Sjöfn Þórðardóttir
sjofn@mbl.is
Engir diskar eru eins og sótti Guðbjörg innblástur sinn í umhverfi staðarins við höfnina og gerði matardiskana í samráði við Varun Kukreti, yfirmatreiðslumann hjá The Reykjavik Edition og veitingastaðnum, og samstarfsmann hans.
Þegar Guðbjörg er spurð hvernig það hafi komið til að hún hannaði diskana segir hún það fyrst og fremst vera vegna þess að hún hafi unnið mikið fyrir The Reykjavík Edition frá upphafi og það samstarf hafi gengið afar vel í alla staði.
„Ég hannaði og gerði til að mynda glösin og karöflurnar fyrir öll herbergin á hótelinu. Þessir hlutir eru til sölu á hótelinu og líka í alþjóðlegri vefverslun sem er staðsett í Bandaríkjunum og Frakklandi. Glösin og karöflurnar seljast vel og ég sendi reglulega út dágóðan skammt af þeim til fyrirtækisins,“ segir Guðbjörg og bætir við að verkefnin séu fleiri.
„Ég hef einnig verið að gera blómavasa fyrir Tides og gerði þá áður en hótelið var formlega opnað. Síðan hannaði ég sérstakt matarstell fyrir staðinn sem notað er við barinn innan veitingastaðarins. Það stell er í rústík-stíl og ég gerði nokkrar týpur af hlutum fyrir það.
Miklu betri sýn í verkið
Þegar þurfti að endurnýja matardiska fyrir staðinn í heild sinni báðu yfirkokkurinn, Kukreti, og samstarfsmaður hans mig um að hanna nýtt stell fyrir veitingastaðinn og vildu að það myndi endurspegla höfnina, sjóinn og nafnið á staðnum,“ segir Guðbjörg og bætir við að þess vegna séu bylgjur í diskunum.
Innblásturinn að hönnuninni á diskunum fékk Guðbjörg frá sjónum og reyndi að endurspegla þetta umhverfi og Tides eins og þeir óskuðu eftir. „Ég fór reglulega í göngutúra niður á höfn, með matardisk og heimsótti kokkana, því kokkarnir hafa líka svo mikið um hönnunina á matardiskunum að segja. Um stærðina á diskunum, hallann á brúninni,“ segir Guðbjörg og það sem gaf henni mestu innsýnina í hönnunina var að borða af matardiskunum og sjá hvernig maturinn var framreiddur.
„Þeir buðu okkur dóttur minni í mat, með prufudiskana sem ég var búin að gera, gerðu 17 rétti og framreiddu þá á diskunum eins og þeir ætluðu að gera þegar matarstellið yrði tilbúið. Þá fékk ég svo miklu dýpri sýn í það sem ég var raunverulega að gera. Þá gat ég séð hvað ég þyrfti kannski að laga, þarna fékk ég bæði betri innblástur í verkið og sá hvað mætti betur fara,“ segir Guðbjörg full innlifunar.
Enginn diskur eins
„Ég var að hugsa um að hafa diskana sægræna á litinn en vegna útlits staðarins og stílsins fannst mér það ekki passa. Ég ákvað því að vera með hlutlausan lit, frekar mattan lit, rústík-hvítan, með pínu perlugljáa. Áferðin er ekki eins á öllum diskunum, sumir eru með gljáa en aðrir eru mattir. Ástæða þess er að þeir fara inn í venjulegan keramikofn. Þá skiptir máli hvar þeir eru staðsettir í ofninum eftir því hvernig brennsla er og hvernig áferð þeir fá, sumir fá því meiri gljáa en aðrir og einhverjir verða alveg mattir.
Einnig valdi ég sterkan glerung á diskana, sem skiptir sköpum fyrir notagildið. Þessi glerungur sem er í diskunum hefur reynst mjög vel. Ég hef notað hann með annarri týpu af leir og reynslan hefur verið mjög góð,“ segir Guðbjörg og bætir við að enginn diskur sé eins.
Handrennir hvern og einn disk
„Þetta er handverk, ég handrenni diskana, síðan eru þeir skornir aðeins til og loks beygla ég þá aðeins til þess að ná fram bylgjunni í brúnni,“ segir Guðbjörg og er þá búin að ljóstra upp leyndarmálinu bak við hönnun og gerð matardiskanna sem maturinn á Tides er borinn fram á.
Þegar Guðbjörg var að hanna matardiskana hafði hún að leiðarljósi að diskurinn ætti að ramma inn matinn. Maturinn og diskurinn myndu í raun mynda eina heild.
„Um það snýst hönnunin, ekki að diskurinn sé í aðalhlutverki heldur það sem er á honum. Partur af upplifuninni er að fá matinn framreiddan á fallegum diski. Á stað eins og Tides, þar sem þjónustan er framúrskarandi, maturinn fyrsta flokks, fagmenntaðir og færir kokkar í eldhúsinu, hönnunin vönduð og umhverfið fallegt, þarf líka að hugsa fyrir borðbúnaðinum. Því það er partur af heildarupplifuninni fyrir þá sem sækja staðinn,“ segir Guðbjörg.
Völdu að fagna ófullkomleikanum
Þegar Kukreti er spurður hvers vegna þeir hafi viljað fá Guðbjörgu til að hanna og gera matardiska fyrir staðinn segir hann ástæðuna vera einfalda.
„Aðalástæðan fyrir því að við vildum að Guðbjörg hannaði og skapaði fyrir okkur matardiska á Tides er sú að í núverandi heimi þar sem tæknin, gervigreindin og maskínur sjá um allt og gera allt svo vélrænt verður allt svo fyrirsjáanlegt og vélvæðingin tröllríður orðið allri listsköpun. Því völdum við að fagna ófullkomleikanum og að mannshöndin kæmi að framleiðslunni sjálfri.“
„Matreiðsluheimspeki mín og nálgun að matargerð á rætur sínar að rekja til náttúrunnar og nær yfir frumþættina til að skapa djúp tengsl á milli matar og uppruna hans. Hvert hráefni fær að segja sína sögu, afhjúpað af allsráðandi bragði sem tryggir að náttúrulegur kjarni þess skíni í gegn. Við sækjum innblástur okkar í hafið og jarðveginn og kynnum réttina okkar á handgerðum diskum sem unnir eru úr íslenskum leir, sem skapar óaðfinnanlega samvirkni milli matargerðar og umhverfis hennar. Þessi heimspeki endurspeglar skuldbindingu okkar um áreiðanleika og virðingu fyrir náttúrunni, við föngum fegurð hennar í gegnum hvern einasta matardisk sem borinn er á borð,“ segir Varum og er afar stoltur af samstarfinu við Guðbjörgu.
Listfengi hennar í forgrunni
„Með Guðbjörgu og listfengi hennar í forgrunni, innblásna af hafinu og náttúrunni, berum við fram réttina okkar á íslenskum leirdiskum sem láta hráefnið njóta sín í alla staði. Sérhver diskur sem við notum er vandlega handunninn fyrir okkur, sem gerir hvern og einn disk einstakan og fullan af karakter. Þetta snýst auðvitað um að láta matinn njóta sín á fallegum handunnum diskum, skapa heiðarlega og ógleymanlega matarupplifun sem matargestum finnst sannarlega einstök.“