Virkjunarmál eiga að ráðast á málefnalegum forsendum, ekki gloppum í lögum

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um að fellt skuli úr gildi virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá er komin upp furðuleg staða.

Samkvæmt dómnum hafði Umhverfisstofnun ekki heimild til að veita undanþágu til virkjunarinnar.

Stofnunin hefur heimild til að veita undanþágur sem heimili breytingar á svokölluðu vatnshloti – hér bætist enn í orðaforðann – snúist þær um umhverfismarkmið, „breytingar, svo sem vegna mengunar eða í tengslum við loftslagsbreytingar, á vatnsgæðum, vistfræðilegum, vatnsformfræðilegum eða efna- og eðlisefnafræðilegum eiginleikum yfirborðsvatnshlots eða á hæð grunnvatnshlots“, svo vitnað sé í lög.

Þarna er hvergi talað um virkjanir og því hafi Umhverfisstofnun enga heimild til að láta þetta ákvæði ná til virkjana.

Ekki nóg með það. Svo virðist sem engin stofnun hafi leyfi til að veita slíka heimild og standist það hefur löggjafinn í raun útilokað virkjanir um ókomna tíð.

Vitaskuld var það ekki ætlunin með lagasetningunni. Svo virðist sem löggjafinn hafi einfaldlega ekki gert sér grein fyrir því að löggfjöfin gæti haft þessar afleiðingar.

Bent hafði verið á að lögin væru óljós og á því þyrfti að ráða bót. Umhverfisstofnun benti umhverfis- og auðlindaráðherra á það árið 2019 og ítrekaði í fyrra. Þetta hefur legið í ráðuneytinu í tíð bæði Guðmundar Inga Guðbrandssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem gefur til kynna að ekki hafi málið verið talið brýnt, en vitaskuld getur einnig verið að menn hafi einfaldlega ekki áttað sig á að óskýrleiki laganna gæti leitt til þessarar afdrifaríku niðurstöðu.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, áttar sig hins vegar greinilega á að við þetta verður ekki búið. Hann kvaðst í samtali við Morgunblaðið skjótt eftir þingsetningu ætla að leggja fram frumvörp til að greiða fyrir framkvæmdum við Hvammsvirkjun og einfalda regluverk í orkumálum.

„Þá er horft til breytingar á lögum um stjórn vatnamála til frambúðar, til þess að skýra betur þessi atriði sem reyndi á í dóminum og bent var á í minnisblöðum í tíð forvera minna,“ sagði ráðherrann í viðtalinu.

Dómurinn um Hvammsvirkjun var á fyrsta dómstigi og Landsvirkjun hefur lýst yfir að honum verði áfrýjað og óskar þess að málið fari beint til Hæstaréttar.

Það er hins vegar ljóst að breyta þarf lögunum til að taka af öll tvímæli um heimild stofnana til að veita undanþágur og heimildir í virkjanamálum auk þess sem einföldun regluverks um orkuöflun er löngu tímabær.

Segja má að svo sé komið að pattstaða ríki í orkumálum. Hægt sé að tefja allar framkvæmdir endalaust, hvort sem það lýtur að öflun eða flutningi orku. Dómur héraðsdóms er bara eitt dæmi af mörgum. Fyrir vikið er farið að skammta orku til fyrirtækja og flutningskerfið er orðið úr sér gengið eins og kom í ljós þegar sló út á Grundartanga og stórtjón varð um allt Norðurland.

Farið er að tala um miklar hækkanir á orkuverði samkvæmt lögmálunum um framboð og eftirspurn. Það er heldur harkalegt þegar skorturinn á framboði helgast af fyrirhyggjuleysi stjórnvalda og er því algerlega heimatilbúinn.

Fram hefur komið krafa um að brugðist verði við dómi héraðsdóms með bráðabirgðalögum sem er skiljanlegt því að staðan í orkumálum er afleit. Í Morgunblaðinu á þriðjudag bendir Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, hins vegar á að þar sem ríkisstjórnin hafi gefið út yfirlýsingar um að hún ætli að bregðast við sjái hann ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram með framkvæmdirnar, ekki síst þar sem ekki komi að því fyrr en á næsta ári að þær hafi áhrif á árfarveginn. Þá er stutt í þingsetningu og ekkert því til fyrirstöðu að þingið bretti upp ermar og klári málið hratt.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun er bent á að standist túlkun laganna samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur gætu þau staðið í vegi fyrir öðrum stærri framkvæmdum á borð við brúargerð, flóðvarnargarða og dýpkun hafna hafi þær áhrif á vatnshlot.

(Hér verður eiginlega að skjóta inn skýringu Umhverfisstofnunar á orðinu, lesendum til nánari glöggvunar, sem jafnframt skulu beðnir velvirðingar á vaðlinum: „Vatnshlot eru afmarkaðar stjórnsýslueiningar sem fá tiltekin raðnúmer innan stjórnar vatnamála. Til dæmis getur eitt stöðuvatn verið eitt vatnshlot, eða tiltekinn hluti straumvatns.“)

Með dómi héraðsdóms er komin upp óboðleg staða. Ákvarðanir á borð við það hvort og hvar eigi að virkja eiga að ráðast á málefnalegum forsendum, ekki standa og falla með tæknilegum atriðum eða gloppum í lögum.