Gleði Jafnan er líflegt á skrifstofu Flokks fólksins í Fjörgyn þegar kosningabarátta stendur yfir, en minna fer fyrir félagsstarfi þess á milli.
Gleði Jafnan er líflegt á skrifstofu Flokks fólksins í Fjörgyn þegar kosningabarátta stendur yfir, en minna fer fyrir félagsstarfi þess á milli. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flokkur fólksins er um margt sérstæður stjórnmálaflokkur og ekki aðeins fyrir þær sakir að flokkurinn sé í reynd ekki skráður stjórnmálaflokkur. Þegar litið er til skipulags flokksins, eins og það birtist í samþykktum hans, forræðis hans,…

Baksvið

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Flokkur fólksins er um margt sérstæður stjórnmálaflokkur og ekki aðeins fyrir þær sakir að flokkurinn sé í reynd ekki skráður stjórnmálaflokkur. Þegar litið er til skipulags flokksins, eins og það birtist í samþykktum hans, forræðis hans, flokksstarfsemi og ársreikninga vakna hins vegar ótal spurningar, sem erfitt hefur reynst að finna svör við.

Þau kunna og að vefjast fyrir þeim sem taka þurfa á styrkjamálum flokksins. Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu undanfarna daga hefur Flokkur fólksins á undanförnum árum fengið um 240 milljónir króna í opinber framlög til stjórnmálaflokka án þess að uppfylla skilyrði laga til þess. Þau kann hann að þurfa að endurgreiða.

Flokkur fólksins var stofnaður á eldhúsgólfinu hjá formanni hans, Ingu Sæland, árið 2016. Flokkurinn var fyrst kjörinn á þing árið 2017 en var meðal smáflokka að þingstyrk þar til í nýliðnum kosningum, þegar hann hlaut 10 þingsæti og komst að kjötkötlunum í ríkisstjórn valkyrjanna.

Skýringar á landsfundarleysi standast ekki skoðun

Flokkur fólksins hélt síðast landsfund – lágsigldan aukalandsfund á flokkskontórnum – undir lok september árið 2019. Það var annar landsfundur frá stofnun flokksins, en sá fyrri var haldinn ári fyrr. Á sjötta ár er því liðið frá síðasta landsfundi en flokkurinn hefur nú boðað fund í næsta mánuði.

Í samþykktum flokksins er kveðið á um að landsfundur skuli haldinn þriðja hvert ár. Blaðamaður spurði Ingu í vikunni hverju það sætti að landsfundur flokksins hefði dregist svo mjög.

„Við vorum nú 2019 með fund en svo gerðist líka annað dulítið sem hét covid og við vorum nú sérstaklega að ganga fram í því að reyna að koma í veg fyrir að dreifa smitum, nú síðan kom árið 2023 og landsfundur var auglýstur í fyrra eins og ég segi og er frestað þangað til á næsta ári. Og það er nú ekki bara Flokkur fólksins sem hefur ekki haldið landsfund í fimm ár, það eru stærri flokkar en við sem eiga líka slíka sögu,“ svaraði Inga.

Komið hefur fyrir að landsfundir annarra flokka séu haldnir síðar en samþykktir kveða á um, ekki síst á dögum heimsfaraldursins. Eins frestuðu nokkrir flokkar landsfundi í vetur vegna óvæntra alþingiskosninga.

Sá annmarki er á skýringum Ingu að landsfundur flokksins hefði með réttu átt að fara fram árið 2022. Öllum takmörkunum vegna faraldursins var aflétt í febrúar 2022 og því hefði ekkert átt að vera því til fyrirstöðu að halda fundinn það ár. Ekki frekar en árið 2023 eða árið 2024, enda var ekki boðað til kosninga fyrr en í október. Allir aðrir flokkar hafa enda haldið landsfund frá því að faraldrinum lauk.

Dulið innra starf og röng áritun ársreikninga

Fleira athyglisvert blasir við í samþykktum Flokks fólksins. Samkvæmt þeim skulu kjördæmaráð flokksins vera fimm. Hlutverk kjördæmaráða er að halda uppi félagsstarfi og fjalla um málefni landsfunda, auk þess að skipa uppstillingarnefnd kjördæma fyrir kosningar.

Samkvæmt ársreikningum flokksins – sá nýjasti er vegna ársins 2023 – hafa engin kjördæmaráð verið starfandi hjá Flokki fólksins, ekki einu sinni á kosningaári. Það er því vandséð að skipað hafi verið á framboðslista Flokks fólksins eftir því sem samþykktir gera ráð fyrir.

Þá segir í samþykktum að formenn kjördæmisráða (þessara sem ekki starfa) eigi sæti í framkvæmdastjórn, ásamt stjórn og varastjórn flokksins. Í framkvæmdastjórn sitja jafnframt formenn ungliðaráðs, öldungaráðs og málefnaráðs flokksins, en engin ummerki eru á neti eða í fjölmiðlum um að þau séu frekar að störfum en kjördæmisráðin.

Framkvæmdastjórn flokksins er ætlað að koma árlega saman og staðfesta ársreikning flokksins með áritun sinni. Þrátt fyrir það er það stjórn flokksins sem hefur áritað reikningana en ekki framkvæmdastjórn. Hvorki endurskoðandi flokksins né Ríkisendurskoðun virðist hafa gert athugasemd við að áritun reikningsins sé ekki í samræmi við samþykktir félagsins.

Aðeins á opinberu framfæri

Engin félagsgjöld hafa verið innheimt frá 2021 (þá virðast flokksmenn hafa verið 131) en áskilið er í samþykkt flokksins að flokksfélagar þurfi að hafa greitt félagsgjald. Ekki er því ljóst að í flokknum sé nokkur fullgildur félagi!

Samkvæmt nýjasta ársreikningi hafa engir almennir styrkir heldur fengist. Flokkurinn hefur eingöngu verið rekinn á því opinbera fé sem hann hefur fengið úthlutað í trássi við lög frá árinu 2022.

Þá eru engar upplýsingar um starfsmenn flokksins á heimasíðu hans, ólíkt því sem tíðkast hjá öðrum flokkum.

Fátt er þar að finna um innra starf. Á fréttasíðu flokksins er aðallega að finna greinaskrif en afar fáar fréttir af fundum, viðburðum eða málefnastarfi. Þannig hafa engar upplýsingar verið birtar í kjölfar landsfunda um kjör trúnaðarmanna, breytingar á samþykktum eða málefnaályktanir.

Margt er því á huldu um innra starf flokksins, en það mun ef til vill skýrast betur í febrúar að afloknum landsfundi, enda hefur formaður flokksins boðað að hann verði skráður sem stjórnmálasamtök hjá Skattinum í kjölfar fundarins. Við þá skráningu þarf meðal annars að veita upplýsingar um innra starf flokksins og eiga þær upplýsingar að vera almenningi aðgengilegar.