Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Athöfn sem haldin verður í Eldheimum í Vestmannaeyjum í kvöld, í tilefni af því að 52 ár eru frá upphafi eldgossins á Heimaey, verður helguð Ingibergi Óskarssyni sem hefur síðasta rúma áratug safnað saman upplýsingum um brottflutning íbúa frá Eyjum nóttina sem gosið hófst. Meðal annars verður opnuð sérstök vefsíða á vefnum heimaslod.is þar sem upplýsingarnar sem Ingibergur hefur safnað verða aðgengilegar.
„Ég byrjaði að safna þessu saman árið 2013 og setti þá upp síðu á Facebook þar sem óskað var eftir upplýsingum frá fólki um hvaða bátum það hefði farið með frá Eyjum. Þótt 40 ár væru þá liðin frá gosinu voru um 70% þeirra, sem voru í Eyjum um gosnóttina, enn á lífi og það var mikill vilji meðal fólks að veita þessar upplýsingar,“ sagði Ingibergur við Morgunblaðið.
Hann segir að á síðunni hafi fólk getað merkt við þá báta sem það fór með frá Vestmannaeyjum og hann hafi síðan haft samband við viðkomandi til að afla nánari upplýsinga.
Þessi söfnun hefur staðið yfir síðan og nú hefur Ingibergur skráð upplýsingar um 5.049 manns, 2.630 karla og 2.369 konur, auk 50 ófæddra barna í móðurkviði, sem fóru frá Eyjum um nóttina með 58 bátum og skipum, flugi eða sátu um kyrrt þessa nótt. Að auki komu a.m.k. þrír bátar til Eyja um morguninn til að sækja fólk en fóru farþegalausir til baka. Skráð er hvar hver farþegi átti heima, með hvaða báti hann fór og hverjir voru í áhöfn. Einnig hverjir fóru með flugi.
Mikil vinna
„Fyrsta árið var mikil vinna að halda upplýsingunum saman en eftir því sem lengra leið hægðist á og undir lokin hefur þetta verið mikil seigla að ljúka þessu,“ sagði Ingibergur. „Ég ákvað að láta „laumufarþega“, ófædd börn, fylgja með, og með því er ég í raun að sýna fram á hvað mikið af ungu fólki var í þessum hópi. Meðalaldur íbúa í Eyjum á þessum tíma var aðeins um 29 ár.“
Ingibergur segir að örugglega séu einhverjir enn óskráðir. Þá séu í skránni nöfn liðlega 100 einstaklinga sem fóru með bátum um nóttina en af ýmsum ástæðum sé ekki vitað með hvaða báti þeir fóru.
Bátar af ýmsu tagi
Ingibergur segir að bátarnir sem fluttu fólkið hafi verið af ýmsu tagi, allt frá litlum tréfiskibátum upp í stærri skip. Þáverandi Herjólfur hafi verið á leið til Vestmannaeyja með farþega frá Reykjavík og verið staddur undan Reykjanesi þegar fréttir bárust af eldgosinu. Ákveðið var að sigla áfram til Vestmannaeyja. Þar fóru einhverjir í land til að hitta ættingja en skipið fór til baka með hluta af farþegunum og nýja farþega.
Fyrir nokkrum árum setti Ingibergur upp vefsíðuna 1973-alliribatana.com þar sem fyrrgreindar upplýsingar hafa verið aðgengilegar og hægt er að leita þar eftir nöfnum. Hann segir að sú síða verði tekin niður smátt og smátt nú þegar gagnagrunnurinn hefur fengið varanlegt heimili.
Ingibergur heiðraður
Dagskráin í Eldheimum hefst kl. 19.30 í kvöld. Þar mun Ingibergur Óskarsson fá sérstaka viðurkenningu fyrir starf sitt, vefsíðan með upplýsingunum sem hann hefur aflað verður opnuð og haldin verða erindi um atburði gosnæturinnar.
Jafnframt verður sérstök sýning opnuð í Safnahúsinu í Vestmannaeyjum í dag undir yfirskriftinni 1973 – Allir í bátana – fyrir og eftir gos. Verður sú sýning opin áfram.