Jón Elías Þráinsson fæddist 27. nóvember 1969. Hann lést 5. janúar 2025.
Útförin fór fram 22. janúar 2025.
Mér finnst undarlegt að setjast niður og skrifa fáein orð um gamlan góðan vin sem féll svo skyndilega frá í blóma lífsins. Manstu Nonni þegar við kynntumst, báðir rétt skriðnir á þrítugsaldurinn, þegar nætur voru langar og lífið virtist ótæmandi! Við vorum ósigrandi, ef við vorum ekki að mála bæinn eldrauðan var setið á kaffihúsi og reynt að leysa lífsgátuna. Við töluðum um tónlist, kvikmyndir, og jú, skammtafræði, ég heyrði fyrst um skammtafræði hjá þér. Sumarið sem ég kynntist þér er í minningunni núna sem einn langur sólardagur og mér finnst eins og það hafi verið í fyrradag.
En svo breyttist allt, sem er lífsins saga. Við urðum menn í nýjum hlutverkum, fjölskyldumenn með ábyrgð. Samband okkar fjaraði út, ekki vegna fjarlægðar, heldur vegna þess að lífið hefur sinn eigin takt. Þó varstu alltaf einhvers staðar í bakgrunni, eins og ferskur andblær á löngum heitum sumardegi. Við heyrðumst og hittumst annað slagið, og þá voru penslar dregnir fram á ný. Þú varst harðduglegur til vinnu og það sem ég sá til þín þá tókst þú á við föðurhlutverkið af festu.
Það er sorglegt Nonni að við skyldum láta þetta hversdagslega amstur mynda gjá í okkar gamla góða samband. Ég veit að þú áttir dimma daga, gekkst í gegnum skilnað, og ég hef átt mína dimmu daga, en einhverra hluta vegna náðum við ekki að mæta hvor öðrum í þeirri baráttu til að styrkja hvor annan. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast þér því það voru örlög okkar; að kynnast hvor öðrum, spegla okkur hvor í öðrum og læra.
Þú gafst mér mikið og þú verður alltaf hluti af sögunni minni, gamli góði vinur. Þú varst tryggur, heiðarlegur og umfram allt einstaklega greiðvikinn. Kæra fjölskylda, megi lífsins ljós umvefja ykkur og styrkja í sorginni.
Ég veit það Nonni að nú siglir þú fleyi þínu þar sem ljósið er og kveð ég þig með þessum orðum úr einu af uppáhaldslögunum þínum:
“Blue eyes laughing in the sun
Laughing in the rain
Baby´s got blue eyes
And I am home again“
Helgi Kr. Jakobsson.