Einlæg Silja Rós hefur notað tónlist og önnur skrif sem leið til að tjá sig og vinna úr lífsreynslu sinni.
Einlæg Silja Rós hefur notað tónlist og önnur skrif sem leið til að tjá sig og vinna úr lífsreynslu sinni. — Ljósmynd/Gunnlöð
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Tónlistin hefur alltaf verið mín leið til að tjá mig og vinna úr tilfinningum. Þetta byrjaði sem þerapía.“

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Fjölhæfa tónlistarkonan, lagahöfundurinn, handritshöfundurinn og leikkonan Silja Rós hefur alla tíð leitað í tónlist og skrif til að vinna úr tilfinningum sínum.

Hún speglar persónulegar reynslur í nánast allri listsköpun sinni, þar sem tónlistin hefur reynst henni bæði heilandi og djúpstæð leið til tjáningar.

Á dögunum gaf Silja Rós út nýja fjögurra laga EP-plötu, … suppress my truth, sem er undanfari væntanlegrar plötu, … letters from my past, sem kemur út í vor. Nýja platan dregur fram bæði persónulegar reynslur og nýtir innblástur frá ýmsum tímamótum í lífi hennar.

Titillagið „… suppress my truth“ er innblásið af fortíðinni og samskiptum sem hafa haft mótandi áhrif á hana.

„Rótin að laginu „… suppress my truth“ fer í raun mjög mikið til fortíðar, alveg frá unglingsárum og að nútímanum,“ segir Silja. „Það fjallar um „haltu mér slepptu mér„-sambönd, sambönd sem urðu ekkert nema hugmynd, og svo er líka eitthvað í textanum sem fjallar um sambönd sem voru ekki góð fyrir mann. En aðallega um það hvernig maður felur sársaukann frá þeim sem særði mann og lætur eins og það hafi ekki haft áhrif á mann. Þegar sannleikurinn er í raun annar.“

Annað lagið, „Lemons“, er grúví popplag sem fjallar um fyrstu kynni í samböndum. Þar má heyra áhrif frá Silk Sonic og Jacob Collier.

Deilir ástríðunni með unnustanum

„Það lýsir því þegar maður er að reyna að átta sig á hinni manneskjunni og dansa í kringum allar tilfinningarnar sem koma upp,“ segir Silja sem segist auk þess hafa fengið mikla útrás fyrir áhuga sínum á flottum raddútsetningum á plötunni. Unnusti hennar, tónlistarmaðurinn Magnús Orri Dagsson hefur einnig tekið virkan þátt í gerð plötunnar og hefur setið yfir hverju smáatriði ásamt Silju sem segist afar heppinn að geta deilt tónlistarástríðunni með maka sínum.

Lagið „...real love“ leiðir hlustandann hins vegar aftur til Los Angeles, þar sem Silja bjó í nokkur ár og stundaði skapandi nám. Hún segir að stemningin í byggingunni sem hún bjó í L.A. hafi minnt á margan hátt á þættina „Friends“ og segist alltaf fá „hlýtt í hjartað“ við að hugsa til baka. Lagið fjallar um þær tilfinningar.

Síðasta lagið á plötunni, „Love & Affirmation“, fjallar um það hvernig maður á að halda áfram þrátt fyrir stanslausar hafnanir og sýna sér sjálfsmildi. Það lag samdi ég í rauninni til að róa sjálfségóið innra með manni þegar maður er við það að gefast upp á því að elta drauminn sinn,“ útskýrir Silja. „Það hjálpar mér að jarðtengja mig og minnir mig á að trúa á sjálfa mig.“

Hún bætir við að þetta sé líklega persónulegasta lagið á plötunni:

„Love & Affirmation er ábyggilega persónulegasta lagið á plötunni og það sem mér þykir vænst um,“ segir hún. Lagið samdi hún ásamt bestu vinkonu sinni, Bergrós, sem syngur einmitt með henni í laginu.

„Þetta er rosalega heilandi ferðalag, að semja. Þetta byrjaði sem þerapía. Ég byrjaði að semja um mínar tilfinningar og það sem ég var að ganga í gegnum. Það hjálpaði mér ótrúlega mikið,“ segir Silja Rós.

Hún útskýrir að ferlið við að gefa út persónuleg lög sé þó ekki einfalt:

„Svo þegar það kemur að því að gefa út lögin þarf maður að vera kominn á þann stað að geta rætt um þau og vera tilbúinn að opna sig fyrir framan alla.“

Þessi tilfinningalega nálgun gerir lögin hennar einstök, en hún viðurkennir að það geti verið erfitt:

„Það er að finna þessa línu, hvenær maður er tilbúinn að segja frá. Það getur líka verið heilandi og hjálplegt fyrir aðra sem jafnvel hafa upplifað sömu hluti eða tengja við þá.“

„Við höfum öll lent í einhverju. Það er spurning hvernig við tölum um það og komum hlutunum frá okkur. Mér finnst gott að gera það í gegnum sögur og „storytelling“.“

Eins og að kíkja í dagbókina

„Kjarni lagsins er oft frá hjartanu. Ég reyni alltaf að halda minni tilfinningu inni í lögunum eins mikið og ég get. En svo þegar lögin eru mjög nálægt manni getur það verið pínu „trikkí“ af því að þetta er svolítið eins og að kíkja inn í dagbókina mína,“ segir Silja Rós.

Textinn við titillag EP-plötunnar kom til að mynda úr mörgum áttum, bæði frá fyrri sambandsslitum og samböndum sem urðu aldrei meira en bara hugmynd. Innblásturinn kom þó einnig úr togstreitu innra með henni varðandi allt aðra vinkla í lífinu.

„Bara eins og í listinni líka. Ég sæki mikið innblástur í mína vegferð sem tónlistarkona og leikkona. Þetta er bransi sem er ótrúlega sveiflukenndur.

Það er ótrúlega mikið af höfnunum til staðar. Stundum eru lögin mín um það en eru dulbúin sem ástarlög,“ útskýrir Silja sem hefur mikla ástríðu fyrir leiklistinni og hlakkar til verkefna nýja ársins en hún mun meðal annars hefja tökur á ónefndu verkefni í febrúar. Tónlistin er þó alltaf mjög framarlega í forgrunni og væntanleg plata, sem hefur verið í vinnslu frá útgáfu annarrar plötu hennar, 2021, hefur alltaf gripið hana á milli verkefna í leiklistinni.

Í tónlistinni sækir hún þó einnig mikinn innblástur frá öðru listafólki, eins og Jacob Collier og Sabrinu Claudio.

„Sabrina Claudio vinnur mikið með andstæður í textunum sínum. Hver er alvöru sagan út á við? Þorum við að segja sannleikann eða erum við með grímu?“ útskýrir Silja.

Bréf úr fortíðinni

EP-platan er þó aðeins forsmekkur að væntanlegri plötu, ...letters from my past, sem inniheldur níu lög og speglar lífsferil Silju Rósar í tónlist og lífi. Hún segir að platan endurspegli hana sjálfa mun betur en fyrri verk:

„Þessi plata er mest ég,“ segir hún. „Þar blanda ég poppi við soul, R&B og djass. Þetta er ég að leyfa mér að vera sönn sjálfri mér.“

„Þegar ég samdi plötuna leitaði ég mikið til fortíðar, bæði í dagbækur og gaf gömlum skúffulögum nýtt líf. Platan er í raun mitt ferðalag að þeirri manneskju sem ég er í dag, hvernig maður lærir að elska sjálfan sig í gegnum allar þá lífsreynslu sem lífið gefur manni. Meginþema plötunnar er ást, sum laganna eru dulbúin sem ástarlög en önnur eru hreinræktuð ástarlög,“ segir Silja. „Ég passaði mjög vel, á þessari plötu, að vera sönn sjálfri mér. Þetta er ég.“

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir