Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Jón Jónsson lögmaður ritaði athyglisverða grein í Bændablaðið þar sem hann bendir á að til sé lagatexti varðandi eignarhald eyja og skerja. Eftir endurskoðaðar kröfur ríkisins í eyjar og sker, eða svæði 12, ná kröfur ríkisins enn til fjölmargra eyja.
Telur Jón ekki rétt að ganga út frá því að þær geti verið eigendalausar og vísar þar til texta í lögbókunum Grágás og Jónsbók. Reglan leiði til þess að munur sé á eyjum og skerjum annars vegar og hins vegar svæðum á meginlandi Íslands sem þjóðlendumál hafa varðað hingað til. „Ég tel að nálgun ríkisins hafi verið að varpa aðferðafræði þjóðlendumála yfir á eyjar og sker án þess að fara ítarlega yfir hvort sérstök lagasjónarmið eigi við. Ég geri ráð fyrir að fleiri lögmenn séu að skoða þetta,“ segir Jón þegar Morgunblaðið spyr hann út í málið en frestur landeigenda til að gera kröfur í eyjar og sker rennur út í lok mánaðarins.
„Mér fannst rétt að setja þetta fram til að vekja athygli landeigenda og lögmanna landeigenda á þessu eftir að hafa skoðað hvaða sérstöku réttarheimildir gætu átt við eignarréttarlega stöðu eyja og skerja. Þá kom í ljós að ákvæði er til staðar í Grágás sem fjallar um þetta og er svo tekið upp í Jónsbók árið 1281. Ákvæðið er hluti gildandi laga,“ segir Jón en tekur það fram að setningin sé ekki áberandi í texta þessara gömlu rita.
Setningin blasir ekki við
„Það slær ef til vill ryki í augu fólks að þessi eina setning er hluti af stórri málsgrein og engin greinaskil þar sem þetta birtist. Fyrir vikið hverfur þetta inni í textanum undir lok 2. kafla rekabálks Jónsbókar. Svo kann að vera að einhverjir hafi talið að þessi málsliður fjallaði um reka sem fjallað er um á undan,“ útskýrir Jón en þar stendur: „Svo er og mælt ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns, og á sá maður það og reka þann er fylgir er meginland á næst, nema kaupum sé á annan veg komið.“
Þegar skoðaður er samanburður á reglunni, þegar hún er færð úr Grágás yfir í Jónsbók, segir Jón að líta megi á regluna sem almenna og hún segi að eyjar og sker séu eign einhvers. Annaðhvort vegna þess að það liggi fyrir landi eða hafi verið selt öðrum. „Reglan útilokar að eyjar og sker séu eigendalaus og þjóðlendumálin snúast um að finna það sem sé eigendalaust.
Við skoðun á dómum og réttarframkvæmd má sjá dóma frá 16. og fram á 19. öld sem fjalla um eyjar og sker sem eru a.m.k. tvo til þrjá kílómetra frá landi. Eðlilegast er væntanlega að miða við það sem sést frá landi en reglan er ekki háð fjarlægð heldur að túlkað verði hvað sé fyrir landi.“