Steinunn Jóhannesdóttir
Komdu með mér, lesandi góður, í göngu eftir stígnum á Laugarnestanga og við augum blasir magnaðasta útsýni sem nokkur höfuðborg getur haft upp á að bjóða. Það er ekki bara tilkomumikið og fagurt með Esjuna sem eilífan bakgrunn Viðeyjar við Sundin blá, það er líka sem opin bók inn í Söguna með stórum staf, Söguna um upphaf Reykjavíkur sem höfuðstaðar í stóru en fámennu landi. Og opnan sem okkur býðst að lesa fjallar um miðbik 18. aldar þegar hafin var bygging Viðeyjarstofu sem lokið var við að reisa 1754. Í framhaldinu kom Viðeyjarkirkja. Viðeyjarstofa og kirkjan eru elstu byggingar sem varðveist hafa á landinu, fyrstu húsin sem eru hlaðin úr tilhöggnum steini. Og þau blasa við allra augum af stígnum og víðar úr Laugarnesi, tvö stílfögur hús í grösugu skarði milli klettaborga sem skapa svipmikinn ramma um mynd sem ekki verður metin til fjár. Hjartað í Viðey. Viðeyjarstofa var embættisbústaður fyrsta íslenska fógetans, fyrsta stjórnsýslubygging landsins úr varanlegu byggingarefni. Innan veggja hennar var ráðslagað um stofnun fyrstu iðnfyrirtækja á Íslandi og þeim valinn staður í kvosinni við verslunarhöfnina Reykjavík. Þar með hófst þróun þéttbýlis á nesinu milli Skerjafjarðar og Sundanna bláu, þar sem höfuðborgin stendur nú. Róið var á bátum milli lands og eyjar. Stysta leiðin var milli lendingarvara neðan Viðeyjarstofu og Laugarnestanga, þar sem við stöndum á stígnum, sem einnig þá var göngustígur eða reiðgata. Í annars veglausu landi.
Náttúra, saga og minjar
Þetta er Sagan okkar, lesandi góður, hvort sem þú býrð í Reykjavík eða annars staðar á landinu. Milljón ára Esjuna eigum við öll, hjartað í Viðey sem mikilvægan, sýnilegan sögustað, sjóinn milli fjalls og fjöru, þetta eigum við öll. Í Laugarnesi, sem sjálft geymir langa, merka sögu jafnt ofan jarðar sem undir sverðinum, er besti og síðasti lítt byggði bletturinn í höfuðborginni til þess að virða fyrir sér þessa ómælisfegurð, lesa þessa opnu bók. Og sumarið 2016 skrifuðu þáverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, og Kristín Huld Sigurðardóttir, þáverandi forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, undir Verndaráætlun fyrir Laugarnestanga sem er á náttúruminjaskrá og ástæða þykir til að friðlýsa. Þar segir m.a. um sérstöðu svæðisins: „Náttúrufarið á Laugarnesi gerir svæðið einstakt í Reykjavík þar sem hægt er að horfa yfir nesið og út í Viðey án truflunar frá mannvirkjum nútímans. Mikilvægt er að halda í þetta menningarlandslag, sem er hvergi að finna annars staðar í Reykjavík.“
Landfylling gegn Verndaráætlun
Tveimur og hálfu ári frá þessari undirskrift sáust alvarlegar blikur á lofti yfir verndaráætluninni og fyrirhugaðri friðlýsingu. Floti þungaflutningabíla tók að sturta grjóti í sjóinn norður af tanganum og á fáum mánuðum varð þar til gríðarleg landfylling. Engin opinber kynning átti sér stað áður en leyfi var veitt fyrir þessari risavöxnu framkvæmd, en gerð var breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur, þrátt fyrir að stjórnmála- og embættismenn borgarinnar væru meðvitaðir um neikvæðar afleiðingar væntanlegrar uppbyggingar á landfyllingunni fyrir minja- og útivistarsvæðið í Laugarnesi. Byggt yrði fyrir útsýnið til hjarta Viðeyjar og tilheyrandi hluta Esjunnar.
Söguleg og náttúrufarsleg eining líkt og Þingvellir
Undirrituð rak augum í allt þetta grjót fyrir tilviljun og tók að kynna sér málavexti sumarið 2019. Í framhaldinu náðist að vekja athygli fleira fólks sem af ólíkum ástæðum er annt um Laugarnesið og lítur á þennan litla skika sem ómetanlega minja- og útivistarparadís. Mótmæli úr röðum einstaklinga og félagasamtaka leiddu til endurskoðunar á áformum Faxaflóahafna um byggingu nýrra höfuðstöðva á umræddri landfyllingu. Málinu var slegið á frest. En sl. sumar var auglýst breyting á deiliskipulagi, kenndu við Klettagarða, án þess að afleiðinganna fyrir Laugarnes og Laugarnestanga væri í nokkru getið. Tvær lóðir fyrir stórhýsi á landfyllingunni við jaðar Laugarness sýndu að borgaryfirvöld ætluðu að hunsa fyrirliggjandi verndaráætlun og leyfa að upp risi múr bygginga milli lands og eyjar. Að þessu sinni gat almenningur gert formlegar athugasemdir og mótmælin urðu umtalsverð. Í þessu máli á almenningur nefnilega rétt sem yfirvöld hljóta að viðurkenna. Laugarnes, Esjan og hjartað í Viðey mynda sögulega og náttúrufarslega einingu sem líkja má við Þingvelli. Það vantar bara ígildi þjóðgarðsstimpils. Enn sem komið er er þessi óumræðilega mikilvægi og fagri blettur í borgarlandinu öllum aðgengilegur og blasir við sjónum sem opin bók. Borgaryfirvöld hafa ekki leyfi til að rjúfa þessa einingu náttúru og sögu og farga frummyndarbókinni um tilurð Reykjavíkur, upprunasögu höfuðborgar Íslands.
Lesandi góður, taktu þátt í verja þessa dýrmætu almannaeign og skrifaðu undir áskorun til umhverfisráðherra um friðlýsingu búsetu og menningarlandslags Laugarness með vísun til fyrrnefndrar verndaráætlunar, þar sem segir m.a.: „Náttúrufarið á Laugarnesi gerir svæðið einstakt í Reykjavík þar sem hægt er að horfa yfir nesið og út í Viðey án truflunar frá mannvirkjum nútímans.“
Höfundur er rithöfundur.