Baldur Úlfar Haraldsson fæddist 23. janúar 1965 í Reykjavík. Hann var skírður Baldur eftir móðurafa sínum og Úlfar eftir frænda sínum, fræknum skíðakappa sem fluttist til Bandaríkjanna um miðja síðustu öld.
Hann ólst upp í Vesturbænum og gekk hefðbundinn menntaveg Vesturbæingsins, Melaskóla, Hagaskóla og svo MR.
Baldur útskrifaðist úr MR og fór þaðan í viðskiptafræði við Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist árið 1992. Eftir námið fluttist Baldur ásamt Eddu Hrönn konu sinni og dóttur hennar til Hvammstanga þar sem þau bjuggu til 1999. Hann vann þar sem rekstrarstjóri prjónastofunnar Drífu. Í framhaldi af því starfaði Baldur hjá Bláfugli og forvera þess félags í um 14 ár sem fjármálastjóri og hefur starfað hjá Ísfelli ehf. undanfarin 10 ár í sambærilegu starfi.
Baldur er mikill íþróttamaður, æfði og spilaði fótbolta og handbolta með KR og var í meistaraflokki KR í handbolta um tíma. Á fertugsaldri smitaðist hann af hlaupabakteríunni og hefur varla stoppað síðan, og hlaupið mörg maraþon víða um heim.
„Ég hef alltaf verið mikið í íþróttum og ég hef meðal annars stundað skíði, fjallgöngur, fisk- og skotveiði og haft af því gríðarlegt gagn og gaman.“ Segja má að það sé í eðli Baldurs að vera stöðugt að.
Baldur og Edda Hrönn hafa ferðast heilmikið um Evrópu í gegnum tíðina og má þar nefna hjólaferð til Sikileyjar og gönguferðir til Spánar, Ítalíu og Krítar. „Í svona ferðum kynnist fólk löndum á allt annan hátt, þegar tækifæri gefst til að fara út fyrir borgirnar og út í sveitirnar. Ég veit fátt skemmtilegra en að ferðast í góðra vina hópi.“
Einnig fer Baldur í árlegar ferðir til Skotlands í skotveiði og margar skíðaferðir, þá oftast til Ítalíu, Austurríkis eða bara á „heimaslóðirnar“ á Siglufirði. Það sem stendur helst upp úr eru maraþonhlaupin erlendis. „Allan hlaupaferilinn hef ég verið svo lánsamur að hafa hlaupið með einstaklega góðu fólki og má þar nefna alla vini mína í Laugaskokki. Ég hef einnig tekið þátt í stórum maraþonhlaupum erlendis, svo sem í Boston, Berlín, New York, Chicago og London og er það alveg einstök upplifun.“
Baldur hefur gengið á ýmis fjöll með góðum vinum, meðal annars á Hvannadalshnjúk og Mont Blanc, hlaupið Laugaveginn nokkrum sinnum en aldrei gengið þá leið.
Hann hleypur í Reykjavíkurmaraþoninu ár hvert og hefur tekið þátt í fjölmörgum hlaupum sem Ísland hefur upp á að bjóða.
Baldur er ekki bara íþróttamaður sjálfur heldur hefur hann einnig mikla ástríðu fyrir ungmennafélags- og íþróttastarfi, sem dæmi var hann mjög virkur í starfi Ungmennasambands Vestur-Húnvetninga og var um tíma formaður, og hefur sinnt mörgum félagsstörfum fyrir Þrótt í Reykjavík ásamt því að sitja í núverandi aðalstjórn Þróttar.
„Ég tel að svona starf sé mjög mikilvægt samfélaginu í heild, börnin mín stunduðu öll íþróttir og þetta var að hluta til mín leið til að taka þátt í þeirra ástundun. Svo finnst mér þetta líka bara svo skemmtilegt og gefandi, auk þess sem ég er ávallt samferða frábæru fólki í þessu brölti.“ Í seinni tíð hefur Baldur tekið að sér dómgæslu fyrir Þrótt og haft gaman af og dafnar sú starfsemi vel innan félagsins. Helsti annatíminn í dómgæslunni er á Rey Cup-mótinu, en Baldur var stór hluti af skipulagningu og framvindu mótsins í mörg ár.
Þó að Edda Hrönn og Baldur hafi flutt frá Hvammstanga fyrir 25 árum, þá eru bönd þeirra hjóna við samfélagið mjög sterk, enda eignuðust þau marga af sínum bestu vinum þar og seinna meir keyptu þau sér lítið hús við ströndina sem þau hafa gert upp og verja þar miklum tíma.
Fjölskylda
Eiginkona Baldurs er Edda Hrönn Gunnarsdóttir, f. 19.11. 1965, viðskiptafræðingur. Þau eru búsett í Laugardalnum í Reykjavík. Foreldrar Eddu voru Gunnar Baldursson, f. 1935, d. 2004, og Svala Guðmundsdóttir, f. 1937, d. 2019.
Börn Baldurs og Eddu eru Árni Freyr, f. 7.8. 1998, Stefanía Svala, f. 19.2. 2001 og stjúpdóttir Baldurs er Hildur Nanna, f. 23.3. 1984.
Systkini Baldurs eru Ólína Margrét Haraldsdóttir, f. 1958 og Þorvaldur Haraldsson, f. 1966.
Foreldrar Baldurs voru Haraldur Freyr Þorvaldsson, f. 15.2. 1936, d. 1.8. 1999, sjómaður og Stefanía Ragnhildur Baldursdóttur, f. 25.1. 1944, d. 21.10. 2016, læknaritari.