Hrefna Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 19. júní 1946. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 15. janúar 2025.

Foreldrar hennar eru Guðbjörg Guðsteinsdóttir, húsfreyja á Nesjavöllum, f. 20. maí 1909, d. 5. ágúst 2001, og Jón Matthías Sigurðsson, bóndi á Nesjavöllum, f. 26. júlí 1909, d. 5. mars 1976.

Systkini Hrefnu eru Axel, f. 1930, d. 2010, Svava, f. 1932, d. 2017, Erla, f. 1940, d. 2023, Sigurður, f. 1943, Grétar, f. 1945, d. 1959, Ómar Gaukur, f. 1950, og Guðrún Birna, f. 1953, d. 2018.

Hrefna ólst upp á Nesjavöllum í Grafningi og gekk í barna- og gagnfræðaskólann á Ljósafossi í sömu sveit og var þar á heimavist. Hrefna hóf sambúð 1963 með Jóni Hólmari Leóssyni iðnrekanda. Foreldrar hans voru Herdís Rannveig Jónsdóttir, frá Nautabúi í Lýtingsstaðahreppi, f. 3. ágúst 1909, d. 6. mars 1996, og Leó Antoníus Árnason, frá Víkum á Skaga, f. 27. júní 1912, d. 11. febrúar 1995. Sonur þeirra er Grétar, framkvæmdastjóri, f. 22. júní 1963, eiginkona hans er Guðrún Jóna Sæmundsdóttir, skrifstofumaður, f. 3. júlí 1960. Sonur þeirra er Jón Ómar, f. 31. mars 1995, unnusta hans er Tamara Zedelashvili, f. 29. ágúst 1997. Sonur Guðrúnar Jónu og stjúpsonur Grétars er Sigurður Jón Sigurðsson, f. 16. september 1984, d. 18. janúar 2016.

Hrefna vann hin ýmsu störf frá unga aldri, þ. á m. í Tryggvaskála á Selfossi, eldhússtörf í Lundi í Kópavogi, gæslustörf á Sólheimum í Grímsnesi, fiskvinnslustörf í Garði á Garðskaga, við matvælaframleiðslu í Álasundi í Noregi og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum. Árið 1998 var stofnað fjölskyldufyrirtæki þar sem Hrefna starfaði til ársins 2014 þegar hún hætti sökum veikinda.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 23. janúar 2025, klukkan 15.

Við minnumst elsku mömmu, tengdamömmu og ömmu okkar með kærleik og söknuði.

Hrefna ólst upp á Nesjavöllum hjá foreldrum sínum, hún byrjaði ung að taka til hendinni í sveitinni, var mikill dýravinur sem elskaði vorið með tilheyrandi vorverkum og litlu lömbunum sem hún gat endalaust dáðst að. Þegar svo til húsverka kom, þá var okkar kona í essinu sínu, hún naut sín í miklum gestagangi bæði ættingja og sveitunga, hún var smástelpa þegar hún stóð uppi á stól og vaskaði upp, og það þurfti sko ekki að verka eftir hana því enginn var vandvirkari. Hún vann alltaf öll sín verk af einstakri nákvæmni og eftirtektarsemi. Hún gerði mjög góðan mat og fannst gaman að baka og þá helst súkkulaðikökur sem enginn gerði betur.

Hrefna var 15 ára þegar hún vann í Tryggvaskála á Selfossi, þar leigði hún herbergi með systur sinni, því þótt ekki sé langt á milli Nesjavalla og Selfoss gat Grafningurinn verið ófær hluta vetrar. Á Selfossi bankaði ástin upp á, þar kynntist hún Nonna sínum eða Jóni, eftir því hvort hún var að siða hann til eða ekki. Saman héldu þau út í lífið kornung og ástfangin, og saman tókust þau á við allskonar áskoranir og verkefni, sorgir og gleði. Hrefna var nýlega orðin 17 ára þegar einkasonurinn fæddist og fullkomnaði líf foreldra sinna.

Hrefna og Jón bjuggu og störfuðu í Vestmannaeyjum í mörg ár, þar kom tengdadóttirin í spilið og flutti með syninum til Reykjavíkur, þegar svo ömmustrákurinn fæddist fluttu þau líka í bæinn og hafa búið á sama staðnum allar götur síðan. Það er ekki ofsögum sagt að Hrefna sá ekki sólina fyrir ömmugullinu sínu og dásamaði hann öllum stundum, það komst enginn með tærnar þar sem hann hafði hælana, nema þá helst pabbi hans.

Hrefna var mikill fagurkeri, hafði næmt auga fyrir fallegum hlutum og hafði smiðsauga, allt þurfti að vera vel gert og nákvæmt, hún kærði sig ekki um neitt fúsk og lét heyra í sér ef svo var. Hún átti mjög fallegan garð með ýmiskonar trjágróðri, rósum og runnum, hún gat endalaust nostrað og dúllast í garðinum, enda uppskar hún sannarlega þegar allt óx og blómstraði svo fallega að eftir var tekið. Í minningunni var ljúft að sitja í kaffispjalli í garðinum með blómaangan í loftinu á góðum sumardegi

Hrefna og Jón bjuggu og störfuðu í Noregi í eitt ár, þar kunni Hrefna einkar vel við sig, og norska menningin var að hennar skapi. En í Reykjavík stofnuðu feðgarnir fyrirtæki sem öll fjölskyldan kom að og starfaði við. Hrefna sá um ræstingarnar í mörg ár og vandaði vel til verka eins og alltaf, mörgum sinnum var haft á orði við okkur, hvernig í ósköpunum við færum að því að hafa allt svona hreint og fínt, það var algjörlega Hrefnu að þakka.

Síðustu tvö árin voru Hrefnu erfið, hún barðist hetjulega við illvígan vásgest sem krabbameinið er og varð undan að láta.

Við kveðjum í dag eftir samfylgd um lífsins veg. Blessuð sé minning hennar.

Þótt móðir mín
sé nú aðeins minningin ein
mun ég ávallt minnast hennar
með glöðu geði
og dýpstu virðingu,
hugheilu þakklæti
og hjartans hlýju,
fyrir allt og allt.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Þín að eilífu,

Grétar, Guðrún Jóna og Jón Ómar.

Látin er um aldur fram kær systir, Hrefna Jónsdóttir, eftir erfið veikindi sem taka svo marga á besta aldri.

Hrefna ólst upp á Nesjavöllum í Grafningi í faðmi foreldra sinna og glaðværs systkinahóps sem og vina og ættingja sem oft komu þar á bæ. Þar undi hún sér afar vel í fögru umhverfi með fjallasýn til tignarlegra Þingvalla- og Grafningsfjalla, enda var hún náttúrubarn fyrr og síðar.

Nú hefur Hrefna sameinast foreldrum sínum, systkinum, ættingjum og vinum sem fallin eru frá og áttu svo mörg sporin á Nesjavöllum sem víðar með henni. Guð blessi minningu þeirra og verndi.

Eftir hefðbundið nám og námskeið fór Hrefna að starfa við þjónustustörf í Tryggvaskála á Selfossi og víðar sem og við hin ýmsu störf þar sem hún bjó hverju sinni. Hún bjó um tíma í Noregi ásamt eiginmanni sínum og syni sem og í Vestmannaeyjum, en lengst af hér á höfuðborgarsvæðinu.

Hrefna var ekki mannblendin, vildi helst vera innan um sína nánustu, fjölskyldu sína og vini, það nægði henni í stað mannfjölda og glamúrs.

Áhugamál hennar voru að rækta garðinn sinn í Reykjafoldinni og ganga um falleg svæði með eiginmanni sínum og hlúa að fallegu heimili þeirra hjóna enda mikill snyrtipinni.

Þótt Hrefna væri ekki fyrir fjölmenni var hún létt í lund, hafði gaman af léttu spjalli og að spaugast um mál og málefni. Hún tók léttleikann fram yfir að ræða veikindi sín í símaspjalli sem við áttum nokkuð reglulega í veikindum hennar. Þakka ég Hrefnu fyrir þær samræðustundir sem og góðar samverustundir sem við áttum gegnum tíðina.

Ég minnist þess þegar hesta-Sigga sem fór um sveitir eystra fyrrum kom á Nesjavallabæ, fór að plástra hestinn sinn hér og þar vegna smására og þurrkubletta, að hún sagði. Þá gátu þær Hrefna og Magga frækna okkar, þá ca. 10-11 ára hnátur, ekki setið á sér að brosa að aðferðum Siggu og brást hún hin versta við. Þá hlupu þær stöllur fyrir næsta húshorn meðan mesti hláturinn gekk yfir hjá þeim, en fóru síðan til Siggu til að hjálpa henni við að plástra hestinn og allt féll í ljúfa löð. Sigga blessaði þær frænkur fyrir hjálpina í bak og fyrir daginn eftir ekki síður en annað heimilisfólk.

Hrefna var afar stolt af fjölskyldu sinni og unni henni mjög, enda mátti hún vera það. Hún minntist oft á það í spjalli sem við áttum fyrr og síðar.

Minning um kæra systur mun lifa, stundir sem hefðu mátt vera mun fleiri og vara miklu lengur. En lífið er hverfult, gefur og tekur sem tekur oft á.

Um Hrefnu væri hægt að skrifa langa minningargrein, en þessar fátæklegu línur verða að nægja að sinni. Guð verndi minningu Hrefnu og gefi fjölskyldu hennar og vinum styrk og ljós til framtíðar.

Með virðingu og þökk kveð ég og fjölskylda mín okkar kæru Hrefnu með þökk fyrir góðar samverustundir.

Við fjallavötnin fagurblá

er friður, tign og ró;

í flötinn mæna fjöllin há

með fannir, klappir, skóg.

Þar líða álftir langt í geim

með ljúfum söngvaklið,

og lindir ótal ljóða glatt

í ljósrar nætur frið.

(Hulda)

Innilegar samúðarkveðjur til eiginmanns, sonar, tengdadóttur, sonarsonar, fjölskyldu og vina Hrefnu Jónsdóttur.

Ómar G. Jónsson og fjölskylda.