Skriður komst í gær á viðræður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og sveitarfélaganna. „Þetta var mjög góður fundur og við náðum ágætisárangri í að setja okkur markmið, hvert við ætlum að stefna og hvernig við ætlum að leysa málin. Það var ágætisskriður á fundinum,“ sagði Bjarni Ingimarsson formaður LSS eftir sáttafundinn. Næsti fundur verður á þriðjudag. Félagsmenn í LSS hafa samþykkt verkfall 10. febrúar hafi ekki samist fyrir þann tíma. „Við erum ágætlega bjartsýn eftir þennan fund og vonandi náum við að leysa þetta hratt og vel,“ sagði Bjarni.
Kjaradeilu stéttarfélaga starfsmanna hjá álveri Norðuráls á Grundartanga við Samtök atvinnulífsins (SA) sem semja fyrir hönd álversins var í gær vísað til ríkissáttasemjara. Á vefsíðu Verkalýðsfélags Akraness (VFLA) segir að þetta hafi verið gert vegna ágreinings um launaliðinn.
Þar kemur fram að stéttarfélögin hafi verið tilbúin til að fara eftir launastefnunni sem mörkuð var á vinnumarkaðinum í fyrra en ekki hafi verið vilji til þess hjá SA og Norðuráli, sem hafi komið með nýja nálgun. „Sú nálgun gekk út á að lækka krónutölu sem hefur lagst ofan á alla byrjendataxta sem er 23.750 kr. en SA og Norðurál vildu lækka þessa tölu um tæp 10% og báru fyrir sig að starfsaldurshækkanir í Norðuráli væru mun hærri en á almennum vinnumarkaði,“ segir á vef VLFA.
Þá segir einnig að þessi rök fyrirtækisins og SA haldi ekki vatni enda hafi hækkun byrjendataxta í öllum kjarasamningum verið óháð starfsaldurshækkunum.
„Með þessu framferði sínu líta stéttarfélögin svo á að SA og Norðurál hafi hafnað og vikið frá þeirri launastefnu sem búið var að móta og því munu stéttarfélögin leggja fram nýja kröfugerð þegar ríkissáttasemjari boðar til fundar. Þessu framferði verður mætt af fullum þunga af hálfu stéttarfélaganna,“ segir á vef VFLA. Viðræður við Elkem eru enn í gangi en fram kemur að þar geti brugðið til beggja vona.
Tólf óleystar kjaradeilur eru nú í vinnslu hjá ríkissáttasemjara. Þar á meðal eru óleystar kjaradeilur kennara við sveitarfélögin, VM og SA vegna fyrirtækja í laxeldi og Félags prófessora og samninganefndar ríkisins. Kjaraviðræðum Félags íslenskra leikara og SA vegna Leikfélags Reykjavíkur og viðræðum Félags skipstjórnarmanna og sveitarfélaga hefur verið vísað til sáttasemjara. omfr@mbl.is