Guðni Reykdal Magnússon fæddist 28. mars 1935. Hann lést 19. desember 2024.

Útförin fór fram 7. janúar 2024.

Elsku afi, nú eruð þið amma sameinuð aftur eftir stuttan tíma aðskilin. Í minningum okkar eruð þið alltaf saman og það er öryggi í því. Þegar við hugsum um ykkur leiðir það oft hugann í Lyngheiðina, í fallega húsið ykkar. Húsið sem þið byggðuð og bjugguð í nánast alla tíð. Hús sem var fullt af ást ykkar hvors til annars, hlýju og alúð sem þið gáfuð öllu ykkar fólki sem var tíðir og velkomnir gestir á heimili ykkar.

Í æskuminningum okkar situr þú gjarnan annaðhvort í stólnum í stofunni eða í sólbaði í garðinum. Það var oft hægt að biðja þig að kveikja á þætti af „Afa“ eða öðru barnaefni í sjónvarpinu sem þú hafðir tekið upp fyrir okkur á spólu. Við fengum að leika okkur með skemmtilegu reiknivélina sem var í litla herberginu hjá ykkur og lékum okkur í garðinum. Afi var alltaf til í rölt út í afabúð til sælgætiskaupa eða til að leigja vídeóspólu.

Við minnumst líka heimsókna og jólaballa í Mjólkurbúinu og hvað okkur fannst spennandi að sjá alla stóru bílana. Við minnumst góðra utanlandsferða, m.a. til Svíþjóðar, Danmerkur og Kanaríeyja. Okkur þótti vænt um þegar þið, með stuttum fyrirvara, gátuð farið til Möggu í Norður-Svíþjóð og átt með henni góðar stundir þegar dóttirin var á leiðinni of snemma í heiminn.

Við systur höfum allar átt heima erlendis alveg eða að hluta til á síðustu árum. Þá fóru samskiptin við ykkur ömmu að mestu leyti fram í stuttum heimsóknum þegar við vorum á landinu eða símleiðis. Við ræddum meðal annars um hversdagslega hluti eins og börnin, sjómennsku, báta og bíla. Eftir að amma lést talaðir þú um líf ykkar saman og hve lánsöm þið hefðuð verið. Þú varst sannfærður um að þú myndir hitta ömmu þegar þar að kæmi og að þið mynduð sameinast á ný. Það skein af þér þakklæti og sátt yfir lífi þínu og einlæg trú.

Takk fyrir allt, elsku afi.

Margrét Dís, Sigríður Erla og Guðrún Nína.