Æfing Óperukórinn í Reykjavík, sem heitið hefur ýmsum nöfnum í tímans rás, hér á æfingu síðasta mánudagskvöld. Kirkjan ómar öll, eins og þar stendur.
Æfing Óperukórinn í Reykjavík, sem heitið hefur ýmsum nöfnum í tímans rás, hér á æfingu síðasta mánudagskvöld. Kirkjan ómar öll, eins og þar stendur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fátt er skemmtilegra að syngja en þetta. Svið þessa meistarastykkis tónbókmenntanna er breitt og atriði mörg og krefjandi. Fjölbreytnin er slík að þessu má líkja við konfektkassa sem fullur er af girnilegum og góðum molum,“ segir Íris Sveinsdóttir, formaður Óperukórsins í Reykjavík

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fátt er skemmtilegra að syngja en þetta. Svið þessa meistarastykkis tónbókmenntanna er breitt og atriði mörg og krefjandi. Fjölbreytnin er slík að þessu má líkja við konfektkassa sem fullur er af girnilegum og góðum molum,“ segir Íris Sveinsdóttir, formaður Óperukórsins í Reykjavík. Fólk úr kórnum hefur síðustu vikur – og raunar alveg síðan í nóvember – æft Sálumessu Mozarts og flytur hana á tónleikum í Eldborgarsal Hörpu mánudagskvöldið 27. janúar næstkomandi kl. 20.

Eitt áhrifamesta verk tónlistarsögunnar

Stykkið sem nú verður tekið, Requiem í d-moll, K. 626 eftir Wolfgang Amadeus Mozart, er af mörgum talið eitt áhrifamesta og þekktasta verk tónlistarsögunnar. Mozart samdi verkið árið 1791, en náði þó ekki að ljúka höfnu verki. Hann lést þegar hann var að skrifa 6. kaflann en var þó búinn að skrifa átta fyrstu takta hans. Franz Xaver Süssmayr, vinur og nemandi Mozarts, lauk verkinu út frá þeim skissum sem fyrir lágu og útkoman þykir einstök

„Þetta magnaða verk minnir margt á hans bestu sviðslistaverk hvað varðar dramatískan mátt en þar sem óperur Mozarts fjalla um fegurð og áskoranir lífsins er sálumessan hans helguð dauðanum og þeirri dulúð sem honum fylgir,“ segir í kynningu á verkinu.

Óperukórinn í Reykjavík, undir stjórn Arons Axels Cortes, flytur sálumessuna nú í 18. sinn. Lengi og allt þar til nú var hefðin sú að flytja verkið aðfaranótt 5. desember ár hvert. Hefja þá raustina laust eftir miðnætti eða nærri dánarstund meistarans, sem lést aðeins 35 ára. Það var í Salzburg í Austurríki, hvar nafni tónskáldsins er haldið hátt á lofti.

Dagur Mozarts og Verdis

Ætlun þeirra sem skipa Óperukórinn var eins og fyrri ár að syngja sálumessuna aftur á 5. degi desember. Svo vildi þó til í síðasta mánuði að salurinn var bókaður einmitt þá og góð ráð því dýr.

„Garðar Cortes, sem svo lengi stjórnaði kórnum, nefndi við mig einhverju sinni að allt eins væri líka hægt að flytja þetta verk á fæðingardegi Mozarts sem er 27. janúar. Þetta rifjaðist upp fyrir mér í fyrrahaust og þegar málið var kannað var Harpa einmitt laus umrædda stund og þannig gekk málið upp,“ segir Íris. Hún getur þess að 27. janúar sé einnig dánardægur Verdis; þess mikla tónskálds. Margt fari því hér saman og útkoman verði því fólki vætanlega eftirminnileg.

„Óperukórinn í Reykjavík er einstakur; skipaður bæði vönu söngfólki og einnig þeim sem eru að hefja feril sinn. Uppsetning og æfingar á þessu verki eru mjög áhugaverðar,“ segir Aron Axel Cortes. Hann hefur stjórnað kórnum frá árinu 2023; tók þá við sprotanum þegar Garðar Cortes faðir hans lést. Þetta er raunar kórinn sem Garðar stofnaði 1973, endur fyrir löngu, og hét fyrst Kór Söngskólans í Reykjavík. Síðar þegar Garðar varð stjórnandi Óperunnar í Reykjavík var kórinn kenndur við þá stofnun en nú er nafnið einfaldlega, eins og fyrr segir, Óperukórinn í Reykjavík.

Sinfónía og einsöngvarar

„Sálumessa Mozarts er ekki bara kirkjulegt verk; margt í því minnir á dramatískar óperur. Lög og stef úr messunni koma fyrir til dæmis í kvikmyndum sem flestir ættu að þekkja. Og þarna eru líka kaflar sem kalla á kröftugan söng og þá hjálpar til að vera með stóran og fjölmennan kór,“ segir Aron.

Sinfóníuhljómsveit undir stjórn Unu Sveinbjarnardóttur, skipuð 40 hljóðfæraleikurum, kemur fram með Óperukórnum í Reykjavík af þessu tilefni. Þar verða einnig fjórir einsöngvarar, Hanna Ágústa Olgeirsdóttir sópran, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir messósópran, Kolbeinn Jón Ketilsson tenór og Kristinn Sigmundsson syngur bassann.
Látinna, til dæmis fólks sem áberandi var í tónlistarlífinu, verður minnst við flutning sálumessunnar. Hægt er að geta þess fólks við aðstandendur tónleikanna og nöfn hinna látnu verða þá í prentaðri tónlistardagskrá.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson