Ágústa Þorgilsdóttir fæddist á Ísafirði 8. nóvember 1936. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Móbergi 12. janúar 2025.

Foreldrar Ágústu voru Agnes Lára Magnúsdóttir, f. 18.10.1915, d. 19.12.2009, og Þorgils Árnason, f. 25.2.1915, d. 27.12.1991. Systkini Ágúst eru Ragnheiður G., f. 9.12.1937, Árni K., f. 27.4.1940, Magnús, f. 8.8.1941, Ásbjörn V., f. 31.12.1944, Gunnlaugur, f. 25.9.1946, d. 12.3.1988, Valdís, f. 14.8.1948, Hjördís, f. 4.4.1951, Helga L., f. 19.9.1952, d. 21.5.1996 og Þorgils, f. 4.2.1955.

Ágústa giftist 28.3. 1959 Gunnlaugi Jóhannssyni, f. 8.10.1924, d. 28.12.2010. Synir þeirra eru: 1) Lárus, f. 8.9. 1956, kvæntur Guðrúnu Kristófersdóttur, synir þeirra eru a) Kristófer Rúnar, kvæntur Hólmfríði Lilju Jónsdóttur, þau eiga fimm börn og þrjú barnabörn, b) Gunnlaugur, kvæntur Indiönu Sólveigu Marquez, þau eiga tvö börn, c) Stefán, maki Helga Dögg Snorradóttir, þau eiga tvær dætur. 2) Haukur, f. 19.9.1962, kvæntur Hrefnu Hreiðarsdóttur, börn hans úr fyrri sambúð eru a) Ingiríður, gift Hauki Marteinssyni og á hún tvö börn úr fyrri sambúð, og b) Ásbjörn Halldór, kvæntur Fjólu Hallsdóttur og eiga þau eina dóttur. Dóttir Hrefnu er c) Ýr og á hún eina dóttur. 3) Jóhann, f. 29.8.1969, kvæntur Dagbjörtu Helgu Guðmundsdóttur, dætur þeirra eru a) Linda Björk, gift Hálfdáni H. Hálfdánarsyni og eiga þau fjóra syni og b) Margrét Ágústa, unnusti Viktor Gísli Eyþórsson.

Ágústa ólst upp á Ísafirði hjá föðurömmu og –afa til fimmtán ára aldurs, þá fór hún í vist til Vilmu móðursystur sinnar í Hveragerði. Réðst eftir það kaupakona að Núpum í Ölfusi, þar sem hún kynntist tilvonandi eiginmanni sínum. Þau bjuggu á Núpum til ársins 1997 en þá fluttu þau til Hveragerðis. Ágústa bjó síðustu árin á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi.

Útför Ágústu fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 23. janúar 2025, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku mamma, það er ekki auðvelt að setjast niður og ætla að skrifa nokkur orð um hana mömmu. Minningarnar streyma fram í hugann og ég veit ekki hverjar ég á að velja því þær eru allar góðar. Góðar minningar og sögur sem ég mun deila með dætrum mínum og barnabörnum. Mamma var dugleg, félagslynd, með skemmtilegan húmor og handlagin svo eitthvað sé nefnt. Þær eru ófáar peysurnar og útsaumur sem hún gerði í gegnum tíðina og voru dætur mínar ætíð í fallega prjónuðum peysum frá ömmu.

Hún var ung þegar hún kom að Núpum í Ölfusi og kynntist pabba þar sem þau bjuggu til 1997 en þá fluttu þau til Hveragerðis. Hún var heimavinnandi húsmóðir þar til ég var fimm ára gamall. Þá fór hún að vinna á Dvalarheimilinu Ási og síðar vann hún á Heilsustofnun NLFÍ.

Hún var virk í kvenfélaginu í sveitinni og var í saumaklúbbi sem hún hafði gaman af. Hún hafði einnig gaman af því að ferðast og fóru þau pabbi í bændaferðir og sólarlandaferðir, en í seinni tíð þegar heilsunni fór að hraka gat hún ekki ferðast utanlands en þeir voru ófáir bíltúrarnir sem ég og fjölskyldan fórum í með henni.

Mamma fylgdist alltaf vel með afkomendum sínum og hafði góða yfirsýn yfir hópinn sinn sem hún var svo stolt af. Parkinson var hennar ferðafélagi síðustu árin. Hún bjó á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi þar sem vel var hugsað um hana.

Ég minnist mömmu með þakklæti fyrir allt sem hún hefur gefið mér og minni fjölskyldu.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð

(Þórunn Sigurðardóttir)

Hvíl í friði elsku mamma.

Þinn

Jóhann.

Okkur systurnar langar að minnast elsku ömmu með örfáum orðum. Það var alltaf gott að koma til ömmu og afa, við eyddum ófáum stundum með þeim og máttum alltaf gista ef við vildum. Við sköpuðum margar minningar með þeim og eftir að afi lést vorum við mikið hjá ömmu. Amma snerist í kringum okkur og vildi allt fyrir okkur gera. Það var ósjaldan sem hún eldaði fiskibollur í dós með ýmist bleikri eða gulri sósu en það fór eftir því hvor okkar fékk að ráða í það skiptið. Amma átti mikið af fallegum fötum og fengum við oft að máta þau og þegar við urðum eldri þá gaf hún okkur dragtir og kápur sem við notum enn. Hún var alltaf með eitthvað á prjónunum og eigum við margar fallegar peysur eftir hana.

Amma sýndi okkur barnabörnunum mikinn áhuga og fylgdist vel með hvað allir voru að gera. Eftir að hún fór á hjúkrunarheimilið Móberg fórum við oft í heimsókn til hennar. Amma hafði gaman af langömmubörnunum sínum og spurði hún mikið um „litlu skæruliðana“ sem eru synir Lindu Bjarkar. Þeir áttu margar góðar stundir með langömmu og sakna hennar. Það er líka sárt að amma kemur ekki til með að hitta ófætt barn Margrétar Ágústu en amma var mjög spennt þegar henni var sagt að von væri á barni, hún sagði alltaf að börn væru guðsgjöf.

Elsku amma, við söknum þín svo mikið, við eigum svo margar góðar minningar og þú kenndir okkur svo margt. Hafðir alltaf tíma fyrir okkur.

Hvíl í friði, elsku amma.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson
frá Presthólum)

Þínir englar,

Linda Björk og
Margrét Ágústa.