Laugardalsvöllurinn Til stendur að koma færanlegu kennslustofunum, skólaþorpinu sem svo er kallað, fyrir á þessum bílastæðum suðvestan við völlinn.
Laugardalsvöllurinn Til stendur að koma færanlegu kennslustofunum, skólaþorpinu sem svo er kallað, fyrir á þessum bílastæðum suðvestan við völlinn. — Morgunblaðið/sisi
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur mun á næstunni bjóða út kaup á færanlegum kennslustofum sem settar verða upp á bílastæði Laugardalsvallar við Reykjaveg. Verkefnið hefur fengið heitið „Skólaþorpið í Laugardal.“ Borgarráð veitti nýlega heimild fyrir útboðinu

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur mun á næstunni bjóða út kaup á færanlegum kennslustofum sem settar verða upp á bílastæði Laugardalsvallar við Reykjaveg. Verkefnið hefur fengið heitið „Skólaþorpið í Laugardal.“

Borgarráð veitti nýlega heimild fyrir útboðinu.

Í greinargerð Einars Þorsteinssonar borgarstjóra kemur fram að í samræmi við viðhaldsáætlun Reykjavíkurborgar sé gert ráð fyrir viðhaldi og endurbótum á skólunum þremur í Laugardal, þ.e. Langholtsskóla, Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla, og að tryggja viðeigandi bráðabirgðahúsnæði fyrir skóla- og frístundastarf í Laugardal á framkvæmdatíma.

Suðvestan við völlinn

Færanlegu kennslustofurnar verða í þyrpingum á bílastæðum suðvestur af Laugardalsvelli. Þær verða notaðar til kennslu nemenda á meðan viðhaldsframkvæmdir standa yfir. Áætlað er að hægt verði að taka fyrstu stofurnar í notkun haustið 2025.

Notast verður jafnframt við eldri stofur sem hafa verið nýttar í sambærileg verkefni í borginni. Auðvelt sé að flytja bæði nýjar og eldri stofur milli borgarhluta eftir því sem þörf myndast.

Gert er ráð fyrir kaupunum í fjárfestingaáætlun 2025 en áætlaðar eru 600 milljónir króna í verkefnið. Af kynningargögnum má ráða að kennslustofurnar geti orðið alls 21.

Þegar málið kom til afgreiðslu í bogarráði birti áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, Helga Þórðardóttir, bókun þar sem hún lýsti yfir áhyggjum af aðkomu, aðgengi og umferð á svæðinu. Finna þurfi leiðir til að tryggja öryggi barna á leið yfir og meðfram Reykjavegi. Lausnir þurfi að finna í samráði við nemendur, íbúa, starfsfólk og stjórnendur skóla- og frístundastarfs. Ekki megi gleyma að útbúa leiksvæði.

Reykjavíkurborg hefur birt forauglýsingu á útboðsvefnum en þetta verður svokallað EES-útboð. Þar kemur m.a. fram að um sé að ræða byggingu og að setja upp tvær færanlegar kennslustofur auk tengiganga. Endanlegur fjöldi færanlegra kennslustofa geti þó orðið 11 í þessu fyrsta útboði.

Kennslustofurnar skulu uppfylla öll nauðsynleg skilyrði til þess að öðlast byggingarleyfi. Ennfremur uppfylla allar kröfur byggingarreglugerðar hvað kennsluúrræði varðar.

Hver stofueining er um 80 fermetrar á einni hæð. Endanlegt umfang tengiganga á eftir að skýrast. Stofueiningarnar skulu vera byggðar úr timbri. Hverja einingu á að vera hægt að flytja í heilu lagi og setja niður á lóðina og tengja saman með tengigangi. Í hverri einingu skal gera ráð fyrir skólastofu fyrir 20 nemendur, salerni og forstofu.

Útboðið tekur til allra þátta verksins, svo sem hönnunar, smíði, uppsetningar, jarðvinnu og frágangs.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson