Guðrún Valgerður Bóasdóttir (Systa), fæddist 3. mars 1957 á Eskifirði. Hún lést á heimili sínu laugardaginn 11. janúar 2025.

Foreldrar hennar voru hjónin í Hátúni á Eskifirði, Guðrún Ingibjörg Björnsdóttir, f. 2.10.1922, d. 22.9.1975 frá Hátúni og Bóas Arnbjörn Emilsson, f. 17.6.1920, d. 28.5.1997 frá Stuðlum í Reyðarfirði. Eftirlifandi eiginmaður hennar er Elvar Ástráðsson, f. 7.8.1955.

Systa átti fimm systkini. Elst var Hildur Þuríður, f. 4.12.1941, d. 20.3.1987. Maður hennar var Hlöðver Kristinsson, f. 25.1.1940, d. 10.1.2009. Kjörsonur þeirra er Hermann Clausen Hlöðversson, f. 19.3.1967. Börn Hermanns eru Hildur Rut, Hákon, Andrea og Alfred. Næstelstur var Ingi, f. 12.5.1946, d. 7.1.2017. Þriðji er Emil, f. 18.1.1955, kvæntur Vigdísi Wang Chao Bóasson. Yngst er Guðlaug Elísabet, f. 16.10.1967 en dóttir hennar er Bóel og er maður hennar Rúnar Freyr Guðmundsson, börn þeirra eru Kristín Inga og Bóas Finnur, sonur Rúnars er Kristófer Dagur. Sonur Bóasar er Einar Bergmundur Þorgerðarson Bóasarson, f. 24.7. 1960.

Hann var giftur Guðrúnu Arndísi Tryggvadóttur, börn hennar og fósturbörn Einars eru Móna Róbertsdóttir Becker og Daníel Tryggvi R. Guðrúnarson.

Systa ólst upp á Eskifirði til 19 ára aldurs en þá fluttist hún ásamt Elvari til Reykjavíkur og bjó þar alla tíð síðan. Hún vann á Kleppsspítala og Geðdeild Landspítalans. Hún var starfsmaður Alþýðubandalagsfélags Reykjavíkur og Samtaka Herstöðvaandstæðinga til ársloka 1992. Hún hóf störf hjá Barnaverndarstofu 1992. Árið 1997 hóf hún störf á nemendaskrá Háskóla Ísland og lauk þar starfsævinni 20 árum síðar.

ÚtförGuðrúnar Valgerðar fram frá sal Ferðafélags Ísland, Mörkinni 6, í dag, 23. janúar 2025, klukkan 15.

Það er með sorg í hjarta að ég kveð vinkonu mína Guðrúnu Valgerði Bóasdóttur sem var alltaf kölluð Systa. Við Systa kynntumst fyrst fyrir fjörutíu árum þegar hún kom til starfa hjá Samtökum herstöðvaandstæðinga en ég var þá í miðnefnd samtakanna. Þótt við værum að mörgu leyti ólíkar var einhver strengur sem tengdi okkur og gerði það að verkum að það bar aldrei neinn skugga á nána vináttu okkar. Við deildum saman þeirri vissu að réttlætið myndi sigra að lokum og að í okkar stríðshrjáða og kjarnorkubrjálaða heimi skipti öllu máli að skipa sér undir merki friðarins, andmæla stríði og óréttlæti og tala fyrir friðsamlegum lausnum á deilumálum. Í friðarstarfinu yrði að sýna baráttuvilja og ekki síst þyrfti úthald og seiglu. Það var ekki í boði að gefast upp í þeirri viðleitni að byggja betri heim.

Systa var með í undirbúningi og framkvæmd margs konar mótmæla gegn hernum og Nató. Þar voru Keflavíkurgöngur viðamesta verkefnið. Hún var líka ein af stofnendum Samstarfshóps friðarhreyfinga á níunda áratugnum og vann í fjóra áratugi að skipulagningu árlegrar friðargöngu á Þorláksmessu og kertafleytingu í ágúst í minningu fórnarlamba árásanna á Hírósíma og Nagasaki. Á níunda áratug síðustu aldar og fram á þann tíunda var hún virk í samstarfi friðarhreyfinga gegn kjarnorkuvopnum á höfunum. Þá kynntist hún baráttufólki fyrir friði alls staðar að úr heiminum og varð margt af því góðir vinir hennar löngu eftir að formlegu samstarfi lauk.

Sá baráttuandi sem einkenndi Systu í friðarstarfinu var líka meginstefið í lífi hennar. Í áratugi glímdi hún við alvarlega sjúkdóma sem náðu þó aldrei að buga hana. Hún var ekki sjúklingurinn sem þurfti að vorkenna heldur baráttukonan sem hægt var að sækja styrk til og fá með í samstarf. Ekki síst var hún sú sem alltaf mátti leita til þegar eitthvað bjátaði á. Hún hafði sérstakan hæfileika til að laða að sér fólk sem deildi með henni gleði sinni og sorgum. En hún hélt einnig vel utan um nánasta hópinn sinn, ættingja og vini, óþreytandi að halda matarboð og veislur bæði heima og í Friðarhúsi. Elvar maður hennar og stoð og stytta í gegnum lífið stóð við hlið hennar og saman skipulögðu þau hinar dýrðlegustu veislur fyrir bragðlaukana þar sem kunnátta Systu í matargerð nýttist til fulls. Systa og Elvar ferðuðust mjög víða og voru ferðirnar með þeim hreinasta upplifun. Þar var kafað djúpt í söguna, fornleifar skoðaðar auk þess sem bjórtegundir og viskí voru smökkuð af vísindalegri nákvæmni. Rétt fyrir andlát sitt var Systa einmitt að skipuleggja enn eina ferðina, að þessu sinni til Sikileyjar, kanna gististaði og leita upplýsinga þannig að ferðin yrði sem áhugaverðust.

Minningin um Systu lifir í hjörtum okkar sem kynntumst henni. Við unnum saman að friði í rúma fjóra áratugi, stóðum saman í blíðu og stríðu og vorum bestu vinkonur. Ég er þakklát fyrir tímann sem við áttum saman og vil færa Elvari, systkinum Systu og fjölskyldu og öllum vinum hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ingibjörg Haraldsdóttir.

Hún Systa er dáin og skilur eftir sig minningar sem geymast vel.

Kynntist Systu fyrir rúmlega 35 árum þegar við Elvar fórum að spila bridge saman og síðan þá höfum við hist við ýmsar uppákomur. Allir sem þekkja til Þorláksmessuskötu Systu og Elvars vita hvers konar veislu þar var boðið upp á og alls staðar sem hún var nálægt og matur kom við sögu var hún á heimavelli.

Um framlag Systu til friðarmála og baráttu gegn her og hersetu ætla ég að hafa sem fæst orð enda munu aðrir örugglega fara yfir þá sögu en þetta viðhorf var sprottið úr hennar innsta kjarna og speglaðist vel í hennar lífsviðhorfum. Oft rak ég mig á að skoðanir mínar á hinum ýmsu málefnum fóru ekki saman við viðhorf Systu og þá voru málin tekin til skoðunar og kúrsinn hjá mér oft leiðréttur í framhaldinu.

Minnisstæðar eru sumarhúsaferðir með bridgefélögunum og okkar fólki en þær heppnuðust alltaf vel. Við Guðbjörg höfðum líka aðgang að sumarhúsi í Heydal en Elvar er einmitt frá Mjóafirði og þaðan eru góðar minningar með þeim, tengdaforeldrum mínum og fleira fólki en þessi hópur náði vel saman og síðan voru líka samverustundir í Hrísey af bestu sort.

Hvíl í friði Systa og minningin um þig mun eldast vel.

Sturla Þengilsson.

Guðrún Valgerður Bóasdóttir, af flestum kölluð Systa, lést á heimili sínu laugardaginn 11. janúar sl. sem var reiðarslag fyrir okkur öll sem hana þekktum.

Við höfðum lengi vitað hvor af annarri en segja má að vinátta okkar hafi hafist þegar ég í janúar 2007, þá í framhaldsnámi í bókasafns- og upplýsingafræði, þurfti á aðstoð Nemendaskrár Háskóla Íslands að halda. Þar varð Systa fyrir svörum og leysti vanda minn snöfurmannlega og af öryggi eins og henni einni var lagið. Við tóku ár með mörgum kráarferðum og endalausum matarboðum og veisluhöldum á Laugavegi 146 þar sem Systa og Elvar Ástráðsson, maðurinn hennar, höfðu búið sér afar notalegt heimili, sem alltaf stóð opið, og enduðu margar bæjarferðir þar af því að það var einhvern veginn alltaf í leiðinni. Þau hjón voru einstakir höfðingjar heim að sækja og löðuðu að sér fólk. Allur matur heimagerður frá grunni og margt þar á borð borið sem ekki fékkst annars staðar. Skata, útiþurrkað kjöt, bláskel, síldarsalöt, saltfisksalatið eina sanna, sænska jólaskinkan og súkkulaðimús með avókadó, allt einstakt lostæti, auk hins skoska haggis sem Systa reyndi sig við í fyrra og varð auðvitað betra en nokkurs staðar annars staðar. Þá eru ótaldar allar utanlandsferðirnar þar sem Systa og Elvar voru í hlutverkum fararstjóra enda víðförul og fróð um stórt og smátt, minningarnar eru óteljandi.

Systa var gegnheill friðarsinni og helgaði þeirri baráttu stóran hluta lífsins. Þá var hún mikill mannvinur enda vinmörg, gjafmild, fróð og skemmtileg. Lífið átti þó sínar skuggahliðar og ýmiss konar veikindi herjuðu á hana seint og snemma sem ágerðust frekar með aldrinum. Hún hélt þó reisn sinni og kallaði saman ættingja og vini í hádegissnarl á sunnudögum nær alltaf ef þau hjón voru á landinu. Síðasta slíka boðið sátum við Tómas o.fl. hjá þeim 29. desember sl. Sú stund var einstaklega ánægjuleg og fátt sem benti til að hádegisboðin yrðu ekki fleiri með þeim hjónum báðum.

Ég þakka Systu afar góða samfylgd og votta Elvari og öðrum aðstandendum innilega samúð.

Pálína Héðinsdóttir.

Guðrún Valgerður Bóasdóttir, Systa, var ein minnisstæðasta kona sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Við hittumst fyrst snemma á níunda áratug síðustu aldar þegar hún var starfsmaður Samtaka herstöðvaandstæðinga en ég átti sæti í miðnefnd samtakanna. Leiðir okkar lágu oft saman í margs konar samstarfi friðarhreyfinga en ég starfaði einnig í Samtökum eðlisfræðinga gegn kjarnorkuvá á þessum tíma sem tóku saman og komu á framfæri við almenning ýmsum upplýsingum um kjarnorkustríð. Við unnum saman í Samtökum friðarhreyfinga, m.a. í sambandi við kertafleytingu á Tjörninni í minningu fórnarlamba kjarnorkusprengnanna í Hiroshima og Nagasaki, Þorláksmessugöngu og baráttu fyrir kjarnorkuvopnalausum Norðurlöndum. Systa var drífandi friðflytjandi og það vakti athygli mína hvað hún átti auðvelt með að kynnast nýju fólki og átti stóran vinahóp. Síðar þegar ég fór að vinna á Veðurstofu Íslands kynntist ég Elvari eiginmanni Systu.

Systa var einstaklega rausnarleg og hafði gaman af því að bjóða til sín fólki, elda góðan mat og standa fyrir hvers kyns samkomum og félagsstarfi. Við Pálína ferðuðumst með þeim hjónum og ýmsum öðrum vinum og kunningjum um Holland, Írland, Belgíu, Skotland, Orkneyjar, Portúgal og víðar og eru þær ferðir ógleymanlegar. Það var gaman að fylgjast með því á ferðalögum hvað Systa átti auðvelt með að fitja upp á samræðum við heimamenn á hverjum stað og aðra ferðalanga á veitingahúsum, krám og víðar og eignast nýja kunningja og vini sem létu eftir svolítið spjall við hana eins og þeir hefðu þekkt okkur í áraraðir. Þar sönnuðust iðulega orð írska skáldsins Brendans Behans: „Hér eru engir ókunnugir. Aðeins vinir sem þú hefur ekki hitt áður.“

Ferð árið 2013 til skosku eyjunnar Islay á viskíhátið sem þar er haldin árlega með vinum úr Maltviskífélaginu var einstaklega ánægjuleg og eftirminnileg. Okkur var tekið með kostum og kynjum í átta eimingarhúsum sem framleiddu skoskt viskí á þessari litlu eyju en gafst jafnframt tækifæri til þess að skoða sögulegar minjar og landshætti í skosku eyjunum með fróðu og skemmtilegu fólki.

Við eigum eftir að sakna þessara ferðalaga, matarboða Systu á Laugaveginum og skilaboðanna sem hún sendi okkur svo oft um að eitthvað áhugavert væri um að vera þar sem vert væri að hittast og taka þátt.

Ég votta Elvari og öðrum ættingjum og aðstandendum innilega samúð og þakka Systu ánægjulega samfylgd.

Tómas Jóhannesson.

Níundi áratugurinn var annasamur tími í sögu friðarhreyfingarinnar. Kalda stríðið stóð sem hæst með kjarnorkukapphlaupi risaveldanna, vígvæðing hafanna var í fullum gangi og Bandaríkjaher jók í sífellu umsvif sín hér á landi. Á sama tíma héldu milljónir manna um heim allan út á göturnar til að andmæla stríði og vígvæðingu. Á Íslandi kom þessi bylgja fram með ýmsum hætti. Mótmælagöngur, fundir, friðartengdir listviðburðir og útgáfustarfsemi. Krafturinn í friðarhreyfingunni var gríðarmikill, verkefnin óþrjótandi en vasarnir hálftómir.

Starfsmannaskipti voru ör á skrifstofu Samtaka herstöðvaandstæðinga og stundum freistuðu fulltrúar í miðnefnd þess að spara sér kostnaðinn með því að skipta vöktum milli sín. Í janúar 1986 urðu hins vegar þau tímamót að nýr starfsmaður var ráðinn, Guðrún Valgerður Bóasdóttir. Þar með hófust bein afskipti Guðrúnar, eða Systu, af friðarmálum sem áttu eftir að standa alla ævi. Í þeirri vegferð var hún alla tíð samstiga lífsförunaut sínum Elvari Ástráðssyni.

Næstu misserin stóðu SHA fyrir stóraðgerðum á borð við Keflavíkurgöngur, fjöldasamkomur í Háskólabíói og umfangsmiklar menningarhátíðir þar sem mikið mæddi á fólkinu í framlínunni. Áherslan á samstarf við hugsjónasystkini í öðrum löndum var sömuleiðis mikil, svo sem með þátttökum í friðarráðstefnum og heimsóknum til erlendra friðarsinna. Systa tók virkan þátt í því starfi og kom sér þar vel brennandi friðarhugsjónin, óslökkvandi ferðagleði þeirra Elvars og áhugi á að kynnast nýju fólki. Hún átti sömuleiðis stærstan þátt í að SHA tóku virkan þátt í stofnun Græna netsins svokallaða, sem var vettvangur friðarsinna til að eiga í tölvusamskiptum í árdaga internetsins. Þá var Systa einn helsti drifkrafturinn í starfsemi Samstarfshóps friðarhreyfinga um áratuga skeið, sem skipulagt hafa kertafleytingar gegn kjarnorkuvopnum og friðargöngur á Þorláksmessu og eru ómissandi þáttur í tilveru fjölda fólks.

Árið 2005 rættist gamall draumur þegar SHA komu sér upp sinni eigin félagsmiðstöð, Friðarhúsinu að Njálsgötu 87. Systa tók ástfóstri við verkefnið og átti stóran þátt í þróun Friðarhúss í gegnum árin. Hún var alltaf með augun opin fyrir alls konar uppákomum, tækjabúnaði eða öðru því sem gagnast gæti í húsnæðinu og var ætíð reiðubúin að galdra fram veislumat fyrir hvers kyns samkomur, hvort sem þær voru í fjáröflunarskyni eða til að efla félagsandann. Fátt gladdi Systu meira en velheppnuð samkoma í Friðarhúsi með góðum veitingum, fullu húsi fólks og menningarlegri dagskrá með pólitískum broddi. Bágt heilsufar síðustu misserin gerðu það að verkum að þessum stundum hafði heldur farið fækkandi, en Systa var þó í essinu sínu í gestgjafahlutverkinu í útgáfuhófi bókarinnar Gengið til friðar, um sögu herstöðvabaráttunnar, seint á síðasta ári.

Friðarsinnar á Íslandi sjá nú á braut góðum félaga sem ávann sér ást og virðingu margra. Samtök hernaðarandstæðinga votta fjölskyldu og vinum Guðrúnar Valgerðar Bóasdóttur innilega samúð en minningarnar munu lifa.

Fyrir hönd Samtaka hernaðarandstæðinga,

Stefán Pálsson.

Guðrún Bóasdóttir, óþreytandi baráttufélagi og aðgerðasinni, er fallin frá. Ung að aldri gekk Systa, eins og hún var jafnan kölluð, til liðs við Samtök herstöðvaandstæðinga og hélt merkjum þeirra á lofti í blíðu og stríðu í áratugalangri baráttu, baráttu sem stendur enn og sér ekki fyrir endann á. Þetta var og er ekki einungis andóf gegn erlendum herstöðvum á íslenskri grund og þátttöku í NATO. Í grunninn er þetta baráttan fyrir friði og friðsamlegum lausnum í samskiptum þjóða og ríkja en gegn vígvæðingu og hernaði, köldu stríði og kjarnorkuvá, hernaðarbandalögum og útþenslustefnu stórvelda. Um skeið var Systa framkvæmdastjóri samtakanna og í ritnefnd tímaritsins Dagfara. Hún sat lengi í miðnefnd samtakanna, skipulagði mótmælaaðgerðir, baráttufundi, þorláksmessugöngur, kertafleytingar, að ógleymdum Keflavíkurgöngum. Níundi áratugurinn var áratugur friðarhreyfinga um víða veröld. Þá sökkti hún sér niður í hina alþjóðlegu baráttu, ekki síst á vettvangi Friðarsambands Norðurhafa (North Atlantic Network) og kom þá víða við sem fulltrúi Íslands á ráðstefnum og í aðgerðum bæði austan hafs og vestan. Hún stóð jafnan framarlega í baráttunni gegn stuðningi íslenskra stjórnvalda við hernaðarbrölt Bandaríkjanna og NATO víða um heim, sem náði ákveðnu hámarki í Íraksstríðinu, þegar ráðamenn settu nafn Íslands á hinn svarta lista hinna viljugu ríkja sem studdu ólöglegt og hörmulegt árásarstríð gegn fullvalda þjóð.

Segja má að hvar sem herstöðva- og hernaðarandstæðingar hafa komið að málum, á undangengnum fjórum eða fimm áratugum, hafi Systa verið á vettvangi eða lagt baráttunni lið með einum eða öðrum hætti. Á síðustu árum hefur Friðarhúsið góða á horni Njálsgötu og Snorrabrautar verið vettvangur hennar. Þar loga friðarblysin og hugsjónir hernaðarandstöðunnar.

Systa var ekki einungis baráttuglaður friðarsinni, hún og Elvar maður hennar voru sælkerar á mat og drykk og kunnu öðrum fremur að halda veislur og bera á borð jafnt þjóðlega sem alþjóðlega rétti og drykkjarföng. Þau verkuðu sitt hráefni eftir öllum kúnstarinnar reglum og víluðu ekki fyrir sér að nýta jafnt nýjustu strauma matargerðarlistarinnar sem ævafornar íslenskar hefðir. Allar þær aðferðir léku þeim í höndum. Þetta kom glöggt fram í hinum rómuðu málsverðum í Friðarhúsi og í veislum heima fyrir svo sem skötuboðunum frægu sem haldin voru um jólaleytið á heimili þeirra í áranna rás.

Íslenskir friðarsinnar og hernaðarandstæðingar standa í mikilli þakkarskuld við Guðrúnu Bóasdóttur. Án hennar hefði baráttan verið veikari, litlausari og bragðminni en ella. Minnumst hennar með því að halda merkjum andófsins hátt á lofti því nú er baráttan brýnni en nokkru sinni fyrr.

Árni Hjartarson.