Real Madrid eru í ákveðnum sérflokki eins og gjarnan er í þessum kvennadeildum. Fyrir utan þessi tvö stórlið þá geta í raun öll liðin í deildinni unnið hvert annað. Við erum í níunda sætinu í dag en að sjálfsögðu stefnum við hærra og landslagið í deildinni býður líka upp á það að ef þú vinnur tvo leiki í röð, þá ertu allt í einu kominn í toppbaráttu.

Það er mikilvægt fyrir félag eins og Madrid CFF að vinna liðin sem eru á svipuðum stað og við á stigatöflunni. Eins er mikilvægt fyrir okkur að vinna liðin sem eru með færri stig en við til þess að halda þeim fyrir neðan okkur. Fram undan eru svo tveir leikir gegn Barcelona í febrúar þar sem við drógumst gegn þeim í bikarnum líka og það verður alvöru prófraun. Ég er mjög spennt fyrir því að mæta besta kvennaliði heims og það er ein af ástæðum þess að ég ákvað að koma hingað.“

Fagnar samkeppninni

Er eitthvað hægt að bera norsku og spænsku deildina saman?

„Ég myndi nú segja að spænska deildin væri sterkari en ég á eftir að fá aðeins betri mynd á það hversu sterk deildin er enda hef ég bara spilað í tíu mínútur hérna, enn sem komið er. Þetta er samt allt stærra og umgjörðin og félögin eru stærri. Ég tek eftir mun á æfingum, sérstaklega þar sem við erum kannski 20 saman í æfingahóp.

Það er ekki einn slakur leikmaður í hópnum heldur eru allir leikmennirnir mjög góðir og þannig er það hjá öllum liðum í deildinni. Samkeppnin er mjög mikil um stöður í liðinu en samkeppni er alltaf af hinu góðu. Ég hlakka til að spreyta mig í þannig umhverfi og ég er mjög spennt að takast á við hana.“

Hlutirnir gerast hratt

Eins og áður sagði hafa hlutirnir gerst mjög hratt hjá Ásdísi á síðustu árum en bjóst hún við því, þegar hún varð Íslandsmeistari með Val árið 2023, að hún yrði mætt í eina sterkustu deild heims, einu og hálfu ári síðar?

„Ég er mjög sátt með þann stað sem ég er komin á í dag. Ég ætlaði mér alltaf að vera hjá Lilleström í tvö ár en hlutirnir gerast mjög hratt í þessum fótboltaheimi. Stundum fær maður tækifæri upp í hendurnar þegar maður býst síst við því. Það er svo bara undir mér sjálfri komið að grípa þau tækifæri sem gefast og mér finnst ég hafa gert það á síðustu árum.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er komin í mjög sterka deild þar sem ég fæ ekkert gefins. Þegar ég horfi til baka þá var Lilleström góður staður til þess að hefja atvinnuferilinn og góður stökkpallur. Ég horfi sátt til baka á tíma minn í Noregi en í dag er ég tilbúin og spennt fyrir nýrri áskorun,“ bætti Ásdís Karen við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason