Þorsteinn Vigfússon fæddist 7. febrúar 1935 á Húsatóftum á Skeiðum. Hann lést 13. janúar 2025 á Ási í Hveragerði.

Foreldrar Þorsteins voru hjónin Vigfús Þorsteinsson, f. 1894, d. 1974 og Þórunn Jónsdóttir, f. 1905, d. 2001, bændur á Húsatóftum. Systkini hans eru Garðar, f. 1927, d. 2007, Sigríður, f. 1928, d. 1959, Vilborg, f. 1929, Inga, f. 1933. Alda tvíburasystir, f. 1935, Guðjón, f. 1936, Hjördís, f. 1938, d. 2015, Jóhanna, f. 1942, d. 2023, Stefanía, f. 1945, tvíburarnir Þorgeir og Jón, f. 1948. Einnig ólst upp með þeim sonur Sigríðar, Vigfús Þór, f. 1958.

Þorsteinn ólst upp á Húsatóftum og átti þar lögheimili alla tíð þar til hann flutti að Ási í Hveragerði fyrir tæpum tveimur árum. Hann byggði sér hús og stofnaði þjónustubýli í landi Húsatófta 1 árið 1980. Mestallan sinn starfsaldur var hann vörubílstjóri og gerði út eigin bíl. Seinna keypti hann rútu og gerði út meðal annars í skólaakstur. Þorsteinn var mikill hestamaður alla tíð og þekktur fyrir það. Hann átti gæðinga sem hann sýndi til verðlauna á hestamótum, m.a. á Landsmóti hestamanna. Þorsteinn var í sambúð með Steinunni Finnbogadóttur í sautján ár, eða þar til hún lést 2016.

Þorsteinn verður jarðsunginn frá Skálholtsdómkirkju í dag, 23. janúar 2025, kl. 14.

Við systkinin hugsum til þín með mikilli hlýju og þakklæti, elsku Þorsteinn, fyrir allt það sem þú gerðir fyrir móður okkar, Steinunni Finnbogadóttur. Þú varst henni ekki aðeins samferðamaður, heldur klettur og athvarf – traustur og elskulegur vinur sem hún gat alltaf leitað til. Með þinni nærveru urðu seinustu ár hennar ríkari.

Ár sem voru sannarlega bæði fjölbreytt og skemmtileg. Þau voru ófá ferðalögin sem þið fóruð saman, hvort sem var innanlands eða erlendis. Við munum með hlýju eftir frásögnum ykkar af Spáni, þar sem Guðrún Alda bjó um tíma og þið nutuð sólarinnar á fínu þaksvölunum þar. Þú kunnir svo vel að meta slíkar stundir og skapa úr þeim gleði. Á Ítalíu hjá Guðrúnu Öldu var ykkur líkt við ástfangna unglinga, þar sem þið röltuð saman um almenningsgarða og á Krít urðuð þið algjörlega heilluð af menningu eyjarskeggja og þeirri hlýju sem ykkur var sýnd alls staðar. Þeir staðir urðu ykkur kærir, ekki aðeins fyrir fegurðina heldur líka fyrir þær ómetanlegu stundir sem þið deilduð saman.

En ferðalögin segja aðeins brot af sögunni. Fyrst og fremst varstu henni stoð og stytta í gegnum lífið, bæði í blíðu og stríðu. Á síðasta æviskeiði móður okkar sýndir þú óbilandi elskusemi, þolinmæði og virðingu. Þú tókst á við áskoranirnar með æðruleysi og gerðir allt sem í þínu valdi stóð til að gera líf hennar auðveldara og innihaldsríkara. Hún gat treyst á þig – í öllum aðstæðum. Við vitum að síðustu dagana hennar stóðst þú vörð við hlið hennar og á þeim augnablikum varstu ekki aðeins styrkur hennar, heldur líka hennar dýrmætasti félagsskapur. Fyrir allt sem þú gafst henni – og okkur – erum við þér óendanlega þakklát. Slíkur kærleikur og sjálfsfórn gleymist aldrei.

Elsku Þorsteinn, við kveðjum þig með þakklæti í hjarta og hlýjum minningum. Megir þú hvíla í friði. Að lokum viljum við kveðja þig með einu af ljóðum mömmu, sem talar til hjartans, rétt eins og þú gerðir alla tíð.

Hughrif

Elding logar

opnast heimur

dulur hugur

deilt með tveimur.

Innst í dulinni vitund

er undur þitt

í eilífð augnabliksins

slær hjarta mitt.

Í myrkri og misvindum lífsins

er ástin ljós

í raunum og gleði ræktar

rós við rós

Fegurð og gleði finna,

framandi lönd

en gæta skal gjafanna sinna

á gullinni strönd.

(Steinunn Finnbogadóttir)

Steinunn Harðardóttir, Einar G. Harðarson og Guðrún Alda Harðardóttir.

Þorsteinn nafni minn frá Húsatóftum var einstakur maður, léttlyndur og gamansamur, góðviljaður og traustur, þéttur á velli og þéttur í lund.

Við áttum sama afa, Þorstein Jónsson bónda á Húsatóftum, og fengum báðir nafn hans með fullum skilum, en hann lést áður en ég fæddist. Ég var svo heppinn að fá að njóta upprunans með því að vera í sex sumur í sveit hjá Vigfúsi föðurbróður mínum á Húsatóftum. Þannig vildu þeir hafa það, bræðurnir Vigfús og Vilhjálmur, bóndinn og verkamaðurinn, þó að ómegðin væri svo sem alveg nóg á bænum, 12 börn sem öll komust upp.

Nafni minn var fimm árum eldri en ég en lét sér engu að síður annt um þennan kaupstaðarstrák og ég reyndi að endurgjalda af veikum mætti, til dæmis þegar þeir bræður, Guðjón og Steini, komu í heimsókn á mölina í Reykjavík í fyrsta sinn.

Nafni hafði í þá daga mikinn áhuga á hestum, tamdi jafnvel verstu ótemjur og beitti þá bæði afli sínu og lagni. Ég man líka hvað hann var góður í kúluvarpi, en barnaskarinn í Austurbænum á Húsatóftum hafði bæði mikið yndi af frjálsum íþróttum og sundi auk hestamennskunnar. Hann var sjálfkjörinn í „landslið“ Húsatófta í kúluvarpi þegar keppt var við nágrannabæi í frjálsum.

Eftir að ég eltist og fór að vinna í Reykjavík á sumrin fór ég samt á hverju hausti í heimsókn að Húsatóftum. Þá hafði sú breyting orðið á að nafni minn hafði eignast vörubíl og notaði hann til tekjuöflunar. Ekki var við annað komandi en að ég fengi bíltúr um nágrennið, til dæmis upp í Hreppa þar sem ég hafði aldrei komið áður, en nafni minn þekkti hvern bæ. Þetta lýsir honum vel. Og við Sigrún litum oft við hjá honum þegar við heimsóttum Guðjón og Valgerði, meðal annars þegar Viðar sonur okkar steig í fótspor föður síns og var þar í sveit.

Þegar árunum fjölgaði tók nafni upp sambúð með Steinunni Finnbogadóttur ljósmóður og félagsmálafrömuði sem lést fyrir nokkrum árum. Ég kynntist sambúð þeirra ekki mikið persónulega en hef fyrir því góðar heimildir að hann hafi reynst Steinunni afar vel í ellinni, enda er það honum líkt.

Við Sigrún og fjölskylda okkar vottum nánustu ættingjum og vinum Þorsteins innilega samúð. Við kveðjum góðan mann og hjartahlýjan.

Þorsteinn Vilhjálmsson.

„Þú komst í hlaðið á hvítum hesti.“ Þessi hending úr vinsælum söngtexta er mér ofarlega í huga þegar ég minnist Steina föðurbróður míns. Við andlát hans kom mér í raun á óvart, hve margt fór að rifjast upp, einkum frá uppvaxtarárum mínum á æskuheimilinu á Húsatóftum.

Þegar ég man fyrst eftir mér bjó ég í kjallaranum með foreldrum mínum. Uppi áttu heima afi og amma, Steini, Nonni, Dondi og Vigfús Þór. Síðar komu systkini mín, Gestur og Vigdís. Það rifjast líka upp hve það var mikill gestagangur, um flestar helgar finnst mér að einhver af sex systrum pabba hafi komið í heimsókn með fjölskyldu sína, stundum fleiri en ein. Svo voru á hlaðinu fólkið í vesturbænum og fjölskylda Garðars föðurbróður míns „uppi í húsi“. Ég tel mig gæfumann að hafa alist upp við slíkar aðstæður með öllu þessu skemmtilega fólki.

Þegar ég var lítill var Steini fyrst og fremst hestamaður og vörubílstjóri. Hann bjó heima, en byggði sér síðar íbúðarhús og hesthús fyrir sig á jörðinni. Steini átti og rak vörubíl, en seinna eignaðist hann rútu og stundaði skólaakstur og farþegaflutninga.

Mér fannst Steini glæsilegur knapi, hann átti góða hesta og var góður vinur þeirra. Reynir átti sérstakan sess, enda mikill gæðingur sem vann til verðlauna í héraði og á landsmóti. Frægur hestamaður, sem fékk að skoða Reyni eftir lokaskeiðsprettinn á landsmótinu á Vindheimamelum 1974, sagði: „Hann er mikillar gerðar þessi hestur.“ Þessi orð voru Steina minnisstæð og rifjuðum við þau oft upp síðustu misserin og skeiðsprettinn sem tókst svo vel. Þó sumt væri farið að gleymast síðustu mánuðina, þá mundi hann vel eftir Reyni sínum og sagði mér sögur af honum, nokkuð oft sömu sögurnar. Steini sagði einnig frá öðrum hestum, t.d. Bleik sem var frábær ferðahestur, úthaldsgóður og komst hratt yfir. Ég er ekki frá því að sögurnar hafi orðið ögn ýktari eftir því sem þær voru sagðar oftar.

Þegar Steini var nálægt sjötugu varð hann fyrir því óláni að slíta hásin. Fljótlega eftir það fór hann til endurhæfingar á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Ég vorkenndi frænda mínum og þar sem ég bý í Hveragerði ákvað ég að heimsækja hann. Þær heimsóknir voru reyndar ekki margar, því mér fannst hann vera annars hugar og mér leið eins og ég væri að trufla hann. Síðar kom í ljós að hann hafði kynnst þarna konu, henni Steinunni Finnbogadóttur. Þeirra kynni hófust þannig að Steini var í matsalnum á hækjum og átti erfitt með að ná sér í mat. Þá gekk Steinunn til hans og spurði: „Má ég aðstoða þig?“ Eftir það voru þau óaðskiljanleg, sáu ekki sólina fyrir hvort öðru og gengu lífið saman upp frá því, þangað til hún dó fyrir átta árum.

Ég á góðar minningar um Steina og alltaf fannst mér hann góður við mig. Heilsu frænda míns hrakaði nokkuð síðustu misserin og var hann á Ási í Hveragerði síðustu tæpu tvö árin. Mér þótti vænt um að hafa átt þess kost að heimsækja Steina nokkuð reglulega eftir að hann kom á Ás. Við vorum reyndar báðir ánægðir með það og hann bað alltaf að heilsa fólkinu sínu.

Blessuð sé minning Steina frænda.

Auðunn Guðjónsson.

Steini föðurbróðir minn er nú allur. Átti mánuð í nírætt.

Mikið var gaman hjá okkur þegar ég fékk sem krakki að fara með honum í Bensinum græna, X-609. Bæði í malarferðir en ekki síður voru áburðarferðirnar til Reykjavíkur minnisstæðar. Þá var sungið mikið og hátt við nokkuð öflugan undirleik Bensans og þess á milli var ekki töluð vitleysan. Prins póló og malt. Alltaf var öðrum vörubílstjórum sem við mættum heilsað með virktum. Það fannst mér flott. Sérstaklega þegar var flautað.

Ofsalega voru samt áburðarpokarnir þungir. Hvatti hann mig vel áfram í að burðast með þá, en hverjum poka var lyft upp á, raðað og svo aftur niður af bílnum á áfangastað. Mikið þótti mér til þess koma að sjá hann bera tvo áburðarpoka sem hann gerði svona spari, því ég mátti hafa mig allan við að eiga við einn. Þvílíkt hreystimenni! Svona eftir á að hyggja var kannski ekki skrítið að mér hafi fundist þeir þungir enda voru 50 kílóa pokarnir þá meira en líkamsþyngd mín. Þetta gerði hann samt vor eftir vor, ferð eftir ferð, á skelfilegum vegum. Samt entist bíllinn að því er virtist endalaust í höndunum á honum.

Eins var gaman að fylgjast með hestamennskunni hjá Steina, en hann var mikill hestamaður. Í hans frásögn hafði varla gengið jafn góður gæðingur á þessari jörð og hann Reynir. Hvatti hann mig mjög áfram með hana Drífu mína, þótt ekki yrði jafn mikið úr því og hefði getað orðið.

Sama var eiginlega með allt sem við krakkarnir tókum okkur fyrir hendur. Alltaf var hann jafn ánægður með það og hvatti okkur áfram.

Steini var mikil félagsvera og naut þess mjög að keyra skólabíl, sem hann byrjaði á þegar vörubílaaksturinn varð ekki nægur. Kátur og brosandi Steini er það sem lifir í þeirri minningu. Þegar við Skeiðastrákarnir hófum að æfa blak þurfti að fara í nágrannasveitir til að komast í nægjanlega stóra æfingasali. Þá var Steini fenginn til að keyra. Tók hann fullan þátt í félagsskapnum og hafði mikla skemmtun af, eins og við. Það sama var með skólabílinn eins og vörubílinn, hann entist og entist.

Steini var svo heppinn að slíta hásin einhvern tíma í kringum sjötugt, því í framhaldinu fór hann á Náttúruna í Hveragerði og hitti þar Steinunni sína. Ljómaði hann alltaf eins og sólin nálægt henni, fór að ganga í flottum dressum og brosti hringinn. Nutu þau svo sannarlega þessa góða áratugar sem þau áttu saman.

Að leiðarlokum þakka ég góðum vini og kærum frænda samfylgdina. Vini sem trúði á það góða í öllum, tók manni alltaf opnum örmum, var alltaf tilbúinn að spjalla um heima og geima og elda stundum bjúgu með jafningi.

Gestur Guðjónsson.