Louise Christine Kjartansson (fædd Wagener) fæddist 23. janúar 1935 í Breinig í Þýskalandi. Hún lést í Kópavogi 17. febrúar 2023.
Foreldrar hennar voru Katharina Wagener (fædd Münch), f. 1906 og
Wilhelm Wagener, f. 1895.
Hún var elst sjö systkina, hin voru Irmgard, Reinhold, Renate, Helga, Inge og Emmi. Eftirlifandi er Inge, f. 1942.
Fjölskyldan bjó í húsi sem faðir hennar byggði með miklum matjurtagarði og ávaxtatrjám. Þar býr enn yngsta systirin. Æska hennar litaðist af ástandinu í Þýskalandi en líka voru góðar stundir. Skólaganga var sáralítil. Á unglingsárum komst hún yfir myndir frá Íslandi og Ekvador og dreymdi um að komast til þessara landa. Í bágu atvinnuástandi eftirstríðsáranna kom hún til Íslands sem heimilishjálp. Hingað kom hún 1956, þá 21 árs.
Árið 1958 giftist hún Kjartani Kjartanssyni, f. 1932, frá Fossá á Barðaströnd.
Börn þeirra: 1) Erla Katharina, f. 1958. Hún giftist 1982 Ólafi Þorvaldssyni, f. 1957. Þeirra börn eru: a) Lilja Kristín, f. 1981, gift Úlfi Teiti Traustasyni, f. 1979. Þeirra börn eru Tóbías Dagur, Dagbjartur Hjalti og Álfhildur Sunna. b) Þorvaldur, f. 1984, kvæntur Katrínu Briem, f. 1984. Þeirra börn eru Elísabet Erla, Alexander Óli. c) Eygló Dögg, f. 1996, gift Attila Balatoni, f. 1984. Þeirra barn er Atlas Óðinn. 2) Vilhjálmur, f. 1966. Hann kvæntist 1995 Maríu Svavarsdóttur, f. 1970. Þau skildu. Þeirra dætur eru: a) Fanney Halla, f. 2000. b) Védís Katla, f. 2002. c) Ásta Lovísa, f. 2006.
Þegar frumburður Louise fæðist 1958 flytur fjölskyldan til Þýskalands. Faðir hennar varð bráðkvaddur 1957 og hún vildi vera nærri sinni fjölskyldu. Árin í Þýskalandi voru góð en 1963 liggur leiðin til Íslands. Þau byggja sér parhús í Skólagerði og Vilhjálmur fæðist 1966. Louise og Kjartan skilja 1971 og hafði það mikil áhrif á hana. Nú orðin einstæð móðir með tvö börn í ókunnu landi án baklands.
Hún vann alla tíð láglaunastörf, ýmist við ræstingar eða í verksmiðjum. Lengst var hún herbergisþerna hjá Hótel Loftleiðum 1971-1996. Þar eignaðist hún ágæta vini. Því var henni það þungbært að vera sagt upp eftir 25 ára starf og orðin 61 ára. Blómahöllina í Hamraborg skúraði hún í áraraðir. Annað hvert kvöld kl. 22 fór hún að heiman, gangandi eða í strætó, að skúra.
Í Heiðmörk stendur skógur sem er dýrmætur vitnisburður um hæfni hennar og þrautseigju. Þar tók hún að sér árið 1990 að rækta upp gróðurlausan mel. Ekki var akfært að melnum svo hún bar tré og áburð í pokum og fötum. Hún lagði áherslu á að hlúa að hverri plöntu. Fyrst fór hún með það sem til féll í heimagarðinum en seinna fékk hún plöntur hjá Skógræktinni. Þar heitir nú Louiselundur.
Henni var sungin sálumessa í Kristskirkju Landakoti 6.3. 2023.
Elsku mamma hefði orðið níræð í dag. Eftir henni var tekið á Kársnesinu því hún áður fyrr gekk allra ferða sinna og fór í göngur sér til ánægju líka. Það var sjaldgæft í þá daga. Hún var dugmikil og lifði eftir mottóinu „Á morgun segir sá lati“.
Eftir skilnaðinn jafnaði hún sig og leitaði til fjalla og í náttúruna. Gekk hún í Ferðafélag Íslands 1971. Hún sýndi þrautseigju, verkakona á lágum launum, að halda heimili og með árunum að ljúka byggingu hússins. Það var mikið frelsi fyrir hana að fá sinn fyrsta bíl 1981, þá 46 ára. Vegna vinnu sinnar hjá Loftleiðum fékk hún frímiða í flug og þar með gat hún haldið sambandi við fólkið sitt í Þýskalandi.
Hún var fróðleiksfús. Þegar hún var sest að á Íslandi lærði hún að synda og skráði sig á prjónanámskeið. Lopaprjón fylgdi henni alla tíð og drýgði hún með því tekjur sínar fram á síðasta dag. Hún lærði ensku, frönsku, spænsku, vélritun og fór í leiðsögumannanám og tölvunám. Hún rýndi í veðrið, fuglana og náttúrufar. Hefði hún átt kost á námi hefði hún líklega orðið náttúrufræðingur. Blóm, tré og matjurtir ræktaði hún af alúð, hvergi voru betri jarðarber en úr hennar garði. Hún tíndi í Heiðmörk bæði hvannarfræ og garðabrúðurót og bjó sér til seyði/snafsa til heilsubótar. Í áraraðir bjó hún til berja/rabarbarasaft fyrir barnabörnin sín.
Hún var mikil ævintýrakona og ferðaðist vítt og breitt. Fyrir FÍ sinnti hún skálavörslu á hálendinu. Í þessum félagsskap kynntist hún öðlingnum Gísla Kristjánssyni og Grautargenginu. Með Gísla tókust góð kynni og höfðu þau yndi af að ferðast saman. Með Grautargenginu voru farnar margar gönguferðir í Ölpunum og víðar í Evrópu. Auk þess ferðaðist hún til Grænlands, Færeyja, Noregs, Kýpur og Madeira. Til Spánar fór hún í tungumálaskóla. Hún var orðin 70 ára þegar hún lagði loks í 3ja vikna draumaferð til Ekvador og Galapagos. Um svipað leyti fer hún í gönguskíðaferðir til Austurríkis. Þá eru ótaldar allar ferðirnar með börnum sínum. Villi er bara lítill drengur þegar þau fara saman til fjalla og á jökla. Ferðir sem mótuðu hans líf. Með fjölskyldu Villa fór hún margar páskaferðir inn í Landmannalaugar. Margar skíðaferðir í Alpana fór hún með Erlu og fjölskyldu. Hún var alltaf til í ævintýri. Hún fór fyrst í vetrarferð til Austurríkis ca. 1980. Margar ferðir voru farnar í bústaði og er Hvammur þar efst á blaði. Okkur auðnaðist flestum í fjölskyldunni að fara á æskuslóðir hennar 2015 og hitta ættingja og feta í spor hennar. Það var hennar síðasta ferð þangað og bauð hún okkur og systrum sínum og mágum út að borða. Hún var alla tíð boðin og búin að styðja við afkomendur, verkefnin voru næg. Eftirtektarvert var hversu mikið hún gat lagt af mörkum.
Hún bjó í sínu fallega heimili í Skólagerði í 57 ár. Seinni árin skerti heyrnartap verulega hennar lífsgæði og hjartasjúkdómur setti sitt mark á hana. Hún varð bráðkvödd við uppáhaldsiðju sína í Sundlaug Kópavogs.
Með þakklæti kveð ég mömmu sem ræktaði fólkið sitt, blómin sín, garðinn sinn, landið sitt og sjálfa sig.
Erla Kjartansdóttir.