Nú þegar Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur dregið land sitt út úr Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál er lítið eftir af því samkomulagi. Það var aldrei til mikils enda stórir og vaxandi framleiðendur, svo sem Kína, ekki mikið að láta slíkt samkomulag hafa áhrif á tíða opnun kolavera eða annað af því tagi. En eftir að Bandaríkin fara út er til einskis að láta eins og þetta samkomulag hafi einhverja þýðingu, enda fátt eftir nema ríki Evrópu og jafnvel þar fara efasemdir vaxandi.
Í grein eftir Bjørn Lomborg hér í blaðinu á dögunum segir frá því að hagkerfi ESB hafi dregist aftur úr vegna þess sem hann kallar loftslagsþráhyggju og hafi valið „sjálfbært“ hagkerfi fram yfir traust hagkerfi. „Ákvörðun ESB um að auka markmið sín um að draga úr losun árið 2030 var hrein dyggðaflöggun. Líklegt er að kostnaðurinn fari yfir nokkrar billjónir evra, en samt sem áður mun allt átakið aðeins lækka hitastigið í lok aldarinnar um 0,004°C,“ segir Lomborg.
Hann segir líka að jafnvel svartsýnar spár um hækkun hita við lok aldarinnar muni hafa sáralítil áhrif á heimsframleiðsluna og að meðalmaðurinn verði þrátt fyrir hækkunina 350% ríkari en í dag. Og staðreyndin er auðvitað sú að eftir því sem þjóðir heims verða ríkari geta þær betur tekist á við umhverfismál. Þjóðir sem eru að brjótast út úr fátækt hafa hins vegar engan áhuga á því.