Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Aurora fiskeldi ehf. hefur birt matsáætlun vegna fyrirhugaðrar landeldisstöðvar fyrir lax á Grundartanga og hefur framleiðslugetan verið tvöfölduð frá því sem upphaflega var áformað. Stefnt er að því að ársframleiðslan verði um 28 þúsund tonn en áður hafði verið gert ráð fyrir að framleiðsla landeldisstöðvarinnar yrði allt að 14 þúsund tonn á ári.
Byggt í þremur áföngum
Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu á seinasta ári að fyrirhugað landeldi Aurora í Hvalfirði skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Í matsáætluninni kemur fram að stefnt er að því að framkvæmdir við fyrsta áfanga geti hafist um mitt næsta ár og öllum framkvæmdum verði lokið 2032 en ná á fullri framleiðslu á árinu 2028.
Byggja á stöðina upp í þremur áföngum, sem hver standi yfir í tvö ár. Reiknað er með að 30-40 starfsmenn vinni við stöðina þegar hún er komin í fullan rekstur en á framkvæmdatímanum megi gera ráð fyrir um 30 starfsmönnum við uppbygginguna.
Að sögn Helga Guðmundar Sigurðssonar, eins af forsvarsmönnum Aurora, er áætlað að heildarfjárfestingin gæti orðið á bilinu 25 til 30 milljarðar króna en hún verði tekin í skrefum. Helgi segir að þegar fyrirspurn um matsskyldu var lögð fram hafi verið talið að 14 þúsund tonna stærð yrði undir mörkum varðandi umhverfismat. Þegar ljóst varð að framkvæmdin væri matsskyld hafi þeim verið ráðlagt að fara með umfangsmeira eldi í gegnum umhverfismat enda virðist 28 þús. tonna framleiðslugeta vera hagkvæmasta stærðin. Í upphaflegum áætlunum þegar stefnt var að því að reist yrði 14 þúsund tonna stöð var gert ráð fyrir að notuð yrðu 44 ker á svæðinu en í matsáætluninni fyrir 28 þúsund tonna eldisstöð er reiknað með 80 kerum. Eldið verður á lóð nr. 34 á Grundartanga norðaustan við álver Norðuráls við Katanestjörn. Er stefnt að bæði seiðaeldi og matfiskeldi í stöðinni.
Sjó dælt í stöðina úr Hvalfirði
Vegna skorts á ferskvatni á svæðinu þarf að gera ýmsar ráðstafanir og verður nýtt svonefnd RAS-tækni til endurnýtingar vatns frá vatnsveitu í ferskvatnshluta framleiðslunnar og vatn verður einnig framleitt úr sjó með sérstökum síum sem umbreyta söltu vatni í ferskt vatn. Sjó verður ennfremur dælt beint inn í stöðina úr Hvalfirði og er áætluð vatnsþörf um 27,0 m3/sek. Gert er ráð fyrir um 75% endurnýtingu á sjóvatni.
Helgi segir að einnig sé verið að skoða mjög áhugaverðan möguleika á að nýta glatvarma frá verksmiðjunum á Grundartanga en talið er að um 50 MW af glatvarma fari í dag forgörðum á svæðinu. Unnið er að því að þróa Grundartangasvæðið sem grænan iðngarð. „Það er verið að skoða möguleika á að nýta glatvarma frá álverinu og Elkem sem gæti nýst mjög vel fyrir fiskeldið. Það yrði þá hluti af þessum græna iðngarði að nýta glatvarmann og hita upp sjóinn,“ segir hann.