Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Bjarni Benediktsson, sem nú hættir þátttöku í stjórnmálum, er í 14. sæti yfir þá íslensku ráðherra sem lengst hafa verið í embætti. Fyrsti ráðherrann var skipaður 1904.
Bjarni var samfellt ráðherra í 11 ár og tæpa sjö mánuði. Hann varð fyrst ráðherra 23. maí 2013 og lét af ráðherraembætti 21. desember 2024.
Hann var fjármála- og efnahagsráðherra 2013-2017. Forsætisráðherra 2017. Fjármála- og efnahagsráðherra 2017-2021 og 2021-2023. Utanríkisráðherra 2023-2024. Forsætisráðherra 2024. Félags- og vinnumarkaðsráðherra og matvælaráðherra í starfsstjórn 2024.
Bjarni hefur því gegnt öllum þremur helstu ráðherraembættum; forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Því má óhikað segja að með brotthvarfi Bjarna verði tímamót í stjórnmálasögunni.
Alþingi tekur saman lista yfir þá sem hafa átt lengstan starfsaldur í ríkisstjórn og birtir þann fróðleik sem og margt annað um stjórn landsins á vef sínum.
Reynd ríkisstjórn
Listinn er birtur hér með fréttinni og nær til 20 einstaklinga sem lengst hafa verið ráðherrar.
Á þeim lista eru fjórir ráðherrar sem setið hafa í ráðuneytum Katrínar Jakobsdóttur. Auk hennar eru það Bjarni Benediktsson, Svandís Svavarsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Allmargir ráðherrar í ráðuneytum Katrínar og nú síðast í ráðuneyti Bjarna Benediktssonar eiga að baki langa setu við ríkisstjórnarborðið þótt ekki komist þeir á lista Alþingis.
Guðlaugur Þór Þórðarson hefur verið ráðherra í níu ár og tæpa átta mánuði, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir í sjö ár og tæpa 11 mánuði, Lilja Alfreðsdóttir sjö ár og 10 mánuði, Ásmundur Einar Daðason í rúm sjö ár, Guðmundur Ingi Guðbrandsson í sex ár og rúma 10 mánuði og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir fimm ár og tæpa fjóra mánuði.
Af þessu má sjá að það hefur verið reynslumikið fólk sem stýrði Íslandi frá 2017 til ársins 2024.
Í nýrri ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sú eina sem er með ráðherrareynslu. Hún var menntamálaráðherra 31. desember 2003 til 1. febrúar 2009 og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 11. janúar til 30. nóvember 2017. Utanríkisráðherra síðan 21. desember 2024. Þorgerður Katrín hefur því verið ráðherra í u.þ.b. sex ár.
Yngsti ráðherrann í nýju ríkisstjórninni er Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis- og orkuráðherra. Hann fæddist 31. maí 1992 og var því 32 ára og tæplega sjö mánaða þegar hann settist í ríkisstjórn.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var 29 ára og tveggja mánaða þegar hún varð ráðherra 2017 og Vilmundur Gylfason 31 árs og tveggja mánaða þegar hann varð ráðherra 1979. Þá varð Katrín Jakobsdóttir fyrst ráðherra 2009, 33 ára gömul. En yngstur allra til að taka við ráðherraembætti var Eysteinn Jónsson, sem var 27 ára og 11 mánaða þegar hann varð fjármálaráðherra 1934.
Ráðherrar Íslands voru við völd 1904-1917, fimm í allt. Hannes Hafstein, 1. febrúar 1904 til 31. mars 1909 (Heimastjórnarflokkur), var fyrsti ráðherrann. Eftir 1917 var ráðherrum fjölgað, fyrst í þrjá. Forsætisráðherra hafði forystu í ríkisstjórn og við hann eru ráðuneyti kennd eins og venja er.
Ráðherraferill Bjarna Benediktssonar eldri, náfrænda Bjarna yngri, spannaði 23 ár, 1947 til 1970. Bjarni lést í hörmulegum bruna í ráðherrabústaðnum á Þingvöllum 10. júlí 1970 ásamt konu sinni og dóttursyni. Bjarni var þá 62 ára gamall og forsætisráðherra. Ráðherraferill hans hefði orðið lengri ef þessi sorgaratburður hefði ekki orðið.
Frá 1904 hafa 175 einstaklingar setið sem ráðherrar, 136 karlar og 39 konur. Utanþingsráðherrar hafa verið 23.