Málarekstur Álfabakki ehf. og Reykjavíkurborg hafa sent umsagnir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna kæru Búseta.
Málarekstur Álfabakki ehf. og Reykjavíkurborg hafa sent umsagnir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna kæru Búseta. — Morgunblaðið/Eggert
Álfabakki 2 ehf. og Reykjavíkurborg hafa sent úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála umsagnir sínar vegna stjórnsýslukæru Búseta um verkstöðvun við Álfabakka 2 og að byggingarleyfi verði fellt úr gildi

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Álfabakki 2 ehf. og Reykjavíkurborg hafa sent úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála umsagnir sínar vegna stjórnsýslukæru Búseta um verkstöðvun við Álfabakka 2 og að byggingarleyfi verði fellt úr gildi.

Skapi bótaskyldu til leigjanda

Í umsögn Álfabakka 2 ehf. kemur fram að undirbúningur verkefnisins hafi staðið yfir frá árinu 2021 og á tímabilinu hafi umfangsmikil samskipti átt sér stað við sérfræðinga á vegum skipulagsfulltrúa, byggingarfulltrúa og eftir atvikum fulltrúa á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

„Það er kappsmál eigenda Álfabakka 2 ehf. sem og leigutaka, að áformuð starfsemi falli sem best að nánasta nágrenni og umhverfi. Sem stendur eru framkvæmdir á uppbyggingarstigi og því allur lokafrágangur eftir, sem nær bæði til byggingarinnar sjálfrar en einnig frágangs lóðar.“

Einnig kemur fram að stöðvun framkvæmda á þessu stigi myndi valda ófyrirsjáanlegu tjóni fyrir Álfabakka 2 ehf. Fyrir utan beint tjón sem stöðvun framkvæmda leiði af sér vegi þó þyngst sú skuldbinding sem fyrirtækið hefur undirgengist gagnvart leigutaka hússins, Högum hf.

„Stöðvun framkvæmda mun setja þessar skuldbindingar Álfabakka 2 ehf. í uppnám og þannig skapa félaginu sem leigusala bótaskyldu gagnvart leigutaka sínum. Veruleg óþægindi og aukið álag hafa þegar skapast af þeirri umræðu og athygli sem framkvæmdin hefur orðið fyrir að ósekju,“ segir meðal annars í umsögn byggingaraðilans.

Hafa svigrúm til að meta

Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að umsögnin taki einungis til stöðvunarkröfu kæranda og krefst borgin þess að kröfu um stöðvun framkvæmda verði hafnað. Kærufrestur sé liðinn varðandi útgáfu byggingarleyfisins og þann 19. desember 2024 hafi byggingarfulltrúi boðað til stöðuúttektar á mannvirkinu. Niðurstaða þeirrar úttektar hafi verið án athugasemda og engin sjáanleg frávik verið frá aðaluppdráttum.

Skilgreining á miðsvæði samkvæmt skipulagsreglugerð veiti skipulagsyfirvöldum ákveðið svigrúm til mats.

„Með hliðsjón af markmiðum skipulagslaga og lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins hefur sveitar­stjórn mat um það hvernig skipu­lags­áætlunum skuli háttað og landnotkun innan marka sveitar­félagsins.“

Borgin tekur til varna

Í niðurstöðu umsagnarinnar segir að skilyrði fyrir stöðvun framkvæmda séu ekki uppfyllt og ítrekar Reykjavíkurborg kröfu sína um að kröfu um stöðvun framkvæmda verði hafnað.

Undir umsögnina skrifar lögfræðingur á skrifstofu stjórnsýslu og gæða hjá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.