Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Fólk les og kaupir bækur hvað sem sagt er. Ljóðin lifa og góðar skáldsögur standa alltaf fyrir sínu og eru eftirsóttar,“ segir Eiríkur Ágúst Guðjónsson, hjá Bókinni við Klapparstíg í Reykjavík. Þar hófst í gær markaður sem efnt er til alltaf öðru hvoru hjá versluninni, en þar eru í hillum nærri 100.000 notaðar bækur sem komnar eru í endursölu. Efnisflokkarnir eru samkvæmt skilgreiningu bóksalanna um 30 og þar má nefna ljóð, skáldsögur, æviminningar, ættfræði, héraðssögu, þjóðlegan fróðleik, þýdda erlenda klassík og svo mætti áfram telja.
Upplestur í hjarta búðar
Á dögunum voru tvö stór einkasöfn seld Bókinni, hvort um sig með þúsundum titla. Því geta þeir Ari Gísli Bragason og Eiríkur Ágúst borið nýtt á borð og í hillur daglega. Þegar svo ber undir lesa þeir upp úr bókum og þá er efnið valið á staðnum.
„Við höfum útbúið sérstakt rými með þessa upplestra í huga og þar má segja að hjarta búðarinnar slái,“ segir Eiríkur Ágúst sem sinnt hefur bókastússi í áratugi. Frásagnir um fall bókmennta segir hann stórlega ýktar – góðar frásagnir standi alltaf fyrir sínu og bókarformið haldi velli þótt úrtöluraddirnar heyrist alltaf og reglulega.
„Íslensku þjóðskáldin eru einhverjum sjálfsagt gleymd, en samt er alltaf mikið spurt um bækur og ljóð eftir til dæmis Jónas Hallgrímsson, Kristján fjallaskáld, Pál Ólafsson, Davíð Stefánsson og svona gæti ég líka haldið áfram. Gamlar og góðar skáldsögur standa líka alltaf fyrir sínu, bækur eftir til dæmis Guðmund G. Hagalín, Jón Óskar, Guðmund Daníelsson og fleiri slíka. Í erlendu deildinni er líka alltaf áhugi fyrir bókum stórhöfunda eins og Ernests Hemingways, Selmu Lagerlöf og Johns Steinbecks svo ég tiltaki nokkra,“ segir Eiríkur Ágúst.
Hann getur enn fremur þess að tiltækt sé gott úrval af listaverkabókum, en sú var tíðin að algengt var að settar væru saman bækur um helstu myndlistarmenn þjóðarinnar. Slíkar voru vinsælar og voru í dýru gildi hafðar; bækur til dæmis um Jóhannes Kjarval, Ásgrím Jónsson, Tryggva Ólafsson, Hring Jóhannesson og Gunnlaug Scheving, svo örfá nöfn séu nefnd.
Til 3. febrúar
Markaðurinn í Bókinni stendur til 3. febrúar. Bókabúðin er opin alla virka daga frá kl. 12-18 og á laugardögum frá kl. 13 og fram undir kvöld. Einnig er hægt að panta á bokin.is og allt sem þar býðst er með 25% afslætti næstu dagana.