Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Ekki er það á hverjum degi
sem jafnmörg stórmenni koma við sögu. Hjörtur Laxdal rakari á Sauðárkróki átti sama afmælisdag og Stalín. Hjörtur hallaðist til vinstri og óskaði bandamönnum sigurs í seinna stríði. Þegar það loks hafðist í gegn orti góður kunningi hans, Ludvig Kemp vegavinnuverkstjóri í Skagafirði:
Sveiflað er fánum og sungið er lag
sefur nú enginn sem frjáls verður talinn:
blindfullir eru þeir báðir í dag
bartskeri Hjörtur og félagi Stalín.
Frá því segir að Hirti hafi
ekki líkað vísan, en ekki treyst sér til svars. Bað hann Stefán Vagnsson að endurgjalda vísuna. Spurði Stefán hvar Ludvig væri og svaraði Hjörtur því til að hann væri í vegagerð norður í Fljótum og eflaust á fylliríi. Orti þá Stefán:
Hitler er dauður og horfinn sem pest,
Himmler tók eitur og dysjast í gjótum,
Quisling þeir hengja sem kött fyrir rest
en Kemp liggur blindfullur norður í Fljótum.
Ludvig orti þegar slettist upp á vinskapinn hjá Stalín og Tító:
Félagi Stalín elliær
orðinn og talsvert heimaríkur.
En Tító brúkar kjaft og klær,
kommúnista og fleiri svíkur.
Bjartsýnn er og bíræfinn,
af baki virðist ekki dottinn.
En það er ljótt að svíkja sinn
samherja og lánardrottin.
Guðmundur Sigurðsson bankamaður var mikilvirkur í skopkvæðum og rifjar Ólafur Stefánsson upp vísu sem hann orti á sínum tíma um bóndann í Kreml:
Stalín bóndi brúnaþungur
brölti þessu illa kann.
Enginn sendi öðrum heimi,
öllu stærra lið en hann.
Erlingur Sigtryggsson bætir við og kemur þá Franklin Delano Roosevelt við sögu:
Sterkur maður Stalín var.
Stærri mjög en Delano.
Eftir dauða hans aumingjar
urðu til að rægja hann þó.
Þá Guðrún Bjarnadóttir:
Stílbrögð um Stalín búin,
stífur karl, löngu dauður
Traust' á hann teljumst rúin,
telst ekki lengur rauður!