— AFP/Zaid Al-Obeidi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áratug eftir að vígamenn úr röðum íslamista fóru ránshendi um ævafornu borgina Nimrúd, eitt helsta fornminjasvæði Íraks, fást fornleifafræðingar nú við það vandasama verk að setja aftur saman fjársjóði borgarinnar úr tugþúsundum brota

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Áratug eftir að vígamenn úr röðum íslamista fóru ránshendi um ævafornu borgina Nimrúd, eitt helsta fornminjasvæði Íraks, fást fornleifafræðingar nú við það vandasama verk að setja aftur saman fjársjóði borgarinnar úr tugþúsundum brota.

Borgin var eitt sinn krúnudjásn assýríska veldisins, sem var borgríki í Mesópótamíu á 21.-14. öld fyrir Krists burð, og konungdæmi þaðan af í sjö aldir til viðbótar. En eftir innreið vígamanna Ríkis íslams árið 2014 urðu rústir hennar nær óþekkjanlegar.

35 þúsund brot

Dýrmætar fornminjar frá því fyrir tíma íslams, sem íslamistarnir eyðilögðu, liggja þannig á víð og dreif í molum. Fornleifafræðingarnir láta það þó ekki á sig fá.

„Í hvert skipti sem við finnum brot og færum það á sinn upprunalega stað er það eins og ný uppgötvun,“ segir fornleifafræðingurinn Abdel Ghani Ghadi í samtali við AFP á vettvangi.

Fleiri en 500 munir hafa fundist brotnir á svæðinu, sem liggur um 30 kílómetra frá Mósúl, borginni í Norður-Írak sem Ríki íslams lýsti sem höfuðborg þess kalífadæmis sem það þóttist setja á fót.

Uppgröftur írakskra fornleifafræðinga hefur þegar skilað fleiri en 35 þúsund fornminjabrotum. Hafa þeir í kjölfarið vandlega sett saman að nýju lágmyndir, höggmyndir og steinhellur prýddar goðsagnaverum, sem allar tilheyrðu einu sinni höll Assúrnasirpals II. konungs.

Vængjaðar, hrokkinhærðar verur og hlekkjaðir fangar

Úr lofti má sjá hvernig púsluspil fræðinganna er smám saman farið að taka á sig mynd. Brot sem eitt sinn tilheyrðu sama grip sitja nú hlið við hlið, varin með grænum segldúk.

Á einni lágmyndanna sést Assúrnasirpal II. ásamt vængjaðri og hrokkinhærðri veru með skegg, og á úlnlið hennar blóm, saman til marks um árangur fornleifafræðinganna.

Annar gripur sýnir hlekkjaða fanga frá svæðum sem risu upp gegn valdamiklum her Assýríu.

Á öðrum stað liggja lamassu-styttur á hlið – þær sýna assýrískan guð með höfuð manns, líkama nauts eða ljóns og fuglsvængi – ekki fjarri steintöflum á fornmáli Assýringa.

„Þessar höggmyndir eru fjársjóðir Mesópótamíu,“ segir Ghadi. „Nimrúd er arfleifð alls mannkyns, saga sem nær aftur um þrjú þúsund ár.“

Lögðu fleiri svæði í rúst

Nimrúd var stofnuð á 13. öld fyrir Krists burð, sem borgin Kalhú, og stóð hæst á 9. öld sömu megin tímatalsins – þá sem önnur höfuðborg assýríska konungdæmisins.

Myndskeið sem Ríki íslams gaf út í áróðursskyni árið 2015 sýndu ribbaldana eyðileggja minnismerki með jarðýtum, höggva í þau með hökum eða jafnvel sprengja þau. Eitt þeirra var 2.800 ára gamalt hof til dýrðar Nabú, guði visku og ritlistar í Mesópótamíu.

Vígamennirnir lögðu einnig í rúst önnur svæði, svo sem fornminjasafnið fræga í Mósúl og borgina Palmýra í nágrannaríkinu Sýrlandi.

Loks voru sveitir þeirra lagðar að velli í Írak árið 2017 og endurreisnarverkefnið í Nimrúd hófst ári síðar.

Höf.: Skúli Halldórsson