Mercati di Traiano-safnið á Keisaratorgi hinnar gömlu Rómaborgar varðveitir og sýnir ekki aðeins fornminjar heldur efnir einnig til sýninga þar sem þekktum alþjóðlegum listamönnum er boðið að sýna verk sín. Þannig kallast safneignin á við samtíðina.
Árið 2012 var Rósu Gísladóttur boðin þátttaka og við það tækifæri sýndi hún tólf verk, þar á meðal sex nýja stóra skúlptúra sem staðsettir voru utandyra. Forma Dulcis var einn þeirra og einn þriggja sem Listasafn Íslands festi kaup á. Heiti verksins er á latínu og þýðir sætt form. Það er sótt í fyrirmyndina, ævafornt bökunarmót meðal muna ítalska safnsins. Þó að fyrirmynd verksins sé jafn hversdagslegur hlutur og bökunarform, þá ljær Rósa skúlptúrnum klassískan blæ grískrar og rómverskrar myndlistar sem birtist til dæmis í hreinni samhverfu, mikilfenglegri stærð og hvítum marmaralíkum litnum sem kemur birtuspili ljóss og skugga vel til skila. Í stað gifs, sem hefur verið undirstaða margvíslegrar mótunar allt frá grísk-rómverska tímanum, notar Rósa umhverfisvæna jesmonite-gifsblöndu. Hún líkist gifsi í útliti og vinnsluaðferðum en er mun harðgerðari. Þó að verkið kallist á við fortíðina þá er Rósu í mun að það vísi jafnframt til samtíðar því klassísk form koma fyrir á öllum tímum. Einnig er henni hugleikið hvaða leifar nútímamenn skilji eftir sig, en það var inntak eldra verks, Fornminjar framtíðarinnar, sem samanstóð af gifsafsteypum af fjölbreyttum plastílátum samtímans.
Með það í huga að fornminjar framtíðarinnar verði ef til vill fyrst og fremst plastúrgangur, sem mengar umhverfið og gerir vatnið ódrekkandi, nefndi Rósa sýninguna í Róm Come l'acqua come l'oro … og vísaði með því í þekkt ljóð eftir forngríska skáldið Pindar sem sagði eitthvað á þá leið að þótt gull væri vissulega skært væri það einskis virði ef við hefðum ekki vatn (úr viðtali við Rósu í Morgunblaðinu sem birtist 18. júní 2012).
Rósu voru veitt fyrstu Gerðarverðlaunin sem stofnsett voru árið 2020 til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara og eru veitt listamanni fyrir ríkulegt framlag til höggmynda- og rýmislistar á Íslandi. Rósa nam myndlist á Íslandi, í Þýskalandi og Bretlandi og sýnir víða. Hún hefur einnig unnið verk sem kallast á við safnbyggingar og verk Einars Jónssonar og Ásgríms Jónssonar.