Sigríður Jónsdóttir fæddist 16. maí 1952. Hún lést 7. janúar 2025.

Útför hennar fór fram 22. janúar 2025.

Í dag kveðjum við kæra vinkonu sem lést eftir erfið veikindi, alltof ung. Við Sigga vorum bekkjarsystur í MH og útskrifuðumst þaðan vorið 1972. Bekkurinn okkar, 4. R, var skemmtilegur og samheldinn og eigum við margar góðar minningar frá menntaskólaárunum. Ein þeirra eru „miðvikudagspartíin“ þar sem við hittumst gjarnan eftir skóla á miðvikudögum, oftast heima hjá Siggu. Sátum á gólfinu í litla herberginu sem hún leigði. Fórum í leiki, eins og t.d. „hver stal kökunni úr krúsinni“, sungum og einstaka sinnum var drukkið smá hvítvín, aldrei mikið! Margt fleira var til gamans gert og er það vel geymt í minningunni og verður ekki tíundað hér.

Eins og gengur og gerist skilur oft leiðir eftir menntaskóla, en Sigga tengdist mér og fleirum úr 4. R áfram þar sem mörg okkar vorum samferða Bjarna í læknanáminu. Læknaárgangurinn okkar sem útskrifaðist 1979 hefur haldið vel hópinn og hefur hist reglulega, m.a. farið í árlegar jeppaferðir innanlands, utanlandsferðir, haldið partí fyrir árshátíð o.fl. Sigga og Bjarni hafa iðulega verið með í þeim hittingum og við því átt margar góðar stundir saman.

Sigga var glæsileg kona, dökk yfirlitum og með fallegt bros sem náði alveg til augnanna. Hún hafði hlýja og góða nærveru, var róleg og yfirveguð og ekki mikið að fjasa um hlutina. Þrátt fyrir gigt og tilheyrandi verki kvartaði hún ekki þótt hún gæti ekki alltaf gert það sem hana langaði til. Hún las mikið, hafði gaman af að ferðast og þau Bjarni fóru nokkrum sinnum á fjarlægar slóðir.

Það var reiðarslag þegar Sigga greindist sl. vor með heilaæxli. Í veikindum sínum og langri og erfiðri sjúkrahúslegu heyrði ég hana aldrei kvarta. Hún tók þessu með sinni stóísku ró.

Elsku Sigga fór alltof fljótt. Hennar er sárt saknað af okkur gömlu bekkjarfélögunum úr 4. R og vinkonunum úr læknahópnum.

Elsku Bjarni, Agnar, Ólöf, Kjartan og fjölskyldur. Innilegar samúðarkveðjur frá okkur Sigga, hugurinn er hjá ykkur. Minning um yndislega vinkonu lifir.

Katrín Davíðsdóttir (Kata).

Kær vinkona og samstarfskona er fallin frá allt of snemma.

Kletturinn á „próteinlabbi“ LSH til margra ára hætti að vinna fyrir tveimur og hálfu ári, ætlaði sannarlega að fara að njóta ferðalaga og samveru við Bjarna, börnin og barnabörnin. Sinna sínu fólki sem hún var svo stolt af og þótti svo óendanlega vænt um. Hún hlakkaði til.

Sigga var frábær lífeindafræðingur, mikil fagmanneskja, hafði yndi af starfinu og naut þess að miðla af reynslu sinni og þekkingu.

Hún var dagvinnukona í hlutastarfi síðustu árin og próteinherbergið var hennar staður. Vaktavinnufólkið kom og fór og Sigga hafði endalausa þolinmæði við að kenna og þjálfa nýtt fólk, taka á móti nemum og miðla af viskubrunni sínum. Engar spurningar voru of heimskulegar, hún hækkaði aldrei róminn þótt endurtaka þyrfti flókna hluti aftur og aftur, fagmennskan alltaf í fyrirrúmi. Alltaf stutt í hlýju og húmor, álagið oft mikið í vinnunni og þá gjarnan svart kaffi innan seilingar.

Við vorum nokkrar sem stoppuðum þó lengur í herberginu hjá Siggu, þéttur hópur sem naut þess að vera saman. Mismunandi vaktir, erill og vinnuálag takmarkaði samveruna í vinnunni svo við fórum að hittast utan LSH nokkrum sinnum á ári síðustu árin. Við stofnuðum kaffiklúbb. Sumar búnar að þekkjast frá því á áttunda áratugnum þegar við unnum saman á Landakoti, aðrar bættust í hópinn á LSH eftir alls konar sameiningar spítala.

Sigga var frábær manneskja, næm á fólk og yndislegur vinur. Aldur skipti ekki máli, hún átti samleið með öllum. Gat spjallað um allt, fagurkeri og listunnandi, vel að sér á mörgum sviðum, forvitin og áhugasöm um fólk og málefni. Mikið dæmalaust eigum við eftir að sakna hennar.

Kaffiklúbburinn hittist í maí síðastliðnum. Sigga var þá orðin alvarlega veik, en það var samt glatt á hjalla. Við nutum þess að vera saman þrátt fyrir áfall og sorg. Sigga var að búa sig undir fjölskylduferð til Ítalíu í júní og hlakkaði mikið til. Hún naut þessarar ferðar og sagði eftir heimkomu „að sitja og fylgjast með ungviðinu leika sér og njóta í veðurblíðu var dásamlegt“. Fjölskyldan var alltaf í fyrirrúmi hjá Siggu.

Þakklátar fyrir samfylgdina og allt sem Sigga gaf okkur kveðjum við kæra vinkonu.

Innilegar samúðarkveðjur elsku Bjarni, Agnar, Ólöf, Kjartan, tengdabörn og barnabörn.

Stefana, Ella, Sveindís, Hafrún og Kristey.

Sumarið 1990 hittust tvær litlar stúlkur fyrir utan Reynimel 59. Önnur heitir Ólöf og hin María og hafa þær verið góðar vinkonur allar götur síðan.

Með Ólöfu fylgdu Sigga og Bjarni og stóri bróðirinn Agnar. Kjartan átti svo eftir að bætast við. Fjölskyldan hafði búið í Bandaríkjunum og það er mér minnisstætt að Sigga og Bjarni voru alltaf í íþróttaskóm sem inniskóm. Þetta þótti stúlku, sem var vön móður sinni í tréklossum heima fyrir, forvitnilega framandi. Svo horfðum við vinkonurnar á „Beetlejuice“ og Ólöf kom með samloku með hnetusmjöri og sultu í skólann á meðan ég hélt mig við kæfubrauð.

Það var alltaf notalegt á Reynimel 59 og gott andrúmsloft. Ég man best eftir Siggu brosandi og oft að brasa eitthvað í eldhúsinu en frægastur og bestur var chili-kjúklingurinn sem var ómissandi hluti af afmælishaldi Ólafar. Svo færðu þau sig um set á Tjarnargötuna og þá mátti oft finna Siggu og Bjarna í bókaherberginu að hlusta á klassíska tónlist, lesa og spjalla. Þar leyfðu þau okkur gelgjunum oft að gista og svo síðar halda partí. Oft var örugglega enginn svefnfriður en Sigga og Bjarni kvörtuðu ekkert. Þau héldu bara sínu striki og fóru að sofa klukkan 22, sem okkur fannst ógurlega snemmt. Nú í seinni tíð skil ég mun betur skynsemina á bak við þessar svefnvenjur!

Þau voru samhent og góð hjón sem var gott að koma til og Tjarnargatan er tómleg án Siggu.

Ég þakka góðri konu fyrir samfylgdina og votta fjölskyldunni dýpstu samúð mína.

María (Mæja).

Lífið er breytingum undirorpið. Fyrir tæpum 50 árum varð til dýrmæt vinátta, þegar við ásamt fleirum hófum nám í meinatækni við Tækniskóla Íslands, sem svo síðar var nefnt lífeindafræði.

Við vorum ungar og sprækar, nokkuð áhugasamar um námið en nutum líka lífsins hvort heldur innan skólans eða utan. Þegar kom að starfsnáminu skiptist hópurinn í tvennt; annars vegar þær sem fóru á Borgarspítalann og hins vegar við, sem réðum okkur á rannsóknarstofur Landspítalans við Hringbraut og HÍ.

Við átta höfum haldið hópinn, sem þó tvístraðist á ýmsan hátt á mismunandi tímum, börn bættust við, nám og störf innanlands sem erlendis, sumar sneru sér að öðru en alltaf hélst vinskapurinn.

Allt frá námsárunum eigum við góðar og ljúfar minningar, sem kalla fram góðan hlátur, gleði og hlýju. Þegar við náðum að hittast var oft stutt í gamanið og það var ekki síst Sigga, sem átti sinn þátt í því. Hún var góðum gáfum gædd, umræður og skoðanaskipti við hana voru alltaf gefandi og skemmtileg og var húmorinn aldrei langt undan.

Það er sárt að sjá á eftir Siggu, sem er fyrst okkar til að kveðja lífið. Við minnumst hennar með væntumþykju og yl góðra minninga.

Sigga starfaði alla starfsævina sem lífeindafræðingur og var ábyrg og virt í sínum störfum. Hún var ávallt traust og hlý vinkona með blik í auga, sem gat gert grín að okkur og einnig sjálfri sér.

Við sendum Bjarna, Agnari, Ólöfu, Kjartani og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Aðalbjörg (Abba), Ágústína (Ína), Ása Helga, Helga, Inga, Margrét og Unnur.

Það er erfitt að missa góða vinkonu, en það var Sigga. Við urðum vinkonur sex ára í Inguskóla á Ísafirði, áttum heima nálægt hvor annarri svo við vorum snemma mikið saman. Við sátum alltaf saman í barnaskólanum og gagnfræðaskólanum nema þegar við vorum látnar sitja hjá strákum því við töluðum svo mikið. Síðar flutti mín fjölskylda upp á Engjaveg og mikil var gleðin þegar fjölskylda Siggu flutti líka í nágrennið við okkur. Allan gagnfræðaskólann kom hún við á morgnana og gengum við saman í skólann, kílómetra fram og til baka nokkrum sinnum á dag, oft í vonskuveðri eins og gerist á Vestfjörðum.

Við studdum ætíð hvor við aðra þótt lífið væri stöðugt að breytast. Mamma Siggu, Olla, var yndisleg kona sem gott var að setjast hjá við eldhúsborðið á Strýtu og spjalla við um lífið og tilveruna. Hún lagði ríka áherslu á það við okkur að halda í vináttuna, það myndi styrkja okkur í gegnum lífið. Ég held við höfum aldrei gleymt þessu veganesti í framtíðina. Síðan yfirgáfum við Ísafjörð, hún fór í MH og ég í MR. Í háskólanum kynntist hún Bjarna manni sínum en á svipuðum tíma veiktist Olla móðir hennar og dó. Þetta var erfiður tími en fjölskylda Bjarna var henni mjög góð og kunni hún svo sannarlega að meta það. Alltaf vorum við í sambandi þótt við værum ekki alltaf að hittast. Þau fóru til Boston og heimsóttum við Mummi þau þangað. Mikið var ég glöð þegar þau fluttu heim, þá urðu heimsóknirnar reglulegri, börnunum fjölgaði og um svo margt að spjalla. Það var reyndar nokkuð langt á milli okkar; hún við Tjörnina í Reykjavík og ég í Mosfellsbæ.

Svo urðu börnin stór og fluttu að heiman. Fjölskyldurnar stækkuðu og um svo margt að spjalla. Þá komum við okkur upp þeirri reglu að spjalla saman á sunnudagsmorgnum, en þá vorum við oft einar heima. Rætt var þá um þjóðfélagsmál, vinnuna, fjölskylduna og svo auðvitað líðan hvor annarrar. Við gáfum hvor annarri heilræði (ef önnur vissi betur) og leituðum í styrkinn hvor hjá annarri.

Ég naut þess að koma í heimsókn í gamla húsið við Tjörnina sem henni þótti svo vænt um. Ganga með henni um miðbæ Reykjavíkur sem hún þekkti svo vel og sagði mér frá því sem fyrir augun bar. Já, söknuðurinn er mikill og stórt skarð í hjartanu eftir fráfall Siggu vinkonu.

Við Guðmundur og fjölskylda sendum Bjarna og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Þuríður Yngvadóttir.