Söngvaskáld Sveitatónlist og þjóðlög í bland, segir Soffía Björg hér í viðtalinu, spurð um tónlistarstefnu sína.
Söngvaskáld Sveitatónlist og þjóðlög í bland, segir Soffía Björg hér í viðtalinu, spurð um tónlistarstefnu sína. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Og brosandi Borgfirðingar með gleði í hjarta sungu með svo allt fór á flug.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ég leyfi tónlistinni að fljóta nánast óþvingað, því slíkt leiðir gjarnan eitthvað gott og skemmtilegt af sér,“ segir Soffía Björg Óðinsdóttir, söngvaskáld í Borgarfirði. Sú gerði stormandi lukku þegar hún söng og spilaði síðasta föstudagskvöld í Vikunni, sjónvarpsþætti Gísla Marteins. Daginn eftir var hún svo komin á heimaslóðir sínar og skemmti þar með Jakobi Frímanni Magnússyni og fleiri góðum sem voru með samkomu í félagsheimilinu Brún í Bæjarsveit í Borgarfirðinum.

Grín um miðaldra fólk

Slagarinn sem Soffía hefur víða sungið að undanförnu – svo sem í sjónvarpinu – og gæti orðið einkennislag hennar, er Draumur að fara í bæinn. Lagið er danskt að uppruna en fyrir 70 árum var saminn að því texinn Það er draumur að vera með dáta. Þar sagði frá íslensku stúlkunni sem undi sér vel og fann ástina í faðmi hermanns, en slíkir frá Bretlandi og síðar Bandaríkjunum voru á tímum síðara stríðs og í kjölfar þess hér á landi svo skipti tugum þúsunda. „Og finna hve ljúft þeir láta / þá líður tíminn fljótt,“ segir í textanum sem Soffía Karlsdóttir söng – en barnabarn hennar er Soffía Björg sem hér er í viðtali.

„Ég spilaði í Hernámssetrinu síðastliðið sumar og var þar beðin um að flytja lagið sem amma söng forðum um drauminn og dátann. Svo þegar heim var komið að æfa lagið þá datt mér þessi nýi texti í hug og frumflutti hann svo á tónleikunum. Þessi texti er samtímagrín um miðaldra fólk í leit að ástinni með öllu sem því fylgir,“ segir Soffía Björg sem stendur á fertugu.

Sjálflærð á gítar og píanó

Tónlistarnám hóf Soffía fyrir 20 árum, hún byrjaði í söngnámi og nam síðar tónsmíðar í Listaháskóla Íslands. Svo er hún sjálflærð á gítar og píanó. Í músíkstússi sínu hefur Soffía gjarnan verið í samstarfi við tónlistarmanninn Pétur Ben sem hefur kennt henni sitthvað í lagasmíðum og textagerð. Hann er upptökustjóri á næstu plötu Soffíu sem væntanleg er í vor, þeirri þriðju sem hún sendir frá sér. Sú plata eins og hinar tvær fyrri er gefin út á steymisveitum og hægt að kaupa lög af þeim þar.

„Samstarf okkar Péturs Ben hefur verið farsælt. Einnig hef ég verið að vinna mikið með Fríðu Dís Guðmundsdóttir og Magnúsi Trygvasyni Eliassen. Þeim á ég að þakka að geta í dag helgað mig tónlistinni; það er lagasmíðum, útgáfu og að koma fram við ýmis tækifæri. Nú fyrir jólin var talsvert að gera í sambandi við jólahlaðborð og tónleikar á aðventunni í Borgarneskirkju heppnuðust frábærlega,“ segir Soffía.

Músík sína skilgreinir Soffía sem blöndu af sveita- og þjóðlagatónlist. Slíkar merkingar séu þó að sínu mati ekki aðalatriði: tónlistin eigi að standa ein og sér og fyrir sínu. Best sé að vera sem fæstu bundin og tækifærin grípa greitt. Tónlist við barnaleikritið Tindátarnir sem Kómedíuleikhúsið sýndi nýlega hafi til dæmis verið afar skemmtilegt og lærdómsríkt verkefni sem hafi gefið sér mikið.

Atgervi á Magnúsarvöku

Um síðustu helgi var í Bæjarsveit í Borgarfirði efnt til tónlistardagskrár til minningar um Magnús Guðmundsson (1925-1991) þar sem Stuðmaðurinn Jakob Frímann var potturinn og pannan í samkomuhaldinu. Þar kallaði Jakob til, í dagskrá um föður sinn, ágæta tónlistarmenn úr Borgarfjarðarhéraði og ekki vantaði atgervið þar. Í þessum flokki var Soffía sem söng á sviði meðal annars smellinn sinn nýja og raunar margt fleira. Og brosandi Borgfirðingar með gleði í hjarta sungu með svo allt fór á flug. Já, það er draumur að fara í bæinn …

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson