Sæmundur Guðmundsson frá Kvígindisfirði fæddist 1. ágúst 1930. Hann andaðist 3. janúar 2025.

Sæmundur ólst upp í Kvígindisfirði þar sem foreldrar hans voru með búskap. Þau voru Guðmundur Guðmundsson, f. 2. júlí 1889, d. 1. september 1958 og Ólöf Sigurbjörg Jóhannesdóttir, f. 22. maí 1912, d. 30. apríl 1999. Systkini Sæmundar eru: Einar, f. 27. júlí 1926, d. 26. september 2020, Þórunn f. 13. júlí 1931, d. 17. ágúst 1932, Guðmundur, f. 14. júlí 1934, Jóhannes, f. 25. febrúar 1936, Ingimar, f. 15. janúar 1940, d. 8. mars 2024, Sæunn, f. 25. desember 1941, Guðbjörg, f. 17. ágúst 1945 og Gunnar, f. 30. desember 1948.

Sæmundur á eina dóttur með Sonju Sigrúnu Nikulásdóttir, f. 23. júlí 1940, d. 14. desember 2013, Sigrúnu, f. 9. apríl 1959, gift Steinari Má Gunnsteinssyni, dóttir hennar er Alda Rose.

Sæmundur giftist Erlu Jónsdóttir, f. 31. ágúst 1939, d. 4. nóvember 2023, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Ólöf Bára, f. 26. nóvember 1959, maki Jón Svavarsson. Börn þeirra eru: Sæmundur Þór, Erla Júlía og Árni Snær. 2) Jóhannes Sæmundsson, f. 17. ágúst 1962, maki Pálína Buch. Barn Jóhannesar er Dagbjört Jóhannesdóttir. 3) Sæunn Ósk Sæmundsdóttir, f. 23. júní 1975, maki Eðvarð Hlynur Sveinbjörnsson. Börn þeirra eru Saga Ósk, Anton og Ólöf Soffía. Langafabörn Sæmundar eru þrettán.

Sæmundur fór að heiman ungur til vinnu. Hann tók sér margt fyrir hendur, var í brúarsmíði hjá Vegagerðinni víða um land, stundaði sjómennsku frá Ólafsvík og Siglufirði, hann kom til Reykjavíkur og var meðal annars um tíma hjá Fínpússningagerðinni og fór þaðan inn í byggingariðnaðinn. Í þeim bransa kynntist hann mörgum af félögum sínum. Sæmundur stofnaði Berg sf. byggingafélag og starfaði þar meðfram því að vera í lögreglunni í Kópavogi þar sem hann starfaði til 70 ára aldurs. Hann lét af störfum þar um síðustu aldamót.

Útför Sæmundar fer fram frá Digraneskirkju í dag, 23. janúar 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það var að vori 1998, þegar við Sigrún fórum að rugla saman reytum, að ég kynntist Sæmundi. Hann hætti fljótlega eftir það hjá lögreglunni en hann var ekki að fara að hætta að vinna, öðru nær. Í lok árs 2001 keyptum við Sigrún raðhús í Hamravík sem var fokhelt og það kom sér aldeilis vel að hafa Sæmund í liði. Strax var hann mættur til skrafs, að plana framkvæmdir. Ekki skemmdi fyrir að Hjörtur vinur okkar Sigrúnar kom og hjálpaði mikið, þeir náðu vel saman og urðu miklir vinir. Það fór hins vegar ekki milli mála að Sæmundi leið best fyrir vestan í sveitinni sinni í Kvígindisfirði, þar dundaði hann sér mörg sumrin, byggði stórt og mikið sumarhús og hugsaði líka ásamt bræðrum sínum og fjölskyldum um gamla bæinn, sem öllum í ættinni þykir vænt um. En nú er höfðinginn farinn á vit feðra sinna og hans verður sárt saknað. Minningu hans verður alveg örugglega haldið hátt á lofti fyrir vestan, ég mun gera allt mitt til að svo verði. Takk fyrir allt elsku Sæmundur minn.

Þinn tengdasonur,

Steinar Már
Gunnsteinsson.

Kær tengdafaðir, vinur og bróðir er fallinn frá á nítugasta og fimmta aldursári. Það er stundum sagt að þeir deyi ungir sem guð elskar en það má einnig segja að þeir deyi gamlir sem guð treystir. Sæmundur fæddist í Kvígindisfirði, Múlasveit, og ólst þar upp í stórum systkinahópi en hann var næstelstur en Einar var elstur, f. 27.7. 1926, d. 26.9. 2020; Ingimar, f. 15.1. 1940, d. 8.3. 2024 og eftirlifandi systkin þeirra: Guðbjörg, f. 17.8. 1945, Sæunn, f. 25.12. 1941, Guðmundur, f. 14.7. 1934, Jóhannes, f. 25.2. 1936 og Gunnar, f. 30.12. 1948.

Á uppvaxtarárum vann hann við sveitastörf og síðar fór hann á sjó og vann einnig við vegagerð. Hann var með fyrstu lögreglumönnum í Kópavogi og voru þeir þrír í upphafi og gegndi hann þar störfum fram á eftirlaun. Sæmundur gegndi trúnaðarstörfum bæði innan lögreglufélaga og BSRB í ferðanefnd og skipulagði þar orlofsferðir. Sæmundur var vel liðinn og lausnamiðaður í sínum störfum og þurfti oft að takast á við erfið verkefni og í eitt skiptið var ráðist á hann við skyldustörf með barefli og fékk hann þá alvarlegt höfuðhögg sem tók hann frá störfum um tíma.

Samhliða lögreglustörfunum rak hann byggingafélagið Berg með Eggerti Bergssyni og eru þau mörg húsin í Kópavogi sem þeir byggðu, þykja þau afar traust og vel byggð. Sæmundur byggði nánast öll þau hús sem hann bjó í nema það síðasta þar sem hann keypti sér íbúð í fjölbýli.

Kvígindisfjörður var hans staður, þar vildi hann eyða öllum stundum á sumrin og þar byggði hann sér og börnum sínum glæsilegt sumarhús og það vel að hægt væri að búa þar allt árið ef samgöngur og aðföng væru betri, þar gat hann dundað við smíðar langt fram á tíræðisaldur og hann ók sínum jeppa eins og ekkert væri, fór í sund daglega, verslaði og sá alveg um sig sjálfur og hans yndi var að stunda gömlu dansana á sunnudagskvöldum, þar var meyjunum sveiflað eins og enginn væri morgundagurinn og þegar annað hnéð fór að gefa sig þá kostaði hann nýjan hnjálið á einkastofu, svo hann þyrfti ekki að bíða í mörg ár eftir að komast að í þá aðgerð, því hann vildi komast í dansinn sem fyrst.

Sæmundur gekk í Frímúrararegluna 1982 og þar bar fundum okkar saman, kvöld eitt 1984 sátum við nokkrir félagar yfir kaffibolla eftir fund og vorum að ræða um komandi systrakvöld og var ég þá að vandræðast með dansfélaga en þá sagði hann að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa, af því að hann var búinn að bjóða dóttur sinni með og hún væri ein og ætti 25 ára afmæli um þær mundir. Svo líður að systrakvöldinu og viti menn, kemur þar þessi glæsilega stúlka og höfum við dansað í gegnum lífið saman í blíðu og stríðu.

Sæmundur gegndi ýmsum trúnaðarstörfum innan reglunnar og lengst af við minjasafn reglunnar eða fram á nítugasta og þriðja aldursár, hann var sæmdur heiðursmerki stúkunnar og síðast fékk hann 40 ára starfsaldursmerki sem hann var mjög stoltur af.

Börn Sæmundar og öll fjölskyldan sér á bak traustum, gjafmildum og góðum föður, afa, langafa og tengdaföður, hans verður saknað og merki hans verður haldið hátt á lofti. Hvíl í friði á þínu ferðalagi til austursins eilífa. Þinn bróðir og tengdasonur

Jón Svavarsson