Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Búið er að binda enda á allar aðgerðir alríkisins til þess að auka hlut minnihlutahópa í alríkisstofnunum með svonefndri jákvæðri mismunun. Þetta var staðfest í gær, en Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði forsetatilskipun þess efnis á mánudagskvöldið, fyrsta dag sinn í embætti. Sagði Trump í yfirlýsingu um málið að slík mismunun, sem gengur nú undir skammstöfuninni DEI (e. Diversity, Equity and Inclusion) vestanhafs, væri siðlaus.
Karoline Leavitt, blaðafulltrúi Hvíta hússins, sagði í yfirlýsingu um ákvörðunina í gær að með henni væri verið að gera Bandaríkin aftur að samfélagi þar sem fólk væri metið eftir verðleikum sínum frekar en húðlit.
Þeir starfsmenn alríkisins sem unnið hafa við ráðningar á grundvelli DEI voru í gær sendir í launað leyfi, og verður þeim annaðhvort sagt upp störfum eða þeir færðir til í starfi fyrir lok þessa mánaðar.
Þá verður öllum verktökum sem tengjast DEI-verkefnum sagt upp, á sama tíma og öllum vefsíðum sem vísa í DEI-verkefni verður lokað.
Trump sagði í kosningabaráttu sinni að jákvæð mismunun og DEI beindist aðallega gegn hvítu fólki og karlmönnum þá sérstaklega, og hét hann því að binda enda á allt sem tengdist DEI.
Koma flóttafólks stöðvuð
Þá var staðfest í gær að Bandaríkin hefðu hætt við ferðalög flóttafólks, sem búið var að fá leyfi til þess að setjast að í Bandaríkjunum fyrir 27. janúar næstkomandi.
Trump undirritaði á mánudaginn forsetatilskipun um að stöðva flóttamannaverkefni Bandaríkjastjórnar frá og með mánudeginum 27. janúar, en ekki var vitað hvort tilskipunin næði einnig til þeirra flóttamanna sem þegar höfðu fengið samþykki fyrir landvist í Bandaríkjunum.
Voru þúsundir flóttamanna sagðar strandaglópar vegna ákvörðunarinnar í gær, en þar á meðal eru um 1.600 manns frá Afganistan, sem höfðu fengið leyfi til þess að koma til Bandaríkjanna eftir að landið féll í hendur talibana 2021.