Mæðgur Nína Dögg Filippusdóttir og Thelma Rún Hjartardóttir í hlutverkum sínum sem Vigdís og Ástríður.
Mæðgur Nína Dögg Filippusdóttir og Thelma Rún Hjartardóttir í hlutverkum sínum sem Vigdís og Ástríður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
RÚV Vigdís ★★★★· Leikstjórn: Björn Hlynur Haraldsson og Tinna Hrafnsdóttir. Handrit: Jana María Guðmundsdóttir, Björg Magnúsdóttir og Ágústa M. Ólafsdóttir. Aðalleikarar: Nína Dögg Filippusdóttir, Elín Hall, Sigurður Ingvarsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson. Ísland, 2025. 234 mín.

Sjónvarp

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Það eru þættir eins og Vigdís sem fá alla fjölskylduna til að sameinast fyrir framan sjónvarpið á sunnudagskvöldi og horfa á línulega dagskrá. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hópnum á bak við Vesturport tekst að sameina fjölskyldu og þjóð. Vigdís er önnur þáttaröðin sem Vesturport framleiðir en hópurinn gerði einnig Verbúðina árið 2021. Vigdís byggist, líkt og Verbúðin, á sönnum atburðum og er ævisöguleg þáttaröð um Vigdísi Finnbogadóttur, sem Björn Hlynur Haraldsson og Tinna Hrafnsdóttir leikstýra saman. En það hefur líklega ekki þurft að auglýsa þættina neitt rosalega enda nóg að auglýsa það að viðfangsefnið sé engin önnur en Vigdís Finnbogadóttir, sem fyrst kvenna í heiminum var kosin forseti í lýðræðislegum kosningum.

Um er að ræða fjóra þætti sem skipta má í tvo hluta. Fyrri hluti, þ.e. fyrstu tveir þættirnir, segja frá því þegar Vigdís er ung og ætlar sér í nám í Frakklandi. Elín Hall leikur hana unga og á mikið hrós skilið fyrir frammistöðu sína. Auk þess hjálpar það hversu líkar þær eru en ef skoðaðar eru myndir af Vigdísi á svipuðum aldri eru líkindin óneitanlega mjög mikil. Síðari hlutinn og, að mati rýnis, síðri hlutinn, þ.e. síðustu tveir þættirnir, fylgja Vigdísi á fullorðinsárum fyrir og meðan á kosningabaráttunni stendur. Nína Dögg leikur Vigdísi þegar hún er orðin fullorðin og stendur sig einnig prýðilega en fær því miður ekki eins mikið svigrúm í leiknum og Elín Hall þar sem spólað er yfir seinni hlutann aðeins of hratt og söguþræðinum og leiknum ekki leyft að anda.

Eins fram hefur komið er viðfangsefnið nóg til að vekja áhuga og ekki að ástæðulausu enda er Vigdís mjög áhugaverð kona og því eðlilegt að einhverjir vilji forvitnast um líf hennar. En hægt er að velta því fyrir sér hvort viðbrögðin hefðu verið jafn góð ef um væri að ræða skáldaða persónu. Líklega ekki. Rýnir telur einsýnt að það sé hvorki kvikmyndagerðin sjálf né fyrri velgengni Vesturports með Verbúðina sem vekur mestan áhuga áhorfenda heldur miklu fremur löngun til þess að kynnast viðfangsefninu betur, þ.e. vita meira um eina frægustu konu Íslands þar sem það er ekkert nýtt af nálinni þegar kemur að sjálfri kvikmyndagerðinni eða hvernig sögunni er miðlað áfram.

Í raun er þáttaröðin ekki mjög djúp heldur stiklað á stóru í lífi frægrar persónu í fjórum þáttum. Stærsti galli þáttaraðarinnar er því hversu miklu er reynt að koma fyrir á stuttum tíma, sem gerir það að verkum að það er ekki alltaf hægt að fara í dýptina. Til að það hefði verið mögulegt hefði þurft að taka fyrir færri viðburði eða atvik úr lífi Vigdísar eða gera fleiri þætti. Það er mjög erfitt að reyna að segja frá lífi Vigdísar í fjórum þáttum. Teymið á bak við þættina stendur sig hins vegar vel í því að reyna að troða öllu fyrir í fjórum þáttum en það kostar bæði tíma og peninga að gera þáttaröð eins og þessa og hvorugt er til í endalausu magni. Það bitnar hins vegar á efninu hversu lítinn skjátíma þau fá til að koma ævisögunni til skila. Þetta bitnar ekki síður á leik og persónusköpun en í þáttunum er Vigdís kannski aðeins of mikil Pollýanna, þ.e.a.s. hún er of fullkomin. Þetta á sérstaklega við um eldri Vigdísi. Hún er máluð upp eins og algjör engill en það hefði verið áhugavert að fá að kynnast annarri hlið en þeirri sem hún sýndi almenningi. Hver er Vigdís Finnbogadóttir á bak við luktar dyr? Þeirri spurningu er ekki almennilega svarað í þáttunum.

Þrátt fyrir fyrrnefnda vankanta eru þættirnir góðir enda sterkt viðfangsefni. Fyrri tveir þættirnir eru hins vegar betri en seinni tveir og er það líklega vegna þess að æska hennar er sá hluti sem almenningur veit hvað minnst um og er þar af leiðandi spennandi. Í fyrstu þáttunum er fjallað um Vigdísi sem ungling og þar til hún skilur við eiginmann sinn. Í þeim hluta er meiri tími gefinn til að segja söguna og persónum leyft að dvelja lengur í eigin þjáningu. Þar kynnumst við mótlætinu sem hefur fylgt titilpersónunni frá upphafi, sem er feðraveldið. Við kynnumst einnig fórnarkostnaðinum sem fylgdi hjónabandinu og skömminni sem fylgdi því að mistakast, ekki aðeins sem námsmaður og eiginkona heldur einnig sem líffræðileg móðir. Þetta eru mjög stórar og raunverulegar tilfinningar sem miðlað er í þáttunum, en hins vegar er skilnaðurinn afgreiddur frekar snubbótt án þess að sýna almennilega hvaða áhrif þetta hafði á Vigdísi.

Nokkrar glufur eru í handritinu, sem dæmi má nefna persónuna Krumma (Mímir Bjarki Pálmason) sem kemur fyrir í fyrstu tveimur þáttunum og áhorfendur falla fyrir enda algjört krútt. Krummi kemur síðan ekkert aftur fyrir í þáttaröðinni og því óskiljanlegt af hverju sú persóna hafi fengið þennan skjátíma sem hún fékk sérstaklega í ljósi þess hve miklu þurfti að koma til skila á stuttum tíma.

Það er þó ekki aðeins Vigdís sem dregur að áhorfendur heldur er það líka tíðarandinn og eiga þau sem sjá um búningana (Helga I. Stefánsdóttir), leikgervin (Joséphine Hoy), leikmyndina (Heimir Sverrisson) og tónlistina (Herdís Stefánsdóttir og Salka Valsdóttir) mikið hrós skilið en þeim tekst að koma tíðarandanum listilega til skila. Það er til dæmis virkilega ánægjulegt að sjá í síðasta atriðinu í lokaþættinum hvernig prjónakjóllinn fær aðra merkingu en að vera bara flík, kjóllinn verður tákn fyrir árangur Vigdísar. Með því að hleypa áhorfendum inn fyrir og segja þeim söguna af prjónakjólnum, þ.e.a.s. að prjónakjóllinn hafi verið gjöf frá ónefndri konu og stuðningsmanni Vigdísar að norðan og að honum hafi fylgt bréf þar sem hún var hvött til að klæðast honum þegar hún hefði verið kjörin forseti, en það er einmitt það sem hún gerir í hjartnæmu lokaatriðinu. Búningarnir og leikmynd ýktu einnig fagurfræði kvikmyndatökunnar hjá Eli Arenson en með því að fylla myndheildina (f. mise-en-scène) af áhugaverðum munum fyrir áhorfendur til að skoða er eiginlega ómögulegt að leiðast við áhorfið.

Hvað varðar leikmyndina þá getur verið erfitt að gabba Íslendinga og láta eins og verið sé skjóta í Frakklandi en ekki í gamla Miðbæjarskólanum og að fyrirlesturinn með Halldóri Laxness eigi sér ekki stað í bíósalnum í Austurbæjarskóla. Það er nánast í eðli íslenskra áhorfenda að hrútskýra fyrir öðrum áhorfendum hvar tökustaðirnir eru raunverulega. Þetta eru hins vegar saklausar ábendingar hjá þeim sem halda að þeir viti betur, en þegar fólk byrjar að kvarta yfir ósamræmi milli þess sem gerðist í raun og veru og þess sem á sér stað í þáttunum þá er gott að minna sig á að Vigdís er ekki heimildarþáttaröð. Það virðist stundum gleymast í umræðunni um ævisögulegar myndir eða þætti.

Vesturport á mikið hrós skilið fyrir að sjá tækifæri í því að miðla sögu Vigdísar áfram og tekst aftur að sameina þjóðina í gegnum þáttaröð og skapa umræðu, jafnvel þótt það sé bara heima í stofu. Það er sérstaklega mikilvægt að kvennasögur eins og þessi séu sagðar þar sem víðsvegar um heim á sér nú stað bakslag í jafnréttisbaráttunni. Í Vigdísi er sögð saga um konu sem ruddi brautina og sú saga er mikil hvatning fyrir aðrar konur að láta ekki mótlæti stoppa sig heldur halda ótrauðar áfram.