Viðamikið Yfir sex hundruð leikarar tóku þátt í verkefninu en Helga hannaði búninga á þá alla.
Viðamikið Yfir sex hundruð leikarar tóku þátt í verkefninu en Helga hannaði búninga á þá alla. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helga Ingunn Stefánsdóttir, búninga- og leikmyndahöfundur, hannaði búningana í leiknu þáttunum um Vigdísi Finnbogadóttur en í þeim eru rúmlega 100 hlutverk og yfir 500 aukaleikarar tóku þátt í gerð þeirra

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Helga Ingunn Stefánsdóttir, búninga- og leikmyndahöfundur, hannaði búningana í leiknu þáttunum um Vigdísi Finnbogadóttur en í þeim eru rúmlega 100 hlutverk og yfir 500 aukaleikarar tóku þátt í gerð þeirra. Þættirnir hafa hlotið mikið lof en síðasti vetur er einn sá erilsamasti sem Helga man eftir. Verkefnið skiptir hana miklu máli og hún segir það mikið gleðiefni að viðtökurnar séu jafn góðar og raun ber vitni.

Helga smitaðist ung af leikhúsbakteríunni sem hún segir ólæknandi. Hún lærði leikmynda- og búningahönnun í Róm á Ítalíu og hefur alla tíð starfað bæði við leikhús og kvikmyndir sem þótti óvenjulegt þegar hún var að byrja. Sem lítil stelpa saumaði hún iðulega á sig eða smíðaði húsgögn.

Hefur þér alltaf liðið eins og þú sért á réttum stað?

„Já, alltaf. Hef ekki efast eitt augnablik.“

Hvenær ert þú fyrst fengin í verkefnið um Vigdísi?

„Ég ætla að bakka aðeins. Ég er fengin til að gera búningana þegar það er verið að gera stikluna fyrir tíu árum. Þá var annar leikstjóri. Það er ekki alltaf sem maður heldur verkefninu en í þetta skiptið gerði ég það,“ segir Helga.

„En haustið 2023, þegar það var búið að ná inn fjármagni fyrir verkefnið, kom ég inn.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir?

„Ég byrja á því að skoða heimildir, myndir og svoleiðis. Ég fer rosalega mikið í að skoða hverja senu og svo þarf að átta sig á því hvað handritið er margir sögudagar því það skiptir mjög miklu máli,“ segir hún.

Sögudagur segir til um það á hvað mörgum dögum handritið gerist, hve oft þarf að hafa búningaskipti og þess háttar. „Svo fer ég í það að áætla hvað það eru margir aukaleikarar, fyrst skýtur maður út í loftið og fer að reikna hvað hlutirnir muni kosta, svona miðað við reynslu og fyrri störf. Þá gerir maður sér grein fyrir umfangi verkefnisins, fundar með leikstjórum, framleiðendum og ákvarðar hvaða leið og nálgun eigi að fara eftir. Það er auðvitað mismunandi eftir leikstjórum og framleiðendum. Þegar við erum komin niður á aðferðafræðina hefst maður handa.“

Helga segir frá því að hún hafi verið við störf í öðru verkefni þegar Vigdísarverkefnið fór af stað. „Ég fékk að ráða aðstoðarkonu í það verkefni, gaf hluta af laununum mínum til þess að geta byrjað fyrr í þessu. Þá þurfti ég aðeins að púsla,“ segir hún.

Var þetta mikilvægt verkefni fyrir þér?

„Mig langaði svo að gera þetta. Það er ekki oft á lífsleiðinni sem svona verkefni koma. Það er bara þannig.“

Heimsótti búningaleigu í Madríd

Í þessu verkefni var ekki fjármagn til að sauma mikið af fötum heldur varð Helga að fara aðrar leiðir. „Það er takmarkað sem hægt er að eyða í ákveðnar deildir og þar af leiðandi er farin sú leið að það er ekki verið að sauma nema einstaka flík.“

Hvað gerir búningahönnuður þá?

„Þá get ég ekki teiknað hlutina nema takmarkað og ég verð að reiða mig á það sem ég finn. Ég veit nokkuð þokkalega hvað er til á Íslandi þannig að það var nauðsynlegt að fara til útlanda og fylla upp í það sem upp á vantaði. Svo þegar ég var að tína til búningana vissi ég aðeins um hluta af leikurunum,“ svarar hún.

„Ég vissi ekki hvort ég væri að leita fyrir feitan, mjóan, háan eða lágan. Það er rosalega erfitt að gera þetta. En ég bað þau vinsamlegast um, eða ég orðaði það þannig, að hafa leikara og aukaleikara ekki í miklum fallþunga. Þá þarf ég að finna enn þá meira af búningum ef það er fólk í stórum stærðum. Af því að þetta er períóðuklæðnaður og við höfum verið að stækka og breikka með tímanum.“

Helga fór í kjölfarið á búningaleigu í Madríd. „Ég gat í raun og veru ekki leigt hvað sem er og hvaða magn sem er. Það þurfti að vera takmarkað því maður hefur ekki fjármagn. En þá fór ég að negla niður liti fyrir ákveðna karaktera og mikilvægt var að heimsækja þetta stóra búningasafn til að hafa fleiri valmöguleika. Þættirnir gerast á mörgum árum, frá 1948 til 1980,“ segir hún.

Að mörgu er að hyggja þegar hanna á búninga og útlit á yfir 600 leikara. „Ég er með hvern einasta, niður og upp úr. Skór, buxur og allt upp úr og niður úr. Þú veist ekki hvað er skotið og maður tekur þá enga sénsa.“

Hvernig er ferlið?

„Ég bið um mynd af öllum leikurum og málin líka. Fólk mælir sig heima með reglustikum, böndum og alls konar því það eru ekki allir sem eiga málbönd. Svo undirbý ég kannski þrjá valmöguleika fyrir viðkomandi áður en hann mætir og þá er ég búin að flýta mikið fyrir því þetta er svo mikið magn af búningum,“ svarar hún.

„Nú þegar það er skrefamælir í úrinu og í símanum hef ég tekið eftir því að ég er stundum að labba tugi kílómetra innanhúss, dag eftir dag, ýkjulaust. Bara með því að labba gangana, sækja einar buxur, fara með til leikara og þannig fram og til baka,“ segir hún og hlær.

Helga finnur til föt á leikarana, þeir koma í mátun og hún myndar þá. „Ég sendi svo út opið skjal til leikstjóra svo að þeir viti fyrir fram hverju von er á. Það verður enginn hissa. Þetta er mjög mikilvægt, að fá alla aukaleikarana í mátun fyrir fram, því í öllum hamaganginum þegar við mætum á sett eru kannski 80 aukaleikarar. Það þarf þrjá tíma til að koma öllum í búning og þetta er rosalegt púsluspil. Það er vel passað upp á allar tímasetningar, aðstoðarleikstjórarnir eru á klukkunni og allir verða að vera tilbúnir. Þá verða buxurnar að passa og ekkert ráðrúm til að fá fólk til að máta.“

Vigdís mjög smekkleg kona

Hvað með Vigdísi sjálfa, hvað einkenndi fatastíl hennar?

„Hún var mjög smekkleg kona og það var auðvelt fyrir hana að klæða sig smekklega. Það var auðvitað nauðsynlegt að klæða hana í eitthvað sem er henni samboðið.“

Fenguð þið föt frá henni lánuð?

„Það var dásamlegt að við fengum að fara til hennar og skoða fötin sem hún á enn þá. Að sjálfsögðu er flest af því sem hún á frá forsetatíð hennar en þættirnir gerast áður en hún verður forseti. Svo það var ekki margt sem ég fékk lánað en það voru nokkrir hlutir og ég var ofboðslega þakklát fyrir að fá þetta lánað. Meðal annars prjónadressið fræga sem er komið á safn núna,“ svarar hún.

„Það þurfti að taka það undan glerkassanum með sogklukkum til að fá það lánað. Það var sótt samdægurs, farið í það og strax keyrt aftur til baka.“

Hún segir það hafa hjálpað að heimsækja Vigdísi. „Það var gott fyrir mig að sjá að fötin hennar voru litríkari en ég hafði í minningunni. Hún er svo mikið hvít en ég bjó til ákveðna þróun. Það voru ákveðnir litir sem ég fór inn í og það er alltaf mjög erfitt, maður gerir sjálfum sér erfitt fyrir með því að gera þetta svona. Það voru ákveðnir litir sem komu til greina fyrir ákveðin tímabil í lífi hennar og þá þarf ég að útiloka margt ef ég sé fallegan kjól í rauðum lit en hann passar ekki inn, af því hann er ekki í réttum lit,“ segir hún og hlær örlítið.

Mikil hugsun liggur að baki búningahönnuninni. „Það er hægt að stúdera það eftir á hvernig ég set litina inn. Eins og hvítan, grænan og svo kemur rautt inn í Frakklandi. Svo fer rauði út og meira og meira hvítt kemur inn. Blár kemur inn í leikhússtjóratímabilið í Iðnó en fer svo aftur yfir í ljósu og hvítu litina. Svo endar hún náttúrulega í hvítu,“ segir Helga. „Glöggir sjá að það eru ákveðnir karakterar í ákveðnum litum. Það er sérstaklega mikilvægt af því það er verið að skipta um leikara, til dæmis yngri Vigdísi og eldri Vigdísi, og við þurfum að sjá það sjónrænt að þetta sé sama manneskjan. Þetta er séð með augum Vigdísar, það eru margir karakterar og margt fólk sem hún hittir. Þá eru senurnar frekar stuttar og gott að teikna þetta upp í litum. Maður áttar sig á að þetta er sama vinkonan því hún er í sömu litum. Það hjálpar undirmeðvitundinni.“

Er þetta yfirleitt gert svona?

„Þetta er mín listræna sýn á verkefnið.“

Fötin segja margt um manneskjuna og það er misjafnt hvort fólk hugsar út í leikmynd og búninga þegar það fer í leikhús eða horfir á bíómyndir. Finnst þér umræðan um mikilvægi búninga og leikmyndar gleymast?

„Já, já, já, já. En það er líka einhvern veginn þannig að þetta er svo sjálfgefið. Fólki finnst að auðvitað hafi karakter átt að vera svona, því að fólk sá hann svona og hann átti ekki að vera öðruvísi. Þá þýðir það að þetta renni mjúkt inn í vitund fólks og engar spurningar standa eftir. Yfirleitt er það þannig að ef eitthvað er undarlegt og skrýtið þá tekur fólk meira eftir því,“ segir hún. „Því sem er áferðarfallegt og fínt er minna tekið eftir.“

Fer meiri vinna í því fram?

„Já, miklu meiri.“

Af hverju skipta búningar máli?

„Það er persónusköpunin. Þú getur séð hver manneskjan er án þess að segja orð, þú veist hvað manneskjan stendur fyrir. Þú sérð muninn á forstjóra eða bónda sem dæmi og þú klæðir þá ekki eins.“

En hvað þér finnst um klæðaburð fólks í dag?

„Nú verður þú hissa en ég hef engan áhuga á tísku. Ég hef miklu meiri áhuga á hvernig fólk tjáir sig með klæðaburði og það finnst mér rosalega skemmtilegt. Ég hrífst af því hvernig sumir vilja falla inn í fjöldann en aðrir skera sig úr. Sumir gera sig samboðna öðrum, stuða ekki og vilja ekki fanga athyglina. Það er það sem ég horfi á. Ég er ekki að horfa á í hvaða fötum þeir eru, hvort þetta sé þetta merki eða hitt sem sumir eru mjög uppteknir af.“

Aldrei unnið eins mikið

Helgu finnst jafn gaman að sitja á kaffihúsum í útlöndum og horfa á fólk og að fylgjast með fólki hér á landi. „En mitt ráð til fólks væri að finna sinn stíl. Finndu hvað klæðir þig best. Og síðast en ekki síst, kauptu færri flíkur en í meiri gæðum og notaðu þær eins lengi og þig langar til.“

Hvað er fram undan hjá þér?

„Það er alltaf eitthvað í deiglunni en ég er í öðrum verkefnum núna, ekki í leik- eða kvikmyndum. Ég ákvað að taka aðeins léttari vetur en fyrrivetur. Ég hef aldrei unnið eins mikið á ævi minni. Ég gerði tíu þætti fyrir sjónvarp og eitt verk í leikhúsi, það var stór skammtur. Þetta eru ekki eðlilegar vinnustundir, rosalega langir dagar með skemmtilegu fólki. En þess vegna er þetta svona gefandi og auðgandi verkefni,“ segir hún. „Samstarfið í þessu verkefni var virkilega gefandi en svo má ekki gleyma að ég er með frábærar aðstoðarkonur, þær Rebekku Jónsdóttur, Geirþrúði Einarsdóttur og Sigurbjörgu Stefánsdóttur. Við vorum mjög undirmannaðar en þær voru ofboðslega duglegar og gáfu mikið af sér. Virkilega góður hópur.“

Er þetta eitt stærsta verkefnið á ferli þínum?

„Mér finnst erfitt að setja mælistiku á það en ég held alltaf mest með nýjasta verkefninu. En ég segi jú, ætli þetta sé ekki það stærsta. Og virkilega dýrmætt fyrir mig.“

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir